Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 11: Uppskerutími

    Allir sem eiga börn vita að á aðventunni fer mikill tími í að fylgjast með uppskeru barnanna á því sem þau hafa verið að vinna að á haustmisserinu. Á barnmörgu heimili eru ótal stundir í desember sem fara í að mæta á danssýningar, tónleika, helgileiki, jólaböll og kynningar af ýmsu tagi.

    Þetta eru kærkomin andartök og dýrmæt tilefni að eiga stund með börnunum. Allt of oft einkennast samskipti og samvera við börnin okkar af hlaupum og stressi. Á jólum er kannski það dýrmætasta sem þú getur gefið börnunum í lífi þínu að vera til staðar, sýna áhuga á því sem þau gera, gefa tíma og skemmtilegheit sem þau kunna að meta.

    Áskorun dagsins

    Hérna er áskorun: Þegar þú veltir fyrir þér hvað þú eigir að gefa barninu þínu eða börnunum þínum í jólagjöf, íhugaðu hvað það gæti verið sem það/þau langar mest í – nefnilega þú og athyglin þín. Allt legó, Barbie, Batman, Playstation dót í heiminum nær ekki að slá út það sem barnið þráir mest: athygli pabba og mömmu og áhuga þeirra á því sem barnið er að gera og leggja sig fram við.

    Kannski er skemmtilegasta verkefnið sem við fáum með börnunum okkar að gera ekkert með þeim: bara að vera, leika, borða, kúra, knúsa og fylgjast með hvað þau hafa stækkað, þroskast og blómstrað allt árið sem nú er að líða.

    Aðventan er uppskerutími.