Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblíublogg 4: Lifandi og túlkað trúarrit

    Í öðru Biblíublogginu skrifuðum við að aðferðarfræði kristins fólk við að lesa Biblíuna fælist í að nota hana sjálfa sem gleraugu eða linsu.

    Þetta er gert í hverri einustu guðsþjónustu. Þar eru lesnir þrír textar úr Biblíunni, einn úr Gamla testamentinu og tveir úr Nýja testamentinu. Að auki eru ótal vísanir í texta Biblíunnar í bænum safnaðarins og öðrum liðum messunnar.

    Annar textinn úr Nýja testamentinu er sóttur í guðspjöllin. Hann hefur sérstöðu því þar segir frá lífi og starfi Jesú. Iðulega geymir hann einnig einhver af orðum Jesú. Hinir lestrarnir tveir voru valdir með hliðsjón af guðspjallinu og efni þess.

    Hver einasti helgur dagur ársins á sitt sett af lestrum. Reyndar eru til fleiri en eitt sett. Núna notar þjóðkirkjan til dæmis tvær textaraðir.

    Aðferðarfræði guðsþjónustunnar felst í því að hlusta og meðtaka orð Biblíunnar úr fleiri en einni átt. Það er hlutverk prédikarans að túlka merkingu lestranna þriggja og tengja þá við líf og aðstæður þeirra sem hlusta.

  • Biblíublogg 2: Með hvaða gleraugum lesum við Biblíuna?

    Biblían geymir sögu sem kristnir menn taka til sín með sérstökum hætti. Í henni heyrir kristið fólk Guð ávarpa sig. Það leitast því við að vera opið fyrir því sem Guð vill segja við lestur eða hlustun.

    Sögunni sem Biblían geymir er miðlað á fjölbreyttan hátt því hún er hvorki einsleit í stíl né uppbyggingu. Ólíkt flestum öðrum bókum er Biblían ekki texti sem er lesinn frá upphafi til enda. Hún samanstendur af textum sem koma úr ólíkum áttum og urðu til á löngum tíma. Hver og einn kafli, hvert og eitt rit, er sjálfstætt verk þannig séð en aðferðafræði kristins fólks er að nálgast texta Biblíunnar í gegnum aðra texta hennar. Þannig er Biblían sjálf gleraugun sem við lesum hana með.

    Þetta þýðir að við tökum Biblíuna ekki upp í leit að því sem Guð vill segja okkur og látum svo staðnæmast við það fyrsta sem við sjáum sem svar við knýjandi málum líðandi stundar. Þannig virkar það ekki. Ástæðan er sú að tengsl hins trúaða og Biblíunnar eru allt önnur, miklu dýpri og flóknari.