Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Roðdregna Biblíu? Nei, takk

    Í kvikmyndinni Super Size Me sem var sýnd hér á landi fyrir rúmum áratug ræðir kvikmyndagerðarmaðurinn Morgan Spurlock meðal annars um kjúklinganagga og hann spyr: „Úr hvaða hluta kjúklingsins er kjúklinganaggurinn eiginlega?“

    Svarið er: Naggurinn er ekki úr einu stykki af kjúklingi heldur úr næstum því heilum kjúklingum sem eru maukaðir. Því næst spurði Spurlock: „Hvað er hráefni úr mörgum kjúklingum í einum nagga?“ Svarið var: Mörgum.

    Kæri söfnuður.

    Ég ætla ekki að prédika um kjúklinganagga. Ég ætla að tala um Biblíuna. Og um fisk. En kjúklinganaggurinn er gagnlegur sem líking og þannig verður hann meðhöndlaður í dag. Meira um það á eftir.

    Hvernig lesum við Biblíuna?

    Biblían er á dagskrá á þessu ári. Hún er auðvitað alltaf á dagskrá í kirkjum og samfélagi en í ár fær hún aukið rými af því að Hið íslenska Biblíufélag er tvö hundruð ára. Það liggur því beint við á einum af lykildögum kirkjuársins – Sjómannadeginum – að íhuga hvað Biblían er og hvernig við meðhöndlum hana.

    Hvað gerum við þegar við lesum, íhugum og notum Biblíuna? Hvernig nálgumst við hana og hvernig berum við hana áfram?  Það er kannski viðeigandi að taka líkingu af fiski af því að það er Sjómannadagur. Ef Biblían er fiskur og við erum fisksalinn, hvað gerum við?

    • Afhendum við hana heila? Gjörðu svo vel, hér er hún, gerðu endilega eitthvað með hana. Viltu uppskriftabækling?
    • Skerum við hausinn og sporðinn af af því að það er efni í henni sem á ekki erindi við fólk, efni sem við skömmumst okkar fyrir? Hér er Biblían þín, hér eru sögurnar, en ég ætla að halda nokkrum eftir af því að þær eru leiðinlegar, skipta ekki máli, gagnast ekki eða ég skammast mín kannski fyrir þær.
    • Roðdrögum við Biblíuna (roðflettum fyrir okkar sunnanfólkið) þannig að flakið eitt sé eftir? Snyrtum hana og gerum fallega og höldum svo eftir kjarnanum? Skerum hana kannski í bita af því að fólk höndlar hana ekki í heild en getur meðtekið smá búta í einu?
    • Sjóðum við hana kannski – eldum úr rétt? Búum við til rétt – til dæmis prédikun?

    Hvað gerum við og hvernig meðtekur fólk Biblíuna í dag? Gerum við kannski allt þetta og jafnvel meira til?

    Ótúlkað, túlkað, oftúlkað

    Það hefur verið eitt af einkennum hinnar lúthersku nálgunar við Biblíuna að fólk eigi að hafa aðgang að henni sjálft. Til að lesa og íhuga, rýna, gagnrýna. Það þýðir ekki að við veljum ekki úr texta til að lesa í kirkjunum – eins og textana þrjá sem við lesum hér í dag. Það þýðir að við notum þá sem dæmi um heildina, en þeir eiga ekki að koma í stað hennar.

    Það er meira. Við erum meðvituð um að Biblían er opið rit. Hún er túlkuð. Raunar finnum við fjölda dæma um það í Biblíunni sjálfri – það eru textar sem kallast á gegnum ritin, árin og aldirnar.

    En það eru ekki allir sem vilja gera þetta. Tveir hópar andæfa þessari nálgun. Báðir hafa bókstafstrúarnálgun við Biblíuna:

    • fundamentalískir vantrúarmenn
    • fundamentalískir trúmenn

    Það einkennir slíka nálgun við Biblíuna að vilja líta svo á að það sé bara til ein rétt túlkun á textum. Og að hún sé augljós. Það einkennir þessa nálgun að vilja velja og hafna, snyrta burt óheppilegu textana (eða kannski þá heppilegu eftir því hvernig á það er litið) en vilja halda öðrum á lofti. Slíta þá úr samhengi og hafa uppi stóra yfirlýsingar: „Svona segir Biblían.“

    Þetta er ekki góð nálgun. Við eigum ekki að búta Biblíufiskinn svona niður og halda á lofti einstökum versum, án samhengis og túlkunar.

    Hvers vegna?

    Vegna þess að hér er gefið í skyn að samhengið skipti ekki máli. Vegna þess að hér er ekki tekið tillit til þess hvað Biblían er og hvernig hún varð til. Vegna þess að hér verður til hætta á misnotkun Biblíunnar. Til dæmis til að berja á fólki sem á  undir högg að sækja í samfélaginu.

    Fúndamentalistarnir segja: Það er ein túlkun og aðeins ein sem er möguleg. Hin lútherska áhersla er andstæð þessu: Textinn er túlkaður, hann kallar á túlkun, hann krefst túlkunar.

    Biblían er fiskur

    Biblían er fiskur. Eða eins og fiskur.

    Fiskflak.

    Hnakkastykki.

    Heill.

    Fúndamentalisminn vill ekki aðeins roðdraga Biblíuna, hann vill gera úr henni nagga: taka það sem var lífræn heild og búa til úr því eitthvað nýtt sem samanstendur af mörgum smáeiningum en þiggur ekki bragð af þeim heldur af kryddi sem er bætt í og ónáttúrulegum bragðefnum.

    Að nálgast Biblíuna í trú er hins vegar að virða heildina, leyfa henni að tala til sín og leita að þræðinum eða þráðunum sem koma saman. Á hverjum sunnudegi hafa til dæmis verið valdir saman lestrar sem miðla afstöðu trúarinnar til lífsins. Í dag er einn þráðurinn svohljóðandi:

    Treystu Guði.

    Vonaðu á Guð.

    Því að Guð er trausts verð/ur og þar getur þú fundið logn í stormum lífsins.

    En ekki bara þetta.

    Treystu líka sjálfum eða sjálfri þér til að lesa Biblíuna og hlusta eftir orði Guðs.

    Treystu þér.

    Við gerum það.

    Það er hin lútherska nálgun.

    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýðr sé heilögum anda sem er þessi ást.

    Flutt í Áskirkju á Sjómannadegi, 7. júní 2015. Mynd: August Linnmann.