Mömmur eru magnaðar.
Mamma Árna hét Guðrún og lést árið 2000 þegar hún var 49 ára. Við söknum hennar á hverjum degi og finnum sorgina yfir því að barnabörnin hennar fá aldrei að kynnast henni.
Mamma Kristínar heitir Unnur og er í fullu fjöri. Við erum endalaust þakklát fyrir að hafa hana í lífinu okkar og barna okkar.
Svo er ein frábær stuðningsmamma sem leikur stórt hlutverk í lífi Tómasar Viktors – það er Gunnfríður sem er klettur í lífi hans.
Við hugsum líka í dag hvað mömmu-hlutverkið kemur til okkar í ólíkum myndum og með ólíkum hætti. Það er hægt að vera kynmóðir, stjúpmóðir, kjörmóðir, stuðningsmóðir. Málið er ekki hvaða forskeyti er fyrir framan mömmuhlutverkið. Málið eru tengslin sem verða til í mömmusambandinu við barnið.
Tuttugasti og þriðji gleðidagur er líka annar mæðradagur. Þess vegna gleðjumst við og þökkum fyrir allar mömmurnar í lífinu okkar.
Áfram mömmur!
Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.