Við byrjum í dögun.
Sjáum mótorhjól stöðva við landamærastöð á mærum ókunnra landa.
Maður stígur af hjólinu.
Talar við landamæraverðina.
Við þekkjum ekki tungumálið.
Sem betur fer er myndin textuð!
Hvaðan ertu að koma, spyrja þeir?
Þaðan, segir hann og bendir aftur fyrir sig.
Hvað varstu að gera?
Veiða.
Hvað er í fötunni, segir annar landamæravörðurinn og bendir á hvíta fötu.
Fiskur. Sá sem ég veiddi.
Þú mátt ekki fara með fisk yfir landamærin. Engan fisk.
Hvað eigið þið við svarar maðurinn? Erum við ekki í Evrópusambandinu? Frjáls flutningur milli landa og það allt.
Þú mátt ekki fara með fiskinn. Þú verður að skilja hann eftir.
Það eru reglurnar.
Og maðurinn á mótorhjólinu tekur fötuna.
Hellir úr henni vatninu og fiskinum fylgir með, spriklar á þurru landi.
Svo heldur hann áfram.
Svona hefst rúmenska kvikmyndin Á morgun. Þessi mynd var sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík og hún fékk kvikmyndverðlaun kirkjunnar sem voru veitt í um helgina. Þetta er mögnuð mynd sem fjallar um mærin milli fólks og reglurnar í lífinu, bæði reglur sem hvetja til þjónustu við náungann og reglur sem þjóna engu nema sjálfum sér.
Á morgun fjallar líka um vináttu og um samtal. Hún segir sögu Nelu sem frá Rúmeníu og Behran sem er frá Tyrklandi. Þeir verða vinir, en tala þó ekkert sameiginlegt tungumál. Nema kannski tungumál mennskunnar. Á þeim grundvelli vex vinátta þeirra og virðing fyrir hvor öðrum.
Nelu frá Rúmeníu og Behran frá Tyrklandi verða vinir. Um það fjallar kvikmyndin Á morgun. Þeir eru ólíkir, þeir skilja ekki hvorn annan, en þeir skilja samt hvorn annan. Þeir verða vinir þrátt fyrir landamærin og fjarlægðina á milli þeirra. Þeir tala tungumál mennskunnar.
Við þurfum að taka upp æfingar í tungumáli mennskunnar hér á Íslandi. Það er verkefni dagsins í dag, það er verkefnið Á morgun og líka hinn.