Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bæn um verslunarmannahelgi

    Við hugsum til allra þeirra sem nú undirbúa ferð út á land, á hátíðir, í sumarbústaði, í göngur, til að hitta vini og ættingja, til að skemmta sér, sýna sig og sjá aðra.

    Guð, við felum þér öll þau sem leggja land undir fót þessa helgi og biðjum þig að gæta þess að ekkert illt hendi þau og að þau komist heil heim að helgi lokinni.

    Vak yfir vegunum þar sem við keyrum. Gerðu þau sem stjórna ökutækjum árvöku, varkár og meðvituð um ábyrgð sína.

    Vertu með í gleðskap helgarinnar og gefðu sanna gleði. Haltu utan um þau sem villast og leið þau á öruggan stað.

    Gerðu okkur algáð og ábyrg í samskiptum við aðra. Lát okkur minnast þess að hvert og eitt erum við sköpuð í þinni mynd og að okkur ber að sýna meðsystkinum okkar virðingu í öllum aðstæðum.

    Geymdu í hendinni þinni alla unglingana sem skemmta sér saman um þessa helgi. Gerðu stráka og stelpur meðvituð um að þau bera ábyrgð hvert á öðru og eiga að gæta hvers annars. Gerðu tímann þeirra saman bjartan og bæg frá þeim ógæfu misnotkunar og valdbeitingar.

    Við þökkum fyrir fallega landið okkar, dýrmætu náttúruna, fjöllin, grjótið, grösin og vötnin. Gerðu okkur minnug þess að náttúran er þín og þess vegna eigum við að umgangast hana með allri virðingu, aðgát og auðmýkt.

    Vertu með öllum sem sinna störfum sínum þessa helgi. Takk fyrir löggæslu, heilbrigðisstarfsfólk, þjónustuaðila og listafólk sem leggur sitt af mörkum til að við getum átt öruggan, þægilegan og skemmtilegan tíma.

    Vertu líka með öllum þeim sem eru heima og komast ekki í ferðalög um þessa helgi.

    Guð, við þökkum þér fyrir ljúfleika sumarsins og gleðjumst yfir fyrirheitum helgarinnar. Leyfðu góðum gjöfum þínum að auðga okkur og næra, hvert sem við förum og hvar sem við erum.

    Við biðjum í Jesú nafni. Amen.

  • Einelti er súrt en virðing er sæt

    Mynd: Daníel Müller Þór

    Í fréttum Rúv í gærkvöldi var sagt frá stórum hópi ungmenna sem koma saman undir merkjum kristinnar trúar til að berjast gegn einelti í samfélaginu. Krakkarnir eru um 60 talsins, á aldrinum 15-18 ára frá æskulýðsstarfi lúthersku kirkjunnnar í Þýskalandi og frá þjóðkirkjunni. Þau hafa notað heila viku til að fræðast, ræða saman og vinna gegn einelti. Vinnan fer fram í minni og stærri hópum og áherslan er lögð á að skilgreina og þekkja einelti í umhverfi unglinganna sjálfra. Hópurinn hefur líka fengið heimsóknir frá samtökum sem vinna gegn einelti og fræðst um það sem hefur verið gert í baráttunni við það.

    Verkefnið vekur og hvetur

    Það er hvetjandi og vekjandi að heyra um metnaðarfull kirkjuverkefni eins og þetta. Hvetjandi vegna þess að hér er á ferðinni lifandi kirkja sem tengist samfélaginu á jákvæðan og skapandi hátt. Vekjandi vegna þess að áminning unglinganna um eineltisbölið beinir athygli okkar að því hvernig þessum málum er fyrirkomið í umhverfi okkar sjálfra.

    Mótmælaganga frá Hlemmi

    Þýsku og íslensku unglingarnir hafa einnig notað vikuna til að búa til stuttmyndir, plaköt og póstkort sem tengjast umfjöllunarefninu. Hápunktur verkefnisins er síðan mótmælaganga gegn einelti sem verður farin frá Hlemmi kl. 17 í dag, föstudaginn 20. júlí. Allir sem eiga heimangengt eru hvattir til að ganga með í dag.

    Verkefnið „Unglingar gegn einelti – Mannréttindaátak gegn mismunun og túlkun“ er fjármagnað með styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það sýnir kirkjuna sem jarðveg og farveg fyrir góða hluti í samfélaginu. Unglingarnir okkar og æskulýðsleiðtogarnir eru þess vegna sönn fyrirmynd okkar allra.

    Myndina með pistlinum tók Daníel Müller Þór sem er einn af skipuleggjendum verkefnisins.

  • Ó ljúfa, erfiða sumar

    Fréttablaðspistill dagsins fjallar um sumur og sumarfrí sem geta bæði verið ljúf og sár, létt og erfið.

  • Ekkert undarlegt ferðalag

    Við prédikuðum um sumarfrí og ferðalög og samskipti fólks í Þingvallakirkju í dag:

    Tilvera okkar er undarlegt ferðalag segir í ljóði Tómasar Guðmundssonar sem fjallar um okkur sem gesti á hótel jörð. Textinn er hnyttinn og lagið er grípandi, en við ætlum nú samt að vera ósammála hugsuninni sem kemur fram í þessu fræga ljóði.

  • Það sem kirkjan getur lært af leikskólanum

    Árni situr í foreldraráði leikskóla Elísabetar og Tómasar Viktors. Í dag var haldinn fundur í foreldraráðinu til að skipuleggja starfið sem er framundan. Eitt málið á dagskrá fundarins var mat á starfsáætlun leikskólans fyrir veturinn sem er að líða.

    KartöflurLeikskólastjórinn lagði verkefnið upp svona: Þið skoðið starfsáætlunina sem er á vef leikskólans og svo leggið þið mat á þetta, hvað tókst vel og hvað tókst ekki jafn vel, við hvað höfum við staðið og hvað ekki. Svo bætti hún við: „Það er nefnilega svo auðvelt að gefa loforð á blaði áður en vetrarstarfið hefst.“

    Þessi fyrirmyndarvinnubrögð fengu okkur til að hugsa um hliðstæðuna við kirkjustarfið. Hver er staðan í kirkjunni þegar kemur að því að gera áætlanir og meta hvernig að var staðið? Hvar leggjum við fram svona starfsáætlanir? Hvenær er farið yfir þær og hver sér um það?

    Við vildum gjarnan sjá svona vinnubrögð í kirkjunni. Starfsfólk safnaðarins gæti sest niður með prestinum og lagt línurnar í æskulýðsstarfinu, barnastarfinu, fermingarfræðslunni, biblíulestrunum, 12 spora kerfinu, eldri borgara starfinu o.s.fr. fyrir veturinn og fengið svo fólkið í sóknarnefndinni – fulltrúa þeirra sem þiggja þjónustuna – til að fara yfir og meta.

    Hér er óneitanlega tækifæri til að gera starfið í söfnuðunum okkar skilvirkara og lýðræðislegra. Útfærslurnar eru óendanlega margar en mestu máli skiptir að finna leiðir til að þjóna fagnaðarerindinu með þvi að vera ljós og salt í heiminum.

  • Gleðidagur 50: Von dregur úr fátækt

    Páskaliljur

    Í Economist sem kom út um miðjan mánuðinn segir frá rannsóknum Esther Duflo. Hún er hagfræðingur og starfar við MIT í Bandaríkjunum. Esther flutti erindi þriðja maí síðastliðinn þar sem hún færði rök fyrir því að sum átaksverkefni gegn fátækt hefðu meiri áhrif en ella vegna þess að þau leiddu til þess að þátttakendur í þeim öðluðust von um að þeirra gæti beðið meira en lífsbaráttan ein.

    Hún sagði m.a. frá verkefnum á Indlandi sem miðuðu ekki aðeins að þú að veita fjárhagslega aðstoð heldur gerðu fólk myndugt og veittu því reisn með því að láta þeim í té kú, geitur eða kjúklinga sem þau gátu notað til að framleiða afurðir sem mátti svo selja. Á bak við verkefnin stóð smálánafyrirtækið BRAC.

    Það sýndi sig að fólkið sem fékk þessa umframhjálp náði auknum árangri. Hvers vegna? Ein tilgátan er sú að það sé vegna þess að þau öðluðust von um að breytingar á kjörum þeirra og aðstöðu væru mögulegar. Vonin varð svo drifkraftur frekari breytinga.

    Þetta voru góð skilaboð á fimmtugasta og síðasta gleðideginum því gleðidagarnir hafa öðru fremur snúist um vonina.

    Við látum þetta vera síðustu orðin í gleðidagabloggi ársins 2012, þökkum ykkur samfylgdina og óskum lesendum öllum gleðilegrar hvítasunnuhátíðar.

  • Gleðidagur 49: Mmmm matur

    Monsieur Vuong

    Hvítasunnan er fjölmenningarhátíð. Þegar kirkjan varð til mættust ólíkir menningarheimar og fjöldi tungumála. Eitt af því sem hlýtur að hafa verið til staðar þennan örlagaríka dag var margskonar matur. Rétt eins og i stórborgum samtímans.

    Myndin með þessari bloggfærslu var tekin í uppáhaldsstórborginni
    Berlín í fyrra. Þegar við erum þar reynum við einmitt að upplifa þetta og borðum t.d. á ítölskum, víetnömskum, japönskum, bandarískum og rússneskum veitingastöðum. Og auðvitað þýskum 😉

    Á fertugasta og níunda gleðidegi sem er aðfangadagur hvítasunnu gleðjumst við yfir fjölmenningunni sem hefur skilað okkur undursamlegum mat.

  • Gleðidagur 48: Sopinn er góður

    Macchiato @ Kaffismiðjan

    Við hófum þennan föstudag á Kaffismiðjunni þar sem við fáum besta kaffið. Þar fáum við líka kaffifræðslu sem er vel þegin. Í upphafi árs vorum við í hópi þeirra sem eru lattelepjandi. Þessa dagana njótum við svonefndrar tvíhleypu. Það er einfaldur espresso og cappucino sem er borinn fram á silfurbakka. Þegar við spurðum hvert væri næsta skref eftir það fengum við svar sem kom á óvart:

    Uppáhellt kaffi. Mjólkurlaust.

    Vönduð uppáhelling miðlar bragðkeim kaffibaunanna og dregur fram blæbrigði sem týnast í öðrum útfærslum.

    Gott kaffi eru lífsgæði og það er er gott að njóta þekkingar fagfólksins á Kaffismiðjunni og kaffileiðsagnar þeirra. Fyrir það þökkum við á fertugasta og áttunda gleðidegi.

  • Gleðidagur 47: Stattu upp

    Strákarnir í Bláum Ópal komust ekki áfram til Baku en lagið þeirra var í uppáhaldi á heimilinu í forkeppninni. Textinn er svolítið sniðugur (að undanskildri hráþýddu yrðingunni um að standa upp fyrir sjálfum sér) því þetta er falleg hvatning og pepp. Það eru góð skilaboð til íslensks samfélags í dag.

    Fyrir nokkrum árum heyrðum við viðtal við Bjarna Karlsson sem er sóknarprestur í Laugarneskirkju. Ein spurningin sem hann fékk var hvað fælist í því að ala barn upp í kristinni trú. Hann sagði að þar væri tvennt sem skipti meginmáli og orðaði þetta nokkurn veginn svona: Þegar barn stendur á þröskuldi fullorðinsáranna þarf að búa með því sú tilfinning að það sé óendanlega mikils virði og að það geti aldrei, sama hvað gerist, lokast inni í slæmum aðstæðum.

    Stattu upp minnir okkur á þetta og það er ágætis áminning á fertugasta og sjöunda gleðidegi.

  • Gleðidagur 46: Bómullarbrúðkaup

    cotton reels

    Við eigum tveggja ára brúðkaupsafmæli í dag sem samkvæmt hefðinni heitir bómullarbrúðkaup. Brúðkaupsafmælisdagarnir eru sérstakir tyllidagar í árinu og við gerum okkur dagamun með ýmsum hætti. Það er reyndar sérlega gaman að eiga brúðkaupsafmæli á gleðidögum því þá daga er tvöfalt fagnaðarefni.

    Á fertugasta og sjötta gleðidegi erum við þakklát fyrir hvort annað, börnin okkar og fjölskyldur, fyrir dagana og lífið sem við eigum saman – fyrir ástina.

    Mynd: Leo Reynolds