Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ljósberi í myrkri ofbeldis

    Sankta Lucia

    Í dag, 13. desember, er messudagur heilagrar Lúsíu sem lifði á Sikiley undir lok þriðju aldar og lét að öllum líkindum lífið í ofsóknum Díokletíanusar árið 304. Í okkar heimshluta birtast Lúsíuminnin helst í sænskum þjóðháttum sem hafa að einhverju leyti skolast hingað á land en í kirkjuhefðinni er Lúsía verndardýrlingur blindra, veikra barna, bænda, vændiskvenna sem hafa snúið við blaðinu, glergerðarmanna, bílstjóra, hjúkrunarkvenna, klæðskera, vefara, ritara og fleiri.

    Eins og aðrir dýrlingar er Lúsía fyrirmynd trúaðra í lífi sínu og trú, með því að standa gegn ríkjandi viðmiðum umhverfisins og veraldlegum kröfum. Lúsía er í myndlistinni gjarnan táknuð með augun sín á diski sem hún heldur á, því helgisagnir greina frá því þegar hún svipti sig sjóninni og fegurð augna sinna með því að rífa þau úr sér, til að sýna einhverjum vonbiðlinum að henni væri full alvara með því að varðveita trúarlega innblásinn meydóm sinn.

    Samkvæmt gregóríönsku tímatali var 13. desember stysti dagur ársins og minni Lúsíu því samofið því magnaða náttúrulega mómenti þegar nóttin ríkir á norðurhveli jarðarinnar. Tenging hennar við ljósið er sterk og hefur talað til ljósþyrstra norðurlandabúa því annað tákn Lúsíu er olíulampinn sem hún heldur á, eins og hinar klóku meyjar sem biðu brúðgumans í dæmisögunni. Enda getum við litið á Lúsíu sem táknmynd sálarinnar – eða kirkjunnar – sem á aðventunni bíður komu Krists.

    Lúsía er líka táknmynd fyrir örlög margra kvenna sem eru undir ákvarðanir og vald annarra settar. Hún er þolandi heimilisofbeldis og mansals eins og kynsystur hennar um allan heim enn þann dag í dag. Ofbeldi gegn konum er stór og svartur blettur á menningu okkar og því er við hæfi að staldra við einmitt á svartasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.

    Koma ljóssins í heiminn sem aðventan vísar til hefur þeim mun meiri áhrif eftir því sem myrkrið er meira. Hjúpuð myrkri blindu og valdbeitingar heldur Lúsía uppi ljósi vonarinnar sem nær til hinna kúguðu og gleymdu – einnig þessa jólaföstu.

    Pistillinn birtist fyrst á Trú.is. Myndina með pistlinum tók Bengt Nyman í Vaxholms Kyrka í desember á síðasta ári.

  • 101Jólaskraut

    101 Christmas

    Það þarf ekki að fara á glamúrjólatónleika til að upplifa jólastemningu. Það er til dæmis hægt að rölta niður Laugaveginn og upp Skólavörðustíginn og dást að útsjónarsömum jólaskreytingum í gluggum.

    Það er svo margt fallegt, ef að er gáð, þegar rölt er um miðbæinn þessa dagana.