Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblíublogg 21: Elskhugi minn

    Samband kristinnar trúar og kynlífssviðsins er margrætt og flókið. Bent hefur verið á að á sínum tíma hafi áhrifamiklir kristnir guðfræðingar hreinlega farið í stríð við kynhvötina og séð hana sem óvin og keppinaut trúarinnar.

    Það breytir ekki mannlegri reynslu og vitnisburðinum um hana, sem við finnum í Biblíunni. Ein áhugaverðasta bók ritningarinnar er Ljóðaljóðin sem innihalda ástarjátningar tveggja elskenda og mjög litríkar og fallegar lýsingar á unaði ástarinnar.

    Þessi vers úr fjórða kaflanum eru gott dæmi um það:

    Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur,
    og augu þín dúfur
    undir andlitsblæjunni.
    Hár þitt er sem geitahjörð
    sem rennur niður Gíleaðfjall,
    tennur þínar ær í hóp,
    nýrúnar og baðaðar,
    allar tvílembdar
    og engin lamblaus.
    Varir þínar eru sem skarlatsborði
    og munnur þinn yndislegur,
    gagnaugun eins og sneitt granatepli
    undir andlitsblæjunni.
    Háls þinn er eins og turn Davíðs
    sem vopnum er raðað á,
    þar hanga þúsund skildir,
    öll hertygi garpanna.
    Brjóst þín eru eins og tveir hindarkálfar,
    dádýrstvíburar
    að leik meðal lilja.
    Þegar kular í dögun
    og skuggarnir flýja
    mun ég halda til myrruhólsins
    og reykelsishæðarinnar.
    Öll ertu fögur, ástin mín,
    lýtalaus með öllu.

    Hér eru engir 50 gráir skuggar á ferð, heldur eintóm litadýrð, ást og unaður.