Haukur Viðar Alfreðsson skrifar bakþanka um skráningu í trúfélög, morgun- og kvöldbænir á Rás 1 í Fréttablaðið í gær. Umræðan um trú og samfélag er mikilvæg og ég vil bregðast við nokkrum atriðum í pistlinum.
1. Haukur líkir skráningu í trúfélög við skráningu í hópa á Facebook. Á þessu er grundvallarmunur: Hver sem er getur skráð Facebook-vini sína í hóp á Facebook. Börn fylgja aftur á móti foreldrum sínum þegar kemur að skráningu í trúfélög að því tilskyldu að foreldrarnir séu sammála. Enginn getur „addað“ barni í trúfélag nema hann fari með forsjá þess. Þeim aðilum er raunar falið af ríkisvaldinu að taka slíkar ákvarðanir fyrir hönd barnsins. Skráning í hópa á Facebook og skráning í trúfélög er ekki það sama.
2. Það er ekki hægt að smætta samtalið um stöðu morgun- og kvöldbænar á Rás 1 niður í einn hóp á Facebook. Fjöldi fólks hefur látið í sér heyra og sýnt í orði og verki að Ríkisútvarpið skiptir þau máli og bænin líka.
3. Haukur líkir biskupi Íslands við æsingakonu sem hafi hellt olíu á eld. Kannski er það bara hans eigin eldur en líkingin er ekki góð. Agnes biskup hefur tjáð sig af hófsemd og yfirvegun um stöðu bænarinnar í almannarýminu.
4. Haukur segir útvarpsstjóra hafa látið undan handrukkaraþrýstingi. Þessu er ég ósammála. Frá því hann tók við starfi sínu hefur Magnús Geir viljað efla samtalið um Ríkisútvarpið og umræðan um þessar dagskrárbreytingar er samtal við hlustendur. Það hefur sýnt sig að fjölda hlustenda Rásar 1 er ekki sama um þessa dagskrárliði. Að hlusta á þann hóp og taka mark á honum ber vott um hugrekki að mínu mati.
Á endanum snýst þetta mál þó hvorki um biskup eða útvarpsstjóra heldur þann stóra hóp sem lætur sig varða Rás 1, þjóðkirkjuna og bænina. Þeim er ekki sama. Okkur á ekki að vera það heldur.
Fréttablaðið, 26. ágúst 2014.