Það er hægt að þjálfa líkamann hvar sem er og við þurfum ekki flottan sal með speglum og dýrum tækjum til að geta haldið okkur í formi. Til dæmis má fara út á róló, gera upphífingar, klifra svolítið og gera hnébeygjur. Ennþá betra er auðvitað að virkja krakkana í þessu með sér þannig að úr verði fjölskylduhreyfing.
Ein æfing sem við prófuðum á rólóinum á Eyrarbakka eru hnébeygjur á vegasalti. Þá situr barnið öðru megin og foreldrið hinu megin. Foreldrið stjórnar hreyfingunni upp og niður, situr beint í baki og finnur vel fyrir lærunum sem vinna alla erfiðisvinnuna. Þetta má líka gera án barnsins, eins og Árni sýnir á meðfylgjandi myndbandi.
Á þrítugasta og sjötta gleðidegi þökkum við fyrir róluvellina þar sem er bæði hægt að leika sér og æfa sig.
Ps. Vinir okkar Gaui og Vala eru snillingar í fjölskylduæfingum. Þau hafa gert nokkur kennslumyndbönd og bjóða forvitnum fjölskyldum líka upp á námskeið.
Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.