Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ferðapunktar og fíkjuviðarblöð

    Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.

    Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist.Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína. Lúk 14.16-24

    Inn á milli fótboltaleikjanna sem ráða ríkjum í sjónvarpinu um þessar mundir var sýnd ein ágætis bíómynd í gærkvöldi um skáldkonuna og heimspekinginn Írisi Murdoch. Myndin rakti líf og starf Írisar frá því hún var ung kona að hefja skrif sín þar til hún er komin á efri ár og hugur hennar sem alla tíð var svo frjór og skarpur er farinn að láta undan hrörnun og sjúkdómi. Þungamiðja myndarinnar er samband Írisar við lífsförunaut sinn sem er elskhugi hennar og eiginmaður og stendur við hlið hennar þar til yfir lýkur.

    Í myndinni segir hin unga Íris frá bókinni sem hún er að skrifa – þeirri fyrstu af mörgum sem hún ritaði á langri æfi. Þegar hún er spurð um hvað hún er, segir Íris: Hún er um það hvernig á að vera hamingjusamur, hvernig á að vera góð manneskja og hvernig á að elska.

    Þetta eru hinar stóru spurningar sem hafa heillað manneskjuna alla tíð og knýja okkur hvert og eitt áfram á lífsgöngunni. Þetta er það sem við öll þurfum að fá að vita og leggjum mikið á okkur til þess að vita hvernig þessir hlutir geta komið til okkar.

    En hin gáfaða Íris vissi líka hvað það er sem kemur í veg fyrir að manneskjan öðlist þetta þrennt – að verða hamingjusöm, vera góð manneskja og geta elskað. Það sem stendur í vegi fyrir hinni sístæðu leit okkar að tilgangi lífsins segir Íris í myndinni er þráhyggja, ótti og ástríða sem við viljum ekki viðurkenna eða horfast í augu við.

    Það eru þess vegna ekki ytri hlutir sem koma í veg fyrir að við getum elskað, orðið hamingjusöm og verið góðar manneskjur – heldur þvert á móti. Skýringuna á því sem hindrar okkur í þessu er að finna innra með okkur. Og það varpar ljósi á hvað manneskjan er merkileg út frá þessu sjónarhorni – að hún hefur óumræðilega mikla þörf fyrir að vera hamingjusöm, að elska og vera góð – en er ófær til þess vegna þess hvernig hún er. Þetta vitum við öll sem hér erum – og erum alltaf að reyna að vera góð, elska rétt og vera hamingjusöm.

    Ég veit nú ekki mikið um hvort Íris Murdoch taldi sig ganga erinda kristinnar guðfræði. En það sem hún segir um manneskjuna og baráttu hennar við að elska rétt hljómar líkt og vangaveltur þeirra sem leita í kristna trú við svörum við spurningum um tilgang lífsins. Sú leit hefur í gegnum tíðina skilað ýmsu merkilegu. Fyrst og fremst hefur guðfræðin dvalið við manneskjuna sjálfa og reynt að skilja hvers vegna hún er eins og hún er og hvers vegna hún er ekki eins og hún ætti að vera.

    Á sínum tíma þótti afar skynsamlegt að leita að þessum skýringum í því hvernig heimurinn snerist á hvolf við syndafallið. Mannssálin skiptist í þrá hluta eftir virðingarstiga – skynsemi, vilja og ástríður. Afleiðingar syndafallsins eru þær að hinn æðri hluti sálarinnar stjórnar alls ekki lengur hinum óæðri heldur þvert á móti – það eru ástríðurnar sem ríkja yfir skynseminni en ekki öfugt. Af þessu leiðir öll ógæfa manneskjunnar sem lætur ástríður sínar leiða sig að því sem er ekki þess virði að það sé elskað umfram allt annað.

    Það er þarna sem samband manneskjunnar við Guð verður flókið og snúið. Guð er það sem við eigum að elska og þrá umfram allt annað – en það sem við verðum ástfangin af er fyrst og fremst okkar eigið ágæti. Gregóríus mikli setti fram hugmyndir sínar um hvernig manneskjan syndgar á fjóra vegu: Hún ímyndar sér að hún eigi eitthvað í sjálfri sér, hún ímyndar sér að hún hafi fengið eitthvað frá Guði en fyrir eigin verðleika, hún ímyndar sér að hún eigi eitthvað sem hún á alls ekki í reynd og svo telur hún sig öðrum betri.

    Þessi afstaða kristallast í hrokanum sem við viðhöfum þegar við erum full af hugmyndum um eigin ágæti og höldum dauðahaldi í það sem okkur finnst við hafa öðlast af því við eigum það svo skilið. Þessi hroki sækir afl sitt í óttann við að vera það sem við raunverulega erum og lætur okkur fela okkur á bakvið það sem hinir ímynduðu verðleikar eiga að hafa fært okkur.

    Guðspjall dagsins segir einmitt frá slíkum hrokagikkum sem láta gorgeirinn yfir því sem þeir hafa nýverið komið í verk hindra sig í að þiggja boðið í kvöldmáltíðina sem þeim hafði hlotnast. Þegar veislan er reiðubúin og sent er eftir gestunum, taka þeir allir sem einn að afsaka sig einum munni – einn hefur keypt akur og þarf að fara og líta á hann, annar hefur eignast akneyti sem hann verður að reyna og enn annar er nýkvæntur og vill sinna konunni.

    Þarna eru það verk, umsvif og staða sem mennirnir nota til að leiða hjá sér boðið til þess samfélags við Guð sem kvöldmáltíðarhátíðin í sögunni stendur fyrir. Þeir þiggja ekki boðið heldur setja traust sitt á sig sjálfa og sín eigin verk.

    En það áhugaverða í sögunni er að boðið stendur áfram og veislan er samt haldin. Þeir sem voru boðnir eru hins vegar ekki hluti af henni lengur. Þeir sem taka þátt í veislunni eru þeir sem höfðu ekkert til að fela sig á bak við þegar þeim barst boðið – engin viðskiptaumsvif, eignir eða fjölskyldustöðu – ekkert hinna hefðbundnu fíkjuviðarblaða sem við notum til að fela okkur fyrir Guði og hvert öðru. Þeir sem fengu að taka þátt í kvöldmáltíðinni í sögunni og upplifa þannig samfélagið við Guð voru hinir fátæku, örkumlu, blindu og höltu. Allir þeir sem ekki létu hugmyndir um eigið ágæti og eigin verðleika standa í vegi fyrir því að upplifa það sem er mest virði að fá að njóta þegar það bauðst þeim.

    Finnski guðfræðingurinn Jaakko Heinimäki segir í bók sinni um syndirnar sjö að líf á Guðs vegum sé gott, fullt af hamingju og von. Líf án sambands við Guð er að ytri gerð algjörlega sams konar líf, en það er innst inni hamingjusnautt og án vonar. Mér finnst þess virði að staldra við og íhuga þessi orð um sjálft inntak lífsins sem skilur sig frá ytri gerð þess. Við þurfum ekki að horfa lengi í kringum okkur til að sjá hvað við erum gjörn á að leggja mikið upp úr ytri umgjörð allra hluta. Eitt af aukablöðum Moggans sem rataði í póstkassann hjá mér og heitir Femin orðaði þetta reyndar alveg ágætlega innan um skrif um fyrirsætur, fullnægingar og ferðapunkta: Fólk gerir í auknum mæli kröfu um að starfið sé innihaldsríkt og um leið að einkalífið sé ánægjulegt. Flestir krefjast þess að njóta lífsgæða í formi gefandi einkalífs, starfs við hæfi og stöðugs efnahags.

    Við viljum að gæði og ánægja einkenni öll svið lífs okkar. Starfið og einkalífið eru það sem við notum til að mæla velgengni okkar í augum annarra. Slík velgengni er, eins skrítið og það kann að hljóma, samt ekki ávísun á líf sem er fullt hamingju og von. Kröfur um gæði og frammistöðu á öllum sviðum lífsins láta okkur festa enn fleiri fíkjuviðarblöð utan á okkur svo við þurfum ekki að koma fram eins og við erum. En lífið á Guðs vegum er eitthvað allt annað heldur en frammistaða í lífsgæðakapphlaupinu, hvaða nöfnum við nefnum lífsgæðin sem við erum svo kröfuhörð á. Þar er líka um að ræða aðrar fyrirmyndir en á leikvangi lífsgæðanna þar sem við leitum að leiðum og ráðum til að ná sem lengst. Þar eru fyrirmyndir okkar þau sem láta ekki fíkjuviðarblöð sín þvælast fyrir þegar Guð býður til samfélags heldur þiggja boðið í kvöldmáltíðina miklu. Það eru ekki hin umsvifamiklu og lánsömu í viðskiptum og einkalífi – heldur hin fátæku, örkumlu, blindu og höltu.

    Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

    Kristín Þórunn Tómasdóttir er héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi. Þessi prédikun var flutt í Þingvallakirkju 2. sunnudag eftir Trinitatis, 20. júní 2004.

  • Sögur úr lífi nokkurra kvenna

    Og María sagði:

    Önd mín miklar Drottin,
    og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
    Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
    héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
    Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört,
    og heilagt er nafn hans.
    Miskunn hans við þá, er óttast hann,
    varir frá kyni til kyns.
    Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
    og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
    Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
    og upp hafið smælingja,
    hungraða hefur hann fyllt gæðum,
    en látið ríka tómhenta frá sér fara.
    Hann hefur minnst miskunnar sinnar
    og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
    eins og hann talaði til feðra vorra,við Abraham og niðja hans ævinlega.

    En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín. Lúk 1.46-56

    Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

    Munið þið eftir forsíðu á Morgunblaðinu í þessari viku, þar sem var mynd af konu með lítið barn? Barnið var nýfætt og það og móðir þess voru í flóttamannabúðum, þangað sem þau voru nýkomin. Barnið fæddist ekki þar, það fæddist í Bagdað, þar sem fjölskyldan átti heima. Þegar það fæddist dundu yfir loftárásir og sprengjuregn og því var ekkert ráð annað fyrir konuna og nýfædda barnið að hrekjast af heimilinu sínu og fara á flótta.

    Það hefur oft verið bent á það að á meðan konur og börn koma með engum hætti að þeim ákvörðunum sem leiða til stríðsátaka, þá séu það einmitt konur og börn sem verða harðast úti þar sem stríð geisa. Líf þeirra er fullkomlega sett úr skorðum, þeirra daglegu bjargir eru bannaðar og þau hafa engar leiðir til að verja hendur sínar. Þannig hefur þetta alltaf verið og þannig er það í stríðinu sem nú geisar í Írak, eins og myndin af nýfædda barninu og móður þess minnir okkur á. Og það er ekkert sem er eins sláandi tákn um það raskt og ófrið sem fylgir stríðsátökum og nýfætt barn á hrakningi. Þessi magnaða stund þegar barn kemur í heiminn, umvafið elsku og umhyggju foreldra sinna, og dregur að sér í fyrsta sinn anda lífsins sem Guð hefur gefið því. Í huga okkar eru fyrstu dagar í lífi barns nánast heilagir, við tiplum á tánum í kringum barnið nýfædda og móður þess – ljósin eru dempuð og allir hvísla til að raska ekki þeirri ró og kyrrð sem ríkir þar sem nýfædd börn eru. Þetta er eins ólíkt þeim veruleika sem blasir við mæðrum og nýfæddum börnum í stíði, eins og vera má.

    Annað hefur verið bent á og það er hvað röddum kvenna hefur verið lítill gaumur gefinn og reynslu þeirra lítil athygli sýnd í gegnum tíðina. Þetta gildir reyndar bæði um stríðs- og friðartíma. Mannkynssagan hefur verið einmitt það – saga mannsins, karlsins í heiminum. Við þurfum ekkert að vera voða gagnrýnin til að sjá að það hlýtur að vera eitthvað bogið við hlutfall karla og kvenna í sögubókunum. Á meðan ótal karlkyns skáld, stjórnmálaleiðtogar, trúmenn og vísindafrömuðir eru leiddir fram, er allt annar og minni gaumur gefinn að lífi og reynslu kvenna. Hvernig stendur á því? Er ekki einmitt ástæðan fyrir því sú að konur létu ekki til sína taka á ofangreindum sviðum og því ekkert sérstakt að segja frá? Sumir segja það. En er ekki hin raunverulega ástæða fyrir því hvað reynslu kvenna hefur lítið verið sinnt sú, að þær hafa sinnt verkum og stöðum sem aðrir hafa álitið ekki eins mikils virði og það sem karlarnir fengust við.

    Að eignast börn, ala þau upp, sinna heimili, elda mat, laga klæði, hjúkra veikum og hlynna að öldruðum. Þetta eru þau verk sem konum hafa fallið í skaut, á þessum vettvangi hefur saga þeirra átt sér stað, þar hafa gleði þeirra og sorgir ríkt, sigrar unnist og orustur tapast. Fréttaritararnir voru bara uppteknir annarsstaðar, við að skrifa hjá sér það sem karlarnir sögðu og gerðu.

    Á þessu eru þó ánægjulegar undantekningar og þær eru mjög dýrmætar. Textar sunnudagsins í dag, þegar við minnumst þess þegar Maríu voru borin boðin um að hún myndi eignast son og hann skyldi heita Jesú, eru magnaðir minnisvarðar um sterkar konur sem í trausti til Guðs síns tókust á við aðstæður sínar og það hlutverk sem þeim var ætlað.

    Lofsöngur Maríu, sem í hefðinni heitir Magnificat, eftir latneska upphafinu, er fyrir margra hluta sakir afar merkilegur. Maríu er lagður hann í munn, eftir að hafa hlýtt á boð engilsins Gabríels um að hún hafi verið valin til að bera son Guðs í heiminn. Í lofsöngnum kemur fram skýr guðfræði sem gengur út á að Guð tekur sér stöðu með hinum veiku og smáðu í heiminum en ekki með hinum ríku og valdamiklu.

    „Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
    og upp hafið smælingja,
    hungraða hefur hann fyllt gæðum,
    en látið ríka tómhenta frá sér fara.“

    Og Guð hefur í Maríu, ungri, fátækri, valdalausri konu, séð verkfæri fyrir vilja sinn og ætlað henni hlutverk sem tekur öllum öðrum fram, að vera móðir Guðs í heiminum.

    Hin konan sem talar í lexíu dagsins er ekki eins þekkt og María. En saga hennar er líka merkileg og ljóðið sem hún mælir fram er jafnframt vitnisburður um trú og traust hennar til Guðs, og um Guð sem “reisir hinn lítilmótlega úr duftinu, lyftir hinum snauða upp úr skarninu”. Þarna koma sömu þemun fram og í lofsöng Maríu, að Guð lítur ekki á ytri umbúnað ríkidæmis og valds heldur á hjartalag og trúmennsku. Guð gerir ekki upp á milli ríkra og fátækra, karla og kvenna, eða þeirra sem við teljum vera voða merkileg og þeirra sem okkur finnst vera afskaplega ófín.

    Sagan hennar Hönnu er einmitt svona saga sem hefði ekki ratað inn í Mannkynssögubækurnar – af því að hún væri ekkert merkileg. En hún er merkileg fyrir þær sakir að hún greinir frá mannlegu lífi með öllum flækjunum og draumunum sem við upplifum á vegferð okkar.

    Draumur Hönnu var að eignast barn. En hún átti ekkert barn. Það olli henni miklum sársauka. Barnleysið gerði í sífellu vart við sig, í daglegu lífi og á hátíðum var Hanna stöðugt minnt á að hún var ekki eins og hinir, því hún átti ekkert barn. Hún átti góðan mann sem hugsaði vel um hana. Hann reyndi margt til að hugga hana í barnleysinu en tókst ekki alltaf vel upp, eins og hendir suma þegar þeir ætla að vera nærgætnir en tekst það ekki alveg. “Hanna, hví grætur þú og hví neytir þú ekki matar og hví liggur svo illa á þér? Er ég þér ekki betri en tíu synir?” sagði karlinn þegar hann vildi hressa hana við.

    En kraftaverkið gerðist og Guð bænheyrði Hönnu og gaf henni barn, sem hún nefndi Samúel sem þýðir á hebresku “Guð hefur bænheyrt”.

    Þriðju konunni kynnumst við í textum dagsins í dag, þótt ekki fari mikið fyrir henni. Það er Elísabet, frændkona Maríu, sem María dvaldist hjá í þrjá mánuði á meðan meðgöngunni stóð. Elísabet hafði líka glímt við barnleysið, eins og Hanna. Og hún var orðin ansi vondauf um að nokkur breyting yrði á því, þar sem hún var að komast af þeim aldri sem konur geta eignast börn. En Elísabet fékk líka að njóta náðar Guðs og fékk draum sinn uppfylltan. Hún gekk með barn undir belti tímann sem María var hjá henni, og það barn hlaut nafnið Jóhannes og átti eftir að gegna hlutverki í lífi Jesú, sonar Maríu.

    Sögurnar þeirra Maríu, Hönnu og Elísabetar, sýna okkur að í augum Guðs er líf og reynsla kvenna dýrmæt og þess virði að segja frá. Sögurnar þeirra miðla ekki bara draumum þeirra og þrám, vandræðum og átökum, heldur líka djúpum og næmum skilningi á gildum lífsins og erindi Guðs í heiminum. Þær vitna um skarpa sýn á eðli mannlífsins og átökin sem eiga sér stað í mannlegum samskiptum og sambúð. Í gegnum þessar konur og tjáningu trúar þeirra, getum við betur en ella upplifað og skilið ástina sem Guð ber til barnanna sinna í heiminum og sérstakleg þeirra sem hafa verið niðurlægð og borið skarðan hlut frá borði.

    Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

    Flutt í Víðistaðakirkju á boðunardegi Maríu. Ritningarlestrar 1.Sam 2.1-10; Róm 8.38-39; Lúk 1.46-56.