Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Jólamynd #3: Hvít jól

    Jólamyndin Hvít jól  kallast á við uppáhaldsþátt unga fólksins: Dans dans dans. Hún fjallar um félagana Bob Wallace og Phil Davis sem kynnast systrunum Betty og Judy Haynes. Saman dvelja þau á litlu sveitahóteli í Vermont þar sem þau ætla að koma fram, syngja og dansa.

    Ferðamannabransinn gengur ekki vel þessi jólin. Þegar Bob og Phil komast að því að eigandi hótelsins er leiðtogi þeirra úr hernum, Waverly hershöfðingi, ákveða þeir að leggja sitt af mörkum til að bjarga honum og hótelinu.

    Þetta er falleg mynd, full af skemmtilegum söngvum eins og titillaginu sem allir þekkja. Aðalleikarnir fjórir eru líka liðtækir dansarar. Hvít jól minnir á að jólin eru tími ástar og umhyggju og að þau eru tíminn þegar við látum gott af okkur leiða. Hún er ómissandi innlegg í jólamyndaáhorfið á aðventunni.

  • Jólamynd #2: Fæðing frelsarans

    Biblíumyndin Fæðing frelsarans segir frá ferðalagi þeirra Maríu og Jósefs frá Nasaret til Betlehem. Ferðalagið er erfitt og sem áhorfandi öðlast maður kannski dýpri skilning á því sem hjónin ungu þurftu að ganga í gegnum. Guðspjallið er myndskreytt.

    Eftir langa göngu komast þau til smábæjarins Betlehem. Og við vitum nú eiginlega hvernig þetta endar. Höfum nefnilega lesið bókina.

    Barnið fæðist í fjárhúsinu. Foreldrarnir fegnir og dást að litla kraftaverkinu. Dýrin eru allt um kring. Englar birtast hirðunum. Það er mikil dýrð og mikið ljós. Og vitringarnir mæta á staðinn. Og þetta er svona – svo vitnað sé í Baggalút – eins og í Biblíumyndunum.

    Í eftirminnilegu skoti sjáum í fjarmynd inn í hellinn sem er fjárhús. Hann er rækilega upplýstur. Það sést móta fyrir öllum lykilpersónunum. Ljósgeisli skín af himni. Allt er eins og það á að vera.

    Stundin er heilög og bíómyndin miðlar því vel og ber kannski með sér þá sýn að jólin séu tími þegar hið heilaga verður nálægt og sýnilegt.

  • Jólamynd #1: Snjóbrettajól Davíðs og Golíats

    Snjóbrettajól Davíðs og Golíats er nýjasta myndin um þá strákinn Davíð og hundinn Golíat. Hún gerist á jólum í litla ameríska smábænum sem er heimili þeirra félaga og gefur innsýn í jólahald og samband krakka sem aðhyllast ólík trúarbrögð.

    Davíð er kristinn. Hann heldur upp á jólin og fær jólagjafir. Jólagjöfin hans í ár er snjóbretti og það tengir hann einmitt við félagana Jasmín, sem er múslimi og Samma sem er gyðingur. Bæði eru snjallir snjóbrettakappar og saman eiga krakkarnir góðar stundir í fjallinu.

    Snjóbrettajólin eru mynd sem dregur upp mynd af ólíkum hefðum í kringum jólin og aðrar trúarlegar hátíðir s.s. Ramadan-föstuna og Ljósahátíð gyðinga. Hún er líka – eins og margir þættirnir um Davíð og Golíat – þroskasaga þess fyrrnefnda. Hér kynnist hann því að ekki halda allir upp á jólin og ekki gefa allir jólagjafir. Og „samt eru þeir bara glaðir“ svo vitnað sé í samtal hans og Golíats.

    Þetta er líka falleg saga um samvinnu og umburðarlyndi. Krakkarnir lenda í snjóflóði, mæta skógarbirni fer ásamt Golíat að sækja hjálp. Allt fer vel að lokum.

    Snjóbrettajólin eru vel þess virði að skoða á aðventunni. Ekki síst ef það eru krakkar á heimilinu.

    Ps. Á aðventunni ætlum við að blogga um um það bil eina jólamynd á dag. Þetta er sú fyrsta.