Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Eitthvað jákvætt og uppbyggilegt

    Ertu á Facebook?

    Hvað skrifar þú mest um?

    Hverju deilir þú með öðrum?

    Myndum? Texta? Hugmyndum? Myndböndum? Efni sem vekur áhuga þinn?

    Hvað einkennir þitt framlag til vefsamfélagsins á fésinu?

    Ef þú ert eins og flestir þá er það eitthvað jákvætt og uppbyggilegt. Það sem ritstjórinn Jónas Kristjánsson kallaði Ást og friður í bloggfærslu um daginn:

    Fólk býður góðan daginn, sýnir myndir af afabörnum, segir frá grillun með vinum og öðrum dásemdum tilverunnar.

    Og svo gaf samfélagsmiðlinum hann einkunn:

    Fésbókin er afar „jákvæður“ miðill, sem hvetur okkur til að vera góð.“

    Við þetta má bæta: hún hvetur okkur til að vera góð, jákvæð og uppbyggileg, í daglega lífinu. Hún er vettvangur til að deila því sem við upplifum hér og nú. Ekki einhverju hátt-upp-höfnu og fjarlægu. Heldur lífinu okkar. Bara eins og það er.

    Ég held að okkur geti stundum yfirsést þessi jákvæðni af því að oft er nöldrað yfir netinu:

    • Fólk notar það of mikið,
    • skrifar um eitthvað óáhugavert –
    • svo er það þessi hópur sem er „virkur í athugasemdum“ sem þykir víst ekki par fínn.

    En svona er þetta.

    Læk

    Þetta uppbyggilega eðli facebook og kannski samfélagsmiðlanna almennt er staðfest með því hvernig viðbrögð við getum sýnt.

    Við getum auðvitað skrifað viðbrögð eða sett mynd eða jafnvel myndband í viðbrögð – en það einfaldasta af öllu er að smella að þrýsta á læk-hnappinn.

    Læk.

    Það getur merkt:

    • Takk fyrir.
    • Sammála.
    • Þetta er áhugavert.
    • Ég stend með þér.
    • Þú ert ekki einn.
    • Þú skiptir máli.

    Og ekki bara það heldur: Daglega lífið þitt skiptir máli.

    Kannski ekki alla í veröldinni. En þann hóp sem tengist þér á Facebook.

    Og ást, húmor, depurð, reiði

    Í vikunni var reyndar kynnt tilraun á Facebook. Það á að bæta við hnöppum. Læk verður að viðbrögðum og viðbragðshnapparnir verða sjö talsins:

    1. Læk.
    2. Ást.
    3. Fyndið.
    4. Jibbí.
    5. Vá.
    6. Depurð.
    7. Reiði.

    Það sem við deilum með öðrum nær nefnilega yfir allan tilfinningaskalann og viðbrögðin gera það líka. Hver hefur til dæmis ekki hugsað sig tvisvar um áður en smellt er á læk við stöðuuppfærslu sem fjallar um eitthvað sorglegt eða erfitt.

    Við vitum samt að lækir merkir ekki: Mikið var gott að þú lentir í vanda. Það merkir til dæmis: Ég hugsa til þín. Ég veit af þér.

    En það sem er áhugavert við þessa tilraun Facebook er að nýju lækhnapparnir gefa þér verkfæri til að sýna samstöðu með skýrari hætti. Sýna samhygð. Og skilaboðin eru þau sömu og áður:

    Ég stend með þér.

    Englarnir og títuprjónshausinn

    Hér ætla ég að gera stuttan útúrdúr.

    Vitið þið hvað margir englar komast fyrir á títuprjónshausi?

    Ég veit það ekki. En þetta er semsagt ein af spurningunum sem var spurt á miðöldum þegar búin voru til flókin kerfi til að komast að mikilvægum sannleika um hið heilaga og eilífa og um Guð. Þá veltu menn semsagt fyrir sér hvort og þá hvað mikið pláss englar taka. Þeir hafa nefnilega ekki hefðbundinn líkama.

    Kannski fannst einhverjum þetta fyndið.

    Þetta minnir mig á brandarana um það hvað þú kemur mörgum manneskjum fyrir í litlum bíl.

    Marteinn Lúther siðbótarmaður brást við svona vangaveltum með því að segja að við ættum ekki eyða tímanum í svona spurningar. Þess í stað ættum við að setja fingurinn á það sem skipti máli. Á það sem hægt að gera hér og nú. Því Guð væri ekki hátt upp hafinn og fjarlægur heldur nálægur og að verki.

    Ég rifjaði þetta upp þegar ég las guðspjall dagsins þar sem Jesús er spurður: „Hvers vegna er þessi maður blindur?“ Og svo fær hann tvo valkosti til að svara.

    • Syndgaði hann?
    • Syndguðu foreldrar hans?

    En Jesús svarar:

    „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er.“

    Þegar ég les þetta sé ég fyrir mér að hann hafi dæst og sagt eitthvað á þessa leið:

    Krakkar, slakið aðeins á, þetta snýst ekki um að velta fyrir sér synd og sekt heldur um það sem við ætlum að gera í málinu. 

    Svo læknaði hann manninn. Því þannig vann Jesú.

    Og hver er boðskapurinn: Mikilvægast af öllu er verk Guðs. Og hvað er það? Það er að elska í verki. Með höndunum og orðunum og munninum og munnvatninu eins og við sjáum í guðspjalli dagsins.

    Nei, þetta snýst ekki um að skyrpa.

    Þetta snýst um að sýna umhyggju í verki með öllu sem við eigum. Hugmyndum, orðum, höndum og fingrum og því öllu.

    Þið skiljið.

    Jarðbundið

    Og þetta er eiginlega frekar jarðbundið en himneskt. Þess vegna finnst mér þetta líka kallast svo ágætlega á við samfélagsmiðlana og fésbókina vegna þess að hún er jarðbundin. Hún er hér og nú. Skilaboðin sem við lesum þar eru endurtekin:

    Þetta er það sem ég upplifi eða upplifði. Mig langar að deila því með þér.

    Og lækið sem er okkar viðbrögð segir:

    Takk. Ég sé þig.

    Og þegar vel tekst til er það tjáning á umhyggju og ást sem ber áfram skilaboðin:

    Þú ert hluti af hópi, þú skiptir máli og ég er þakklátur fyrir þig og þitt framlag.

    Þegar við höfum þetta sem útgangspunkt og samskiptamáta þá held ég að það hafi áhrif – mótandi áhrif – á önnur samskipti.

    Ég held að það greiði fyrir því að við vinnum verk hans sem skapaði heiminn og sendir okkur til annara með það verkefni að skilja eftir okkur falleg spor og láta láta gott af okkur leiða. Og breyta þanning heiminum.

    Þannig ná fésbókin og Jesús saman í því sem er jarðbundið og einfalt. Í því sem er hér og nú. Í því sem er til uppbyggingar og er til góðs.

    Fæ ég kannski læk á það?

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.