Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 2: Sjálfstraust í stað vonleysis

    Youth meets Technology

    Þegar við vöknuðum í morgun, dísæt eftir páskaeggjaát gærdagsins tóku morgunverkin við. Eitt þeirra var að líta yfir samfélagið á Facebook og þar fundum við vísun á grein í Guardian sem fjallar um ungt fólk sem hefur greinst á einhverfurófi og haslar sér nú völl í viðskiptalífinu. Þau eru öðruvísi en það reynist þeim styrkleikur.

    Ástæðan er líklega tvíþætt: Þau búa yfir miklum hæfileikum og fólkið í kringum þau hefur leyft þeim að blómstra þannig að þau eru full af sjálfstrausti:

    Þau koma út úr skólakerfinu, og sum hver hafa lokið doktorsprófi, full af sjálfstrausti og einbeitingu. Það leiðir til breytinga í fyrirtækjum sem áður fyrr lokuðu dyrunum fyrir hinum einhverfu. Breytingin á sér til að mynda stað hjá lögmannsstofum, bönkum og heilsugæslufyrirtækjum, þar sem ungt fólk sem áður var aðeins talið ráða við einföld verkefni, verður hluti af starfseminni.

    Það er gott verkefni að búa þannig að þeim sem eru öðruvísi í samfélaginu okkar að hinar raunverulegu gáfur þeirra fái notið sín.

    Á öðrum gleðidegi viljum við þakka fyrir sjónarhorn og framlag þeirra einhverfu og fyrir þau sem fylla hin einhverfu af sjálfstrausti gagnvart því sem þau geta frekar en vonleysi gagnvart því sem þau geta ekki.

    Myndin með færslunni af Tómasi Viktori sem er þræleinhverfur. Hann býr yfir undursamlegri forvitni og hefur innsæi í virkni snjalltækja langt umfram systkini sín. Okkar verkefni er að finna þessu farveg þannig að hann fái að njóta sinna gjafa, eins og systkinin öll.

  • Gleðidagur 1: Hlæjandi börn

    Glaðir leikfélagar á páskadegi í Háteigskirkju.
    Glaðir leikfélagar á páskadegi í Háteigskirkju.

    Við fórum í kirkju í morgun og nutum þess að heyra góða kórinn í Háteigskirkju syngja og organistann leika falleg tónverk og hlusta á Tómas, pabba Kristínar og afa barnanna, flytja sína síðustu páskaprédikun sem sóknarprestur í Háteigskirkju. Þetta var góð messa og hún miðlaði páskaboðskapnum vel.

    Ekkert miðlar upprisugleðinni betur en barnshlátur og barnaleikur.

    Það var samt ekki kórinn, organistinn eða presturinn sem miðlaði innilegustu páskagleðinni í kirkjunni í morgun. Það voru litlu börnin tvö sem gerðu það. Þau höfðu aldrei hist áður, en urðu vinir á örskotsstundu og gleymdu sér í leik og og skemmtu sér svo vel að það ískraði í þeim af hlátri.

    Kórinn, organistinn og presturinn stóðu sig ágætlega. En ekkert miðlar upprisugleðinni betur en barnshlátur og barnaleikur. Þannig er það bara. Kannski var það þess vegna sem Jesús sagði okkur að vera eins og börnin til að komast inn í himnaríki. Því hann vissi að í smábörnunum höfum við fyrirmynd að samfélagi án aðgreiningar og tortryggni og efa, samfélag í leik og gleði.

    Á fyrsta gleðidegi viljum við þakka fyrir hlátur barnanna í kirkjunni.

    Myndin hér að ofan er af leikfélögunum sem skemmtu sér svo vel í kirkjunni í morgun. Við vitum ekki hvað ungi maðurinn heitir, en vonum að okkur fyrirgefist að birta af af þessum gleðigjafa.

  • Fiskimennirnir á skírdagskvöldi

    Kræklingatínsla í Hvalfirði

    Við heimsóttum gamlar slóðir með stórfjölskyldunni í gær. Keyrðum upp í Hvalfjörð, klædd stígvélum, með gúmmíhanska og nokkrar fötur. Þar gengum við út í fjöruna og tíndum við kræklinga í súpu. Svo tóku meistarakokkarnir í fjölskyldunni við, hreinsuðu og suðu og úr varð dásamleg kræklingasúpa sem var borin fram eftir að degi hallaði ásamt ýmiss konar fiskmeti.

    Maginn fylltist af góðum mat og hugurinn af góðum hugmyndum eftir samtölin við fólkið sem skiptir okkur máli – fjölskylduna.

    Hugurinn leitaði líka til skírdagskvöldsins fyrsta. Kvöldsins þegar Jesús sat með lærisveinum sínum, braut brauð og gaf þeim, blessaði vín og gaf þeim. Síðasta kvöldmáltíðin er orðið sem við notum um þessa athöfn. Síðasta kvöldmáltíðin sem varð líka sú fyrsta því við erum alltaf að endurupplifa hana í kirkjunni. Hún er síðfyrst.

    Hvernig skyldi þeim annars hafa liðið þetta kvöld, fiskimönnunum sem Jesús hafði kallað til sín? Ætli þá hafi langað í fisk þegar þeir settust til máltíðar. Eða skipti það kannski ekki máli hvað var borðað af því að félagsskapurinn var góður? Er kvöldmáltíðin hans Jesú kannski líka brýning um að við megum aldrei gleyma því hversu mikils virði er að geta átt gott samfélag um þá mikilvægu iðju að neyta matar.

    Myndin hér að ofan er tekin í fjörunni í Hvalfirði í gær. Ef rýnt er í hana má sjá iðna fjölskyldu að verki við kræklingatínslu.

  • Hér vantar svolítið

    Um miðjan mars urðum við fyrir því óláni að netþjónustufyrirtækið sem hýsti þennan vef gerði mistök við flutning á milli vefþjóna. Það hafði þær afleiðingar að heilmikið efni datt út. Nánar tiltekið misstum við allt sem við höfðum skrifað frá miðjum janúar fram í miðjan mars. Við höfum fengið loforð um að fá gögnin til baka, en þurfum fram að því að láta gamla efnið duga. Nú er vefurinn hins vegar kominn á nýjan stað. Hann er enn hraðvirkari og við hlökkum til að byrja gleðidagablogg á sunnudaginn.

    Það er von á góðu.

  • Játning kvennanna

    Ég trúi á GUÐ, skapara heimsins og alls sem er, sem skapaði konur og karla í mynd sinni og líkingu, sem skapaði heiminn og fól báðum kynjum ráðsmennsku jarðarinnar.

    Ég trúi á JESÚ, son Guðs, hinn útvalda Guðs, sem var fæddur af konu, hlustaði á konur og kunni að meta þær, gisti í heimilum þeirra og talaði við þær um Guðsríkið, sem átti konur að lærisveinum, sem fylgdu honum og lögðu honum lið.

    Ég trúi á Jesú sem talaði við konuna við brunninn um guðfræði og treysti henni, fyrst af öllum, fyrir því að hann væri Messías, og hvatti hana til að fara í þorpið og segja fagnaðarerindið – hún var fyrsta konan sem prédikaði fagnaðarerindið.

    Ég trúi á Jesú, sem konan hellti ilmsmyrslum yfir og smurði hann sem Guðs útvalda í húsi Símeons, sem skammaði mennina sem gagnrýndu hana, sem læknaði konu á hvíldardeginum og gerði hana heila af því að hún var manneskja.

    Ég trúi á Jesú sem líkti Guði við konu sem hafði tapað peningi og hreinsaði húsið allt í leit að honum.

    Ég trúi á Jesú sem sá í meðgöngu og fæðingu líkingu fyrir breytingu, nýja fæðingu frá sársauka til gleði.

    Sem var svikinn, krossfestur, yfirgefinn, og dó til að allt sem lifir mætti eiga líf í fullri gnægð.

    Ég trúi á hinn upprisna Jesú, sem birtist fyrst konunum sem komu saman með Maríu Magdalenu, fyrsta postulanum, og sendi þær til að bera áfram boðskapinn undursamlega: „Farið og segið …“

    Ég trúi á HEILAGAN ANDA, sem sveif yfir vötnunum við sköpunina og yfir jörðinni.

    Ég trúi á heilagan anda, helgandi anda Guðs, sem leiðir okkur saman, safnar okkur og verndar, eins og hæna umvefur kjúklinga með vængjum sínum.Úr litúrgíu fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna.

  • #Passíusálmavor

    Passíusálmar Hallgríms Péturssonar tengjast árstímanum órjúfanlegum böndum. Þeir innihalda endursögn og útleggingu á píslarsögu Jesú í guðspjöllunum og gerast á einum sólarhring, frá því að síðustu kvöldmáltíð Jesú með lærisveinunum lýkur á skírdagskvöld, fram að krossfestingunni á Golgata.

    Passíusálmarnir eru bókmenntalegt meistaraverk og bera upprunaöldinni sterkt vitni. Tveir mikilvægir lyklar til að skilja þá eru guðfræðistefnan sem kennd er við lútherskan rétttrúnað og þjáningardulúðin. Guðfræði sálmanna og áherslan á þjáningardulúðina kemur vel fram í yrðingum um að pína og þjáning Jesú tjái elsku Guðs til manneskjunnar (1.7)

    Passíusálmarnir eru Íslendingum hjartfólgnir, hafa verið endurútgefnir ótal sinnum. Þeir eru fluttir í heild sinni á föstunni á Rás 1 og lesnir upp í mörgum kirkjum á föstudaginn langa. #Passíusálmavor er tilraun til að heiðra þessa stöðu, bæta lífi í passíusálmahefðina og túlka hana upp á nýtt með því að vinna hana inn í samhengi okkar í dag.

    Passíusálmavor á blogginu okkar
    #passíusálmur á twitter
    #passíusálmavor á twitter

  • Vetrarsólin hans Svavars Knúts

    Svavar Knútur á Café Cultura

    Svavar Knútur er uppáhalds söngvaskáld. Síðasta haust sendi hann frá sér þriðju sólóplötuna sína. Hún heitir Ölduslóð og geymir fjölda fallegra laga. Sum höfðum við áður heyrt a tónleikum, önnur heyrðum í fyrsta sinn á útgáfutónleikunum. Eitt af þeim Vetrarsól og það er eins konar samtímasálmur eins og svo mörg lög Svavars. Hann syngur:

    „En eina veit ég Vetrarsól
    Sem veitir sálu minni skjól“

    Vetrarsólin er manneskja sem söngvaskáldið þráir að hitta. Ef af þeim fundi verður þá breytist allt:

    „Þá myndi birta í hellinn minn,
    skína æ svo fögur inn.“

    Sá grunur læðist að prestunum sem hlusta að vetrarsólina megi sjá sem líkingu fyrir náð sem tekur hold í manneskjunni sem mætir okkur af gæsku og umhyggju á tíma þegar hellirinn okkar – lífið – er dimmur og drungalegir.

    Vetrarsól er fallegt lag með góðan boðskap, eins og reyndar Ölduslóðin öll. Platans hans Svavars er eins konar Vetrarsól handa þeim sem hlustar. Uppbyggilegur boðskapur í tali og tónum sem veitir birtu inn í skammdegið.

    Myndina hér að ofan tókum við á tónleikum á Café Cultura fyrir langa löngu. Þá heyrðum við Svavar flytja Humble Hymn í fyrsta sinn.

  • Mörkin hennar Míu

    princess

    Síðustu daga höfum við enn á ný verið áþreifanlega minnt á ömurlegan veruleika barnaníðs og kynferðislegs ofbeldis sem þrífst m.a. fyrir sljóleika og sinnuleysi umhverfisins. Umfjöllun síðustu daga hefur varpað ljósi á hve samfélagið upplifðir sig ráðalaust og vanmáttugt þegar kynferðisofbeldi gegn börnum á sér stað, og bregst því ekki við sem skyldi. Ráðaleysið og skömmin býr til feluhjúp sem illvirkjar athafna sig á bak við.

    Vitneskjan um barnaníð og útbreiðslu þess er orðin almennari og öruggari á ýmsan hátt. Sem betur fer hefur andrúmsloftið orðið þolendum ofbeldis skilningsríkara og allsgáðara, aukinn skilningur og eðlilegar varnir leiða vonandi til þess að hægt sé að fyrirbyggja barnaníð í sem flestum tilfellum.

    Hluti af úrvinnslu samfélagsins og almennri vitundarvakningu um kynferðisbrotamál fer fram í listsköpun, svo sem bókmenntum og kvikmyndum. Óhætt er að segja að norræna senan hefur verið töluvert upptekin af þessum málaflokki síðustu ár. Ófáir skandinavískir krimmahöfundar hafa gert honum skil og margar gæðakvikmyndir, ekki síst frá Danmörku hafa varpað nístandi ljósi á veruleika barna sem níðst er á. Kvikmyndir eins og Veislan, Listin að gráta í kór, og Princess koma í hugann.

    Við horfðum á dönsku kvikmyndinni Princess í gærkvöldi. Hún er frá árinu 2006 og er óvenjuleg að því leyti að hún er að stærstum hluta teiknuð. En þessi teiknimynd er ekki fyrir börn. Hún fjallar um Miu, sem er fimm ára og hefur þurft að þola markaleysi og ofbeldi af hálfu fullorðinna alla sína stuttu ævi. Móðir hennar er klámstjarnan The Princess, sem hefur malað gull fyrir gaurana sem hafa skapað heilan bransa í kringum líkama hennar.

    Í upphafi myndarinnar fylgjumst við með bróður Prinsessunnar, sem er prestur, snúa heim frá framandi löndum, til að taka Míu að sér eftir að móðir hennar deyr. Bróðirinn, sem heitir August, ákveður síðan að hreinsa nafn systur sinnar með því að eyða öllu efni sem framleitt var með The Princess. Það gerist með tilheyrandi átökum og blóðsúthellingum.

    Myndin er ljót og sorgleg. Hún er líka beitt áminning um hvað markaleysi og ofbeldi gerir börnum. Á ýktan hátt lætur myndin okkur íhuga hvað við myndum sjálf gera – eða hvort við myndum yfirleitt gera eitthvað?

    Princess dregur athygli okkar að undirheimalífi klámsins og þeirri staðreynd að á bak við fígúrur eins og the Princess eru manneskjur eins og mamman Christine og dóttirin Mia. Misnotkun og valdbeiting eru ekki aðeins fylgifiskar klámiðnaðarins heldur grundvöllur hans.

    Hvorutveggja ætti að uppræta – þótt við mælum ekki með aðferðum prestsins Augusts.

    Mörkin hennar Míu eru mörk allra barna. Þau ber að virða.

  • Nándin nærir allan ársins hring

    Unnur, Kristín, Heiðbjört

    Um þessar eru ýmiskonar áramótaheit strengd. Hér kemur tillaga til foreldra: Við skulum knús börnin okkar meira á árinu sem er nýbyrjað. Og við skulum bregðast vel við þegar þau tjá sig, eyða meiri tíma með þeim og styðja þau í frjálsum leik. Því allt þetta skiptir sköpum þegar kemur að þroska og velferð barnanna okkar.

    Það fullyrðir Darcia Narvaez, prófessor í sálfræði við Notre Dame háskólann í Bandaríkjunum. Hún varar við ýmsu sem hefur verið viðhaft í uppeldi ungra barna þar í landi síðustu hálfa öldina, s.s. að hafa börn ekki á brjósti, setja þau í sérherbergi frá fæðingu, láta þau gráta til að spilla þeim ekki og síðast en ekki síst vera í litlum líkamlegum tengslum við þau.

    Það er hefur sýnt sig að þetta hefur slæm áhrif á sálar- og líkamsþroska barnanna. Það er því verðugt áramótaheit að faðma og halda meira á börnunum sínum, styðja þau í leik og bregðast við þegar þau láta í ljós þörf fyrir athygli og umönnun.

    Það er gott fyrir þau og gefur pabba og mömmu líka heilmikið.

    Myndin er af mæðgunum Unni, Heiðbjörtu og Kristínu í jólaversluninni í desember. Þá var gott fyrir litla hnátu að kúra í magapoka framan á mömmu.

  • Ekki endilega fyrstur í mark

    Tómas Viktor á nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga

    Tómas Viktor, sem er næstyngstur barnanna á heimilinu, tók þátt í Nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga sem var haldið í Laugardalslauginni í dag. Þarna voru saman komnir krakkar og foreldrar sem æfa sund og eru mörg hver meistarar. Sum voru að stíga fyrstu skrefin á sundbrautinni, önnur þrautreyndir sundkappar sem hafa jafnvel keppt um árabil. Við sáum einn ólympíumeistara á mótinu í dag og erum viss um að fleiri leynast í hópi keppenda.

    Á þessu móti er það því ekki endilega sá eða sú sem fyrst kemur í mark sem vinnur besta afrekið, heldur sá eða sú sem nær bestum tíma miðað við sinn flokk.

    Við lásum þessi orð í bæklingnum sem við fengum afhentan á mótsstað. Þetta er áminning um að fötluðu íþróttamennirnir sem kepptu á mótinu voru ekki öll í sama flokki og þar af leiðandi er árangurinn ekki endilega sambærilegur. Sundkappi getur náð framúrskarandi árangri þótt hann sé ekki fyrstur í sínum riðli. En þetta miðlar líka grunngildi alls íþróttastarfsins sem er viljinn til að gera betur, sama hvert formið er.

    Við þurfum ekkert endilega að vera best af öllum, en það er gaman að vera betri en við vorum sjálf í gær eða í fyrra.

    Fleiri myndir frá mótinu.