Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblíublogg 16: Lúther og Biblían

    Biblían var í brennidepli í lífi Lúthers og siðbótarinnar allrar. Sem prófessor í Wittenberg kenndi Marteinn Lúther ritskýringu Biblíunnar, hann ritaði fjölda skýringarrita við rit Biblíunnar, hann þýddi Biblíuna á þýsku og sem prestur prédikaði hann úr Biblíunni allt sitt líf.

    Í augum Marteins Lúthers var mikilvægast af öllu að fólk gæti lesið og skilið Biblíuna. Aðeins þannig gæti orð Guðs verið kjölfestan í lífi þess. Fyrirheit Guðs um líf var lykill Lúthers að frelsi manneskjunnar. Á grundvelli trúarinnar á þetta fyrirheit Guðs erum við kölluð til ábyrgðar í heiminum. Þannig er Biblían, trúin, náðin og Kristur sjálfur grundvöllurinn fyrir líf hinnar kristnu manneskju í heiminum.

    Biblíuþýðing Lúthers kom út á árunum 1522-1534, en Lúther hófst handa við hana árið 1521 þegar hann dvaldist í útlegð í kastalanum í Wartburg. Á meðan á dvöl hans stóð þar þýddi hann allt Nýja testamentið úr grísku. Hann sneri aftur til Wittenberg í mars 1522 og þá var sú þýðing endurskoðuð af honum og félögum hans, einkum Filippusi Melanchthon og Georgi Spalatín. Nýja testamentið kom svo út í september 1522.

    Þýðing á ritum Gamla testamentisins fylgdi í kjölfarið og kom út í nokkrum hlutum. Biblían öll kom út árið 1534. Þýðingarstarfinu var þó ekki lokið því Lúther og samstarfsmenn héldu áfram að endurskoða og endurbæta þýðinguna. Þýðingin var gerð úr frummálunum hebresku og grísku og hún var á góðu og skiljanlegu máli. Hið síðarnefnda átti eftir að tryggja áhrif hennar um langa tíð.

    Biblía Lúthers fékk mikla útbreiðslu. Prentaðar voru tíu útgáfur af allri Biblíunni og 80 útgáfur af hlutum hennar í Wittenberg á meðal Lúther lifði. Í ljósi þessa má segja að Biblíuþýðingin sé mikilvægasta verkið sem Lúther vann og sendi frá sér á sínum annars viðburðaríka ferli.

    Meira efni um Lúther og Biblíuna.

  • Samtal um siðbót

    Samtal um siðbót er útvarpsþáttur sem hóf göngu í sína í dag og verður á dagskrá fram í október. Þarna ætla Árni og Ævar Kjartansson, guðfræðingur og útvarpsmaður, að ræða við sérfræðinga í guðfræði og sögu siðbótarinnar. Gestur dagsins var dr. Gunnar Kristjánsson og í næstu viku kemur dr. Vilborg Auður Ísleifsdóttir í hljóðstofu. Sent út alla sunnudaga kl. 9:03 og er svo aðgengilegt í Sarpinum.