Lífsins Guð.
Engin orð ná utan um það sem gerist í flóttamannabylgju samtímans og við verðum vitni að. Við sjáum hvernig manneskjur sem eru systur, bræður, feður, mæður, nýfæddar, aldraðar, elskaðar eða einmana, flýja heimili sín, sem einu sinni voru örugg en eru það ekki lengur. Við sjáum hvernig þau leggja í lífshættulega ferð í leit að öruggri höfn.
Við skiljum ekki aðstæður þeirra sem flýja til að bjarga lífi sínu en við sjáum örvæntingu, ótta og sorg í augum þeirra. Við sjáum líka hugrekki og styrk sem veitir von í vonlausum aðstæðum.
Gef að við tökum höndum saman til að vekja meiri von og koma systkinum okkar til bjargar. Gef að við sjáum hvað við erum aflögufær sem þjóð og einstaklingar og að við getum hjálpað. Gef að þau sem nú eru á flótta finni öruggan stað þar sem þeim er mætt með kærleika og opnum faðmi. Tak á móti þeim sem láta lífið inn í þitt eilífa ljós, þar sem enginn ótti og enginn ófriður ríkir. Hugga þau sem syrgja og lækna brotin hjörtu.
Fyrir Jesú Krist Drottinn okkar, sem sagði: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra og systra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Amen.
*
Himneski faðir, frá þér er öll gæska, ást og örlæti.
Við þökkum þér fyrir öll þau hjörtu sem standa opin þeim sem eru á flótta.
Við biðjum þig að hjálpa okkur að opna líka fangið okkar til að bjóða þau velkomin og að bjóða fram hendur okkar til stuðnings og góðra verka.
Gef von þeim sem eru vonlaus, græðslu inn í brotin líf
og huggun í hræddar sálir.
Fyrir Jesú Krist, Drottinn okkar, sem hóf líf sitt sem heimilislaust barn
og flúði undan ofsóknum valdhafa. Amen.
Bænir fyrir fólki á flótta og þeim sem taka á móti flóttafólki. Notist, breytist og bætist að vild.