Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 45: #12stig

    Við fylgdumst með Eurovision í kvöld og vorum stolt af okkar fólki í Baku. Það var líka gaman að fylgjast með og taka þátt í samtalinu á Twitter þar sem fjöldi Íslendinga tísti um Eurovision. Fjörið verður líklega enn meira á laugardaginn þegar keppt verður til úrslita.

    Takk Gréta Salóme og Jónsi fyrir ykkar framlag til fertugasta og fimmta gleðidags.

  • Gleðidagur 44: Sumarblóm

    Untitled

    Myndin segir meira en þúsund orð á fertugasta og fjórða gleðidegi.

  • Gleðidagur 43: Gefðu góð kaup

    Basarinn

    Í dag var haldin vorhátíð í Langholtskirkju. Ómissandi hluti af vorhátíðinni er basar kvenfélagsins. Þar má bæði láta gott af sér leiða og gera góð kaup. Á einu borði var mikið barnadót og einn strákurinn á heimilinu gerði kostakaup í flottu mótorhjóli. Þarna var líka að finna flottar kommóður og útskorinn skenk, svo eitthvað sé nefnt.

    Fólkið í sókninni gefur það sem er selt á basarnum. Einhverjir nýta tækifærið til að koma áfram því sem ekki er lengur þörf fyrir, taka til í geymslunni. Peningarnir sem safnast á basarnum eru notaðir til að efla starfið í sókninni og styrkja þau sem þurfa. Þetta er fyrirmyndariðja og hún er þakkarefni okkar á fertugasta og þriðja gleðidegi.

  • Gleðidagur 42: Skeggið er karlmannsprýði

    Skegg

    Við skemmtum okkur yfir vefnum Better with a beard í dag. Þar er því haldið fram að allir karlmenn líti betur út með skegg. Myndirnar tala sínu máli. Þessi er af Matt LeBlanc sem lék Joey í Friends og hefur skemmt fjölskyldumeðlimum á öllum aldri.

    Á fertugasta og öðrum gleðidegi fögnum við vel snyrtu skeggi sem er svo sannarlega prýði þess sem það ber.

  • Gleðidagur 41: Fimmtíukall fyrir umhverfið

    Kaffismiðjan

    Þessi skilaboð til kaffiunnenda mátti lesa á kaffivélinni góðu á Kaffismiðju Íslands:

    Þá er komið að því:
    Við ætlum að vera umhverfisvænni.
    Frá og með mánudeginum
    14. maí kosta pappamálin
    50 kr.-

    Skilaboðunum fylgdi líka ný vörutegund á Kaffismiðjunni: Fjölnota kaffimál af ýmsum toga. Þau eru umhverfisvæn og frekar flott.

    Þetta finnst okkur til fyrirmyndar hjá þeim Sonju og Immu. Um leið og við þökkum fyrir kaffisopann í morgun viljum við hrósa þeim stöllum fyrir framtakið. Á fertugasta og fyrsta gleðidegi þökkum við fyrir stór og smá átaksverkefni í þágu umhverfisins.

  • Gleðidagur 40: Uppstigningardagur á táknmáli

    SignWiki er nýtt vefsvæði sem veitir aðgang að íslenskri táknmálsorðabók, kennsluefni, æfingum og fræðsluefni. Þetta er verkefni á vegum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra en er eins og aðrir wikivefir opinn notendum sem geta lagt til efni og tákn og breytt og bætt það sem aðrir hafa gert.

    Á fertugasta gleðidegi deilum við með ykkur tákninu fyrir uppstigningardag og fögnum auknu aðgengi að íslensku táknmáli í gegnum nýja tækni.

  • Gleðidagur 39: Brönugrasið

    The orchid

    Á þrítugasta og níunda gleðidegi viljum við deila með ykkur mynd af uppáhaldsorkídeu. Blómin gleðja.

  • Gleðidagur 38: Harpa

    Harpa

    Harpa er rúmlega eins árs um þessar mundir. Á rúmu ári hefur orðið að samkomustað Íslendinga þar sem við njótum menningar af ýmsum toga. Þar er líka gott að sitja og sötra kaffi eða te og eiga samtal um lífið og tilveruna.

    Á þrítugasta og áttunda gleðidegi gleðjumst við yfir tónlistarhúsinu sem er bæði tákn fyrir hrun og upprisu.

  • Gleðidagur 37: Gleði í níundu

    Á þrítugasta og sjöunda gleðidegi höfum við ánægju af níundu sinfóníu Beethovens í flutningi Prúðuleikaranna. Við vonum að það gerið þið líka.