Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Smellbeitan, útlendingarnir og Jesús

    „Rúss­ar hand­tekn­ir eftir „verslunarferð“ í Fjörðinn“
    „Litháarnir handteknir enn á ný“

    Þetta eru tvær fyrirsagnir frétta frá 2006 og 2008 sem ég fann á vefnum mbl.is. Framsetning af þessu tagi í umfjöllun um glæpi hefur verið gagnrýnd vegna þess að hún þykir ala á andúð á útlendingum. Þá er spurt hvaða máli það skipti hvers lenskur hinn meinti brotamaður er? Og hvers vegna það sé þá ekki nefnt hverju sinni sem Íslendingur er handtekinn að hann sé einmitt Íslendingur? Þetta rifjaðist upp fyrir mér í vikunni vegna þess að ég las frétt á Pressunni sem ég mátti svosem vita að væri ekki íslensk en það var samt aldrei tekið fram. Fyrirsögnin var svona:

    „Lögreglan stöðvaði konu fyrir hraðaakstur: Hún kom með besta svarið“

    Fréttin hófst svo á orðunum: „Athugið – eftirfarandi atburðir gætu ekki hafa gerst“ sem ég veit hvað eiga að merkja. Kannski að svona nokkuð geti ekki gerst, kannski að fréttin sé mögulega uppspuni.

    „Fréttir“ af þessum toga eru þekktar í vefheimum. Fyrirsagnirnar eru kallaðar „clickbait“ – smellbeita – því þær eru settar saman til að skapa forvitni og kalla fram smelli. Svo eru birtar auglýsingar með fréttinni og þannig fást tekjur á vefinn. Sannleiksgildi efnisins skiptir litlu máli eða jafnvel engu. Þess vegna er láta fylgja ábendingu til lesandans efst í fréttinni um að „þetta gæti ekki hafa gerst.“ Ég velti því fyrir mér við lesturinn hvort ekki mætti hafa þá meginreglu að láta þess getið í fyrirsögnum svona frétta hvers lenskir einstaklingarnir sem þær fjalla um eru, til dæmis:

    „Útlensk lögreglan stöðvaði erlenda konu fyrir hraðaakstur í útlöndum: Hún kom með besta svarið – á ensku“

    Ég held nefnilega að ólíkt innlendum glæpafréttum þá megi gjarnan fylgja gaman- og flökkusögum frá útlöndum upplýsingar um upprunaland. Bæði til að auðvelda okkur að sía fréttirnar á vefnum og til að leyfa erlendum sögum að vera einmitt það en láta ekki eins og þær séu íslenskar.

    Smellbeita og lofsöngvar

    Í vikunni bárust fréttir frá Englandi. Fyrir nokkrum dögum var  tekinn upp sjónvarpsþáttur sem heitir Songs of Praise. Hann er sendur út á sunnudagseftirmiðdögum og þessi tiltekni þáttur verður sendur út seinna í dag. Songs of Praise er þáttur með trúarlegri tónlist og þar er líka fjallað um málefni samtímans í ljósi kristinnar sýnar á manneskjuna og trúna. Þáttur dagsins var tekinn upp í flóttamannabúðum í Calais. Þar búa þúsundir flóttamanna – hælisleitenda – frá löndum eins og Sýrlandi, Lýbíu og Erítreu.

    Eitt götublaðið beitti sér í málinu og setti smellbeitufyrirsögn yfir frétt:

    Hymnigrants
    EXCLUSIVE: BBC blasted for filming Songs of Praise at Calais camp

    Í fréttinni kom fram að ríkisútvarpið breska ætti ekki að beita sér á sviði sem væri svona pólitískt. Það væri óviðeigandi að taka upp sjónvarpsþátt um trúarleg efni meðal hælisleitenda og flóttafólks.

    Nick Baines sem er biskup í Leeds var einn af þeim sem svöruðu fyrir hönd kirkjunnar. Hann sagði tvær góðar ástæður fyrir taka þáttinn upp í flóttamannabúðunum. Sú fyrri er að kristin trú fjallar um Guð og manneskjuna í raunverulegum aðstæðum. Sú síðari er að kristið helgihald snýst líka um alvöru fólk, stundum á það sér einmitt stað þar sem aðstæður eru erfiðar.

    Þarna er fólk.
    Náungar okkar.
    Í alvöru og erfiðum aðstæðum.
    Sem hafa fundið og finna styrk í trúnni.
    Þess vegna hafa þau reist sér tjaldkirkju sem rís hærra en tjaldborgin.
    Og þegar hún brann reistu þau hana aftur.
    Ekki af auð sínum heldur af fátækt sinni.
    Og það eru forréttindi að fá að biðja með þeim.

    Jesús og útlendingarnir

    Jesús segir í 25. kafla Matteusarguðspjalls:

    „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. “

    Og:

    „Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“

    Og hvað er þetta allt sem hann talar um?

    Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

    Til þess erum við kölluð. Smellbeita Jesú – það sem grípur – er því ósköp einföld yfirlýsing: Vertu almennileg manneskja, ekki bara við þau sem standa þér næst heldur við þau sem gera það ekki. Til dæmis útlendinga. Flóttafólk. Hælisleitendur.

    Því þau eru Guðs.
    Eins og þú.

    Flutt í lesmessu í Háteigskirkju, 16. ágúst 2015.