Um daginn keyrðum við með eldri vinum okkar eftir Langholtsveginum þar sem við búum og talið barst að öllum þeim verslunum og sjoppum sem einu sinni voru út um allt í hverfinu. Hér var búð, hér var sjoppa, hér var kaupmaður – en nú er þetta eiginlega allt horfið.
Nema ein lítil verslun sem við búum svo vel að hafa beint á móti okkur. Hún er aldrei kölluð neitt annað en Ólabúð – því þar stendur Óli kaupmaður vaktina. Það hefur oft komið sér vel að hafa hann þarna á horninu. Ekki amalegt að geta beðið börnin að hlaupa út og kaupa pylsubrauð eða mjólkurlítra, þegar þessa hluti vantar á ögurstundu. Það er líka orðinn fastur liður að kaupa laugardagsnammið hjá Óla. Það eru mjög stoltir sælgætisgrísir sem fá að fara með hundraðkall í lófanum yfir Langholtsveginn og velja sér bland í poka – alveg sjálf!
Hverfisbúðin er ómetanleg í flóru hverfisins og styrkir okkur í að vera sjálfbær og umhverfisvæn. Á næst-síðasta gleðidegi segum við: Lengi lifi kaupmaðurinn á horninu!
Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.