Tónlistin okkar hljómar í sálinni, sagði kona í samtali við Fréttastofu Rúv í gærkvöldi. Hún var að segja frá þjóðlagasöng sem er iðkaður þessa helgi á Akureyri. Af orðunum mátti ráða að tónlistin skiptir máli. Hún snertir sálina, getur nært hana og lyft henni upp.
Mig langar að íhuga tónlist og trú í dag og ég ætla að gera það með því að leggja út af þremur tónleikum sem ég hef sótt á undanförnum vikum.
Fyrst hlustaði ég á síðpönksveitina Trúboðana sem fagnaði útkomu plötunnar Óskalög sjúklinga. Þá tróð söngvaskáldið Svavar Knútur upp og fagnaði útkomu fjögurra platna á vínil. Það er stundum svolítið pönk í honum. Loks var það frumpönkarinn T. V. Smith sem gaf innsýn í sína tónlist. Ég lærði sitthvað á þessum tónleikum og mig langar að deila því með ykkur í kirkjunni í dag.
*
Trúboðarnir tróðu upp á Gauknum. Þeir syngja um smáatriðin í daglegu lífi sem spegla samtímann og ljúka lífinu upp. Óskalög sjúklinga beina kastljósinu að því sama og kvöldfréttirnar: Heilbrigðiskerfinu og fólkinu sem þiggur þjónustuna:
Færðu fatið undir lekann
Sérðu ekki að húsið það er fokhelt
Lyftan aftur föst aá milli hæða
Hjartastuðtækið orðið straumlaust
Söngvarinn er staddur á spítalanum og og það sem styttir stundir eru hin nostalgísku óskalög sjúklinga. Svo lýkur laginu á þessum hendingum:
Ég hlusta á’ óskalög sjúklinga
fæ ég lifrarígræðsluna
náðu í nýrnavélina
viltu græða í mig sálina.
Undirliggjandi eru skilaboðin um að kerfið sé ekki í fullkomnu lagi þótt manneskjan þrauki.
Það sama er uppi á teningnum í laginu Vantrúboð:
Ei skal hafa annan guð en Glitni
Glöð við beygjum höfum til Nastakk
Gröfum síðan gömul hindurvitni
Við Guð við segjum einfaldlega nei takk
– Hvaða guð sé oss næstur
Athygli hlustandans er líka beint að trú og trúarhefðum í skólastofunni og sungið um gildismat. Trúboðarnir spyrja hvort það geti verið að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Textinn er brýnandi og málefnið mikilvægt.
Lög Trúboðanna eru þétt og kraftmikil, textarnir fullir af boðskap og spurningarnar um samfélagið okkar brýnandi. Þetta er gott stöff.
*
Svavar Knútur söng á Rósenberg og beindi hug og hjarta að gildi einveru og íhugunar, sársaukanum sem getur fylgt því að vera manneskja og að ferðaþránni sem leiðir okkur á ókunnar lendur. Hann söng um lífið í hæðum og lægðum á minimalískan og einfaldan hátt sem snertir hjartað. Í lagasmíðum sínum hefur Svavar líka beint sjónum að ranglátum kerfum og lýst áhyggjum.
Eitt besta dæmið um það er lagið Af hverju er ég alltaf svona svangur. Þar er sungið er á gamansaman hátt um uppvakninga – zombíur – sem kunna að meta Bauhaus og Bylgjulestina, Kringluna og Smáralind. Undirliggjandi eru áhyggjur af gildismati sem metur neysluna meira en manneskjur. Það er gildismat hagvaxtarins sem stundum virðist tröllríða öllu.
*
Svo var það pönkarinn T.V. Smith sem trommaði gítarinn sinn áfram á Dillon og kyrjaði hrá pönklög um kerfisbundið ranglæti. Laglínurnar voru einfaldar og textarnir boruðu sig undir kvikuna. Það er dýrt að vera fátækur syngur T. V. Smith:
Það er dýrt að vera fátækur,
því allt kostar meira,
ég banka á luktar dyr.
Það er dýrt að vera fátækur,
vill einhver kasta til mín nokkrum brauðmolum,
ég skal borða þá af gólfinu.
Það er dýrt að vera fátækur,
en ég lít kannski vel út þegar ég er fullur örvæntingar.
Upp úr lögunum hans stendur ekki bara tilfinning fyrir ranglæti heldur spurningar: Ertu með? Eigum við að breyta heiminum?
*
Kæri söfnuður.
Við erum enn inni á áhrifatíma Hvítasunnunnar. Hátíðar heilags anda. Og heilagur andi talar til okkar með margvíslegum hætti. Í gegnum reynsluna í lífinu, gegnum þrautir og sigra. Í daglegu lífi. Í tónlistinni sem við heyrum. Líka þegar við búumst bara alls ekki við því.
Trúboðarnir brýna okkar. Ekki með því að segja: Eitt er best og miklu betra en annað heldur með því að spyrja út í gildismatið og spyrja um það hvernig og hvers vegna og setja fingurinn á það sem er kannski bara svolítið ranglátt og ætti að vekja okkur til umhugsunar. Það sama gera Svavar Knútur og T. V. Smith.
Svo er það kirkjan.
Hér syngjum við líka.
Hér erum við líka að fást við sömu spurningar og tónlistarmennirnir gera í lögum sínum.
Spurningar um það hvernig við búum til gott og réttlátt samfélag.
Hjörtun okkar slá í takt og við ætlum að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.
Hvað þýðir það?
Það þýðir að við viljum betri heim.
Eins og Jesús.
Það þýðir að við viljum gera heiminn betri. Sjálf.
Eins og Jesús.
Kannski þurfum við bara svolítið pönk í kirkjuna. Var Jesús ekki töluverður pönkari – svona miðað við viðbrögðin sem hann fékk? Kannski er kirkjupönk kall dagsins.
Við þurfum að byrja núna.
Því kerfið er ekki fullkomið.
Og þá þarf að bretta upp ermarnar og gera breytingar.
Annað var það nú ekki.
Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé Jesú sem þorði að vera öðruvísi og orða hlutina eins og þeir eru, dýrð sé heilögum anda sem gefur hugrekki til að aðhafast.
Þessi prédikun var flutt í síðdegismessu í Laugarneskirkju á öðrum sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 14. júní 2015.