Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bæn fermingarbarnanna í Laugarneskirkju

    Viltu vera með samfélaginu okkar yfir jólin. Viltu styðja okkur í því að gera Ísland að kærleiksríku heimili fyrir alla sem þar eiga heima.  Amen.

    Á aðventukvöldinu í Laugarneskirkju voru fermingarbörnin í einu af aðalhlutverkunum. Þau gengu inn í kirkjuna með kertaljós, klædd í hvíta kyrtla, sungu. Nokkur þeirra stigu líka fram og báðu fyrir hönd safnaðarins. Þetta er ein af bænunum þeirra og við gerum hana að okkar bæn í dag.

  • Ljósmúrinn í Berlín

    Um síðustu helgi var þess minnst að tuttugu og fimm ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins. Í tilefni af því var listgjörningurinn Ljósmúrinn – Lichtgrenze – settur upp í borginni. Hann samanstóð af 8000 upplýstum blöðrum sem var komið fyrir þar sem múrinn stóð áður, á fimmtán kílómetra leið frá Bornholmer Straße í norðri að East Side Gallery í suðri. Kveikt var á blöðrunum við sólsetur þann 7. nóvember og klukkan sjö sunnudaginn 9. nóvember var þeim sleppt, einni af annarri og ljósmúrinn leystist upp og sveif til himins. Með blöðrunum fylgdu stutt skilaboð og bænir frá börnunum í Berlín.

    Ég gekk hluta af þessari leið og tók nokkrar myndir. Það var sérstakt að upplifa þetta, ganga í gegnum hverfin þar sem Múrinn stóð, íhuga kjör fólksins sem lifði sitt hvoru megin við hann og þakka fyrir friðartáknið sem hann er núna.

    Ps. Á vef The Atlantic eru nokkrar magnaðar myndir af ljósmúrnum. Múrinn á líka sína síðu á Facebook.

    Pps. Ég tók líka fleiri myndir en þær sem eru hér að ofan.

  • Geðveik messa í Laugarneskirkju

    Í dag var haldin geðveik messa í Laugarneskirkju. Bergþór G. Böðvarsson formaður undirbúningsnefndar Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins flutti ávarp og Kári Auðar Svansson flutti magnaða hugvekju um líf með geðklofa. Kristín þjónaði ásamt messuþjónum, Arngerður María og kórinn Veirurnar leiddu sönginn.

  • Styttan og eplatréð

    „Þótt ég vissi að heimsendir yrði á morgun þá myndi ég planta eplatré í dag,“ á siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther einu sinni að hafa sagt. Þessi tilvitnun er rótin að fallegum minnisvarða um siðbótina í Wittenberg. Minnisvarðinn samanstendur af 500 trjám sem munu standa í svokölluðum Lúthersgarði. Við vorum stödd þarna í síðustu viku í góðri fræðsluferð með Biskupsstofu. Við það tækifæri plantaði Agnes biskup þjóðkirkjutré í garðinn.

    Við tókum myndir og gerðum myndband.