Við lifum tíma samskiptabyltinganna. Fyrst var tilkoma netsins og tölvupóstins sem gjörbylti samskiptum. Í kjölfarið urðu farsímar almenningseign. Svo komu samfélagsmiðlarnir og um svipað leyti urðu snjallsímar almenningseign. Núna erum við vön því að komast alltaf á netið og geta bæði nálgast og miðlað efni hvar sem við erum stödd í heiminum.
Í gegnum kirkjusöguna má sjá hvernig kristin kirkja hefur á hverjum tíma nýtt sér samtímamiðla til að koma boðskapnum á framfæri. Sextánda öldin stendur upp úr í þessu sambandi því segja má að ein forsenda þess að siðbótin náði útbreiðslu hafi einmitt verið sú staðreynd að menn notuðu nýja miðla.
Við upphaf 21. aldar þarf kirkjan að nota snjallsíma og snjallvefi til að koma boðskap sínum á framfæri. Hún þarf að verða snjallkirkja. Um það snýst þessi vefur.