Bragi Páll Sigurðarson, verðandi faðir:
Þannig maður spyr sig, hvernig get ég, fyrrverandi karlremba og skíthæll, núverandi örvæntingafullur verðandi faðir, reynt að undirbúa dóttur mína fyrir þennan heim? Heim launamismunar. […] Heim þar sem stelpum er sagt að vera hljóðar og þægar á meðan strákum er hrósað fyrir að vera hugrakkir og röggsamir. Þar sem stelpum er sagt að þær eigi að sýna ábyrgð á meðan strákar eru jú, og verða alltaf, strákar.
Þórir Kr. Þórðarson heitinn, sem var prófessor í Gamlatestamentisfræðum við Háskóla Íslands, kenndi mér á fyrsta ári mínu í guðfræðinámi. Hann setti okkur stúdentunum fyrir að lesa megnið af Gamla testamentinu strax í upphafi annarinnar. Þegar einn af nemendunum dæsti yfir þessu sagði Þórir Kr. kíminn:
Að lesa Gamla testamentið er eins og að éta fíl. Maður tekur einn bita í einu.
Ég held að baráttan fyrir stelpurnar okkar sé eins. Við setjum upp feminísku gleraugun og byrjum svo bara, tökum eitt skref í einu og sjáum hverju það skilar okkur.