Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Þolandi heimilisofbeldis og mansals

    Haldið upp á Lúsíudaginn í sænskri kirkju.
    Haldið upp á Lúsíudaginn í sænskri kirkju. Mynd: Claudia Gründer. Wikipedia.

    Heilög Lúsía er táknmynd fyrir örlög kvenna sem eru undir ákvarðanir og vald annarra settar. Hún er þolandi heimilisofbeldis og mansals eins og kynsystur hennar um allan heim enn þann dag í dag. 13. desember er dagurinn hennar.

    Ofbeldi gegn konum er stór og svartur blettur á menningu okkar og því er við hæfi að staldra við einmitt á svartasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.

  • Karlar þurfa að leggja sitt af mörkum

    til að konum finnist þær vera öruggar í borginni okkar. Það er eitt af markmiðum átaksins Örugg borg. Ólafur Stephensen skrifar í Kjarnann í dag:

    Við karlarnir eigum einfaldlega að vera sammála um að það er aldrei í lagi að beita ofbeldi, áreita konur eða sýna þeim ógnandi framkomu. Allir ljósastaurar heimsins taka ekki í burtu óttann og öryggisleysið sem margar konur upplifa. Að búa til öruggara borgarumhverfi að þessu leyti er á endanum undir okkur körlunum komið.

    Við þurfum að leggja okkar af mörkum.

    Ps. Nei, ég er ekkert að plögga Kjarnann sérstaklega, fann bara gott efni þar, tvo daga í röð.