Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bænir fyrir fólki á flótta

    Lífsins Guð.

    Engin orð ná utan um það sem gerist í flóttamannabylgju samtímans og við verðum vitni að. Við sjáum hvernig manneskjur sem eru systur, bræður, feður, mæður, nýfæddar, aldraðar, elskaðar eða einmana, flýja heimili sín, sem einu sinni voru örugg en eru það ekki lengur. Við sjáum hvernig þau leggja í lífshættulega ferð í leit að öruggri höfn.

    Við skiljum ekki aðstæður þeirra sem flýja til að bjarga lífi sínu en við sjáum örvæntingu, ótta og sorg í augum þeirra. Við sjáum líka hugrekki og styrk sem veitir von í vonlausum aðstæðum.

    Gef að við tökum höndum saman til að vekja meiri von og koma systkinum okkar til bjargar. Gef að við sjáum hvað við erum aflögufær sem þjóð og einstaklingar og að við getum hjálpað. Gef að þau sem nú eru á flótta finni öruggan stað þar sem þeim er mætt með kærleika og opnum faðmi. Tak á móti þeim sem láta lífið inn í þitt eilífa ljós, þar sem enginn ótti og enginn ófriður ríkir. Hugga þau sem syrgja og lækna brotin hjörtu.

    Fyrir Jesú Krist Drottinn okkar, sem sagði: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra og systra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Amen.

    *

    Himneski faðir, frá þér er öll gæska, ást og örlæti.
    Við þökkum þér fyrir öll þau hjörtu sem standa opin þeim sem eru á flótta.
    Við biðjum þig að hjálpa okkur að opna líka fangið okkar til að bjóða þau velkomin og að bjóða fram hendur okkar til stuðnings og góðra verka.
    Gef von þeim sem eru vonlaus, græðslu inn í brotin líf
    og huggun í hræddar sálir.
    Fyrir Jesú Krist, Drottinn okkar, sem hóf líf sitt sem heimilislaust barn
    og flúði undan ofsóknum valdhafa. Amen.

    Bænir fyrir fólki á flótta og þeim sem taka á móti flóttafólki. Notist, breytist og bætist að vild. 

  • Bæn fermingarbarnanna í Laugarneskirkju

    Viltu vera með samfélaginu okkar yfir jólin. Viltu styðja okkur í því að gera Ísland að kærleiksríku heimili fyrir alla sem þar eiga heima.  Amen.

    Á aðventukvöldinu í Laugarneskirkju voru fermingarbörnin í einu af aðalhlutverkunum. Þau gengu inn í kirkjuna með kertaljós, klædd í hvíta kyrtla, sungu. Nokkur þeirra stigu líka fram og báðu fyrir hönd safnaðarins. Þetta er ein af bænunum þeirra og við gerum hana að okkar bæn í dag.

  • Bænir í geðveikri messu

    Í dag var geðveik messa í Laugarneskirkju. Okkur langar að deila bænarefnum dagsins með lesendum bloggsins.

    Geðsjúkdómar

    Elsku góði Guð, í dag felum við þér þau okkar sem glíma við eða hafa glímt við geðsjúkdóma. Takk fyrir gjafir þeirra og lærdóm sem þau færa samfélaginu okkar. Umvef þau með ást þinni og umhyggju og lát þau aldrei gleyma að þau eru óendanlega mikilvæg í þínum augum. Styrk aðstandendur og fagfólk og gerðu ráðamenn meðvitaða um ábyrgð og verkefni í málaflokknum. Við biðjum í Jesú nafni.

    Ebóla

    Almáttugi Guð, við komum fram fyrir þig með áhyggjur okkur út af ebólufaraldrinum sem geisar í Vestur-Afríku og teygir anga sína út um allan heim. Viltu styrkja þau öll sem glíma við sjúkdóminn – þau sem hafa smitast, búa á svæðum þar sem faraldurinn geisar, eiga ættingja sem hafa smitast eða dáið, við biðjum þig sérstaklega fyrir börnum sem hafa misst foreldra sína vegna ebólu. Viltu vera með þeim sem sinna læknis- og hjúkrunarstörfum og berjast við sjúkdóminn. Viltu gefa stjórnvöldum og alþjóðastofnunum visku og dómgreind til að bregðast við hratt og örugglega. Viltu gera okkur öll meðvituð um að það eru ekki Þau sem glíma við ebólu heldur Við öll. Við biðjum í Jesú nafni.

    Náunginn

    Drottinn Guð, við þökkum þér fyrir allar góðar gjafir sem frá þér eru komnar. Hjálpaðu okkur að nota þær sjálfum okkur og öðrum til blessunar og þínu nafni til dýrðar. Gerðu okkur meðvituð um neyð náungans og gefðu okkur hugrekki til að koma til hjálpar. Takk fyrir listir og listafólk, kennara og umönnunarstéttir, heilbrigðisstarfsfólk og þau sem gæta öryggis. Blessa þau sem hafa tekið að sér ábyrgðarstörf í þágu almennings og gef þeim visku og réttlætiskennd. Við biðjum í Jesú nafni.

    Friður

    Drottinn Guð, við biðjum fyrir kirkju þinni og öllum konur og körlum sem þjóna þér og útbreiða orð þitt og kærleika. Blessa öll þau sem láta kærleiksboðorðið sem þú gefur okkur móta líf sitt og veru. Í dag þökkum við þér fyrir hana Malölu og það sem hún kennir okkur, nefnilega að friður, samtal og menntun er alltaf betra svar en ofbeldi og yfirgangur. Hjálpaðu okkur að líkjast henni, eins og hún líkist þér. Við biðjum í Jesú nafni.