Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Stóra samhengið

    Reykjavík – Vikublað spyr í dag:

    Eiga vændiskaup að liggja í þagnargildi?

    Hér er kannski aðalspurningin sú hvort ástæða sé að víkja í þessum málum frá þeirri meginreglu íslensks réttarfars að réttarhöld séu haldin í heyranda hljóði. Ég held að svo sé ekki. Skömm og sársauki eru óhjákvæmilegir fylgifiskur þess að vera opinberlega til umfjöllunar, eins og gerist í réttarhöldum og þar líða ekki bara hinir seku. En stóra samhengið snýr að ofbeldinu sem felst í vændiskaupunum og þar megum við ekki rugla saman hver hin raunverulegu fórnarlömb eru.

    Munum líka að samhengi þessa máls er mansal og frelsissvipting sem því fylgir. Hér er því um dauðans alvöru að ræða og mikilvægt að taka með þunga og alvöru á brotum sem stuðla að ánauð og frelsisskerðingu kvenna sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Ef lokuð réttarhöld yfir meintum vændiskaupendum hindra baráttuna gegn mansali og kynbundnu ofbeldi eru þau ekki af hinu góða.

    Reykjavík – vikublað hefur fengið stóran hóp valinkunnra kvenna og karla til að spá í málefni líðandi stundar með lesendum. Úr verður eins konar Hringborð um málefni líðandi stundar.

  • Friðarþjóð

    Reykjavík – Vikublað spyr í dag:

    Verður samfélagið öruggara ef almennir lögregluþjónar bera vopn?

    Ein stærsta blekking í vestrænum samfélögum er að byssur geri okkur öruggari. Við sjáum hvernig þessari afstaða er haldið fram undir formerkjum stjórnarskrábundins réttar um frelsi einstaklingsins í Bandaríkjunum með skelfilegum afleiðingum. Fleiri byssur í umferð þýðir ekki aukið öryggi eða færri glæpi.

    Ég held að það væri ekki til góðs að almennir lögregluþjónar bæru skotvopn. Allar ákvarðanir um breytingar á þessu fyrirkomulagi hljóta að vera teknar á lögbundinn hátt og undanfari slíkrar ákvarðanartöku þarf að vera samtal í samfélaginu okkar því þetta er ekki einkamál lögreglunnar.
    Við Íslendingar viljum vera friðarþjóð og byssuvæðing lögreglunnar styður ekki við það.

    Jesús talaði um sitt fólk sem friðflytjendur og hvatti okkur til að vera farvegur friðar. Við þurfum fleiri talsmenn friðar í samfélaginu okkar því við leysum ekki ofbeldisvandann með meira ofbeldi.

    Reykjavík – vikublað hefur fengið stóran hóp valinkunnra kvenna og karla til að spá í málefni líðandi stundar með lesendum. Úr verður eins konar Hringborð um málefni líðandi stundar.