• Í dag og Á morgun

    Við byrjum í dögun.
    Sjáum mótorhjól stöðva við landamærastöð á mærum ókunnra landa.
    Maður stígur af hjólinu.
    Talar við landamæraverðina.
    Við þekkjum ekki tungumálið.
    Sem betur fer er myndin textuð!
    Hvaðan ertu að koma, spyrja þeir?
    Þaðan, segir hann og bendir aftur fyrir sig.
    Hvað varstu að gera?
    Veiða.
    Hvað er í fötunni, segir annar landamæravörðurinn og bendir á hvíta fötu.
    Fiskur. Sá sem ég veiddi.
    Þú mátt ekki fara með fisk yfir landamærin. Engan fisk.
    Hvað eigið þið við svarar maðurinn? Erum við ekki í Evrópusambandinu? Frjáls flutningur milli landa og það allt.
    Þú mátt ekki fara með fiskinn. Þú verður að skilja hann eftir.
    Það eru reglurnar.
    Og maðurinn á mótorhjólinu tekur fötuna.
    Hellir úr henni vatninu og fiskinum fylgir með, spriklar á þurru landi.
    Svo heldur hann áfram.

    Svona hefst rúmenska kvikmyndin Á morgun. Þessi mynd var sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík og hún fékk kvikmyndverðlaun kirkjunnar sem voru veitt í um helgina. Þetta er mögnuð mynd sem fjallar um mærin milli fólks og reglurnar í lífinu, bæði reglur sem hvetja til þjónustu við náungann og reglur sem þjóna engu nema sjálfum sér.

    Á morgun fjallar líka um vináttu og um samtal. Hún segir sögu Nelu sem frá Rúmeníu og Behran sem er frá Tyrklandi. Þeir verða vinir, en tala þó ekkert sameiginlegt tungumál. Nema kannski tungumál mennskunnar. Á þeim grundvelli vex vinátta þeirra og virðing fyrir hvor öðrum.

    Nelu frá Rúmeníu og Behran frá Tyrklandi verða vinir. Um það fjallar kvikmyndin Á morgun. Þeir eru ólíkir, þeir skilja ekki hvorn annan, en þeir skilja samt hvorn annan. Þeir verða vinir þrátt fyrir landamærin og fjarlægðina á milli þeirra. Þeir tala tungumál mennskunnar.

    Við þurfum að taka upp æfingar í tungumáli mennskunnar hér á Íslandi. Það er verkefni dagsins í dag, það er verkefnið Á morgun og líka hinn.

  • Skjaldborg reist um heimilin: Lendi þau í vandræðum látum við þau fá meira, segir ríkisstjórnin

    Þessa frétt lásum við ekki í dag:

    Ríkisstjórnin mun gera allt til þess að sjá til að heimilin verði ekki fyrir skakkaföllum. Falli gengisdómar heimilunum í óhag mun ríkið láta þau fá meiri pening, segja stjórnvöld í yfirlýsingu til þjóðarinnar í dag.

    Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar sem var birt í dag segja stjórnvöld að hveitibrauðsdögum bankanna á Íslandi eftir Hrun sé lokið. Aukinnar þátttöku bankanna í niðurgreiðslu skulda sé vænst, frystingu skulda sé ekki lokið og engin nauðungaruppboð séu framundan.

    Á sama tíma segjast stjórnvöld ætla að slá skjaldborg um heimilin. Í kaflanum um mögulega dóma í tengslum við gengislán segir að ef í ljós komi að allt fari á versta veg fyrir heimilin, að þau ráði ekki við stöðuna, þá muni ríkissjóður bjarga fjárhag þeirra með því að veita fé til þeirra.

    Endurfjármögnunin mun kosta ríkissjóð, fjármagnseigendur og erlenda lánardrottna bankanna verulegar fjárhæðir en það er nokkuð sem þeir sem bera ábyrgð á Hruninu verða að axla til að tryggja stöðugleika í landinu og uppbyggingu.

    Segir ríkisstjórn Íslands að tillaga um slíkt verði lögð fyrir Alþingi fyrir í október. Þar fái ríkisstjórnin heimild til að setja meira fé í heimilin og heimila Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, að endurfjármagna þau heimili sem Hrunið hefur komið illa við.

    Þess í stað mátti lesa þetta: Skjaldborg reist um bankana: Lendi bankar í vandræðum látum við þá fá meira, segir ríkisstjórnin.

    Sussubía.

    Við þurfum fleiri fréttir af afgerandi aðgerðum í þágu heimila og fjölskyldna í landinu.

    Við þurfum skýrari skilaboð um samstöðu með fólki.

  • Gleymum aldrei þessum nöfnum

    Gleymum börnunum ekki.

    Sara, Anna, Emilía, Katrín, Eva

    Jón, Daníel, Aron, Viktor, Alexander

    Þetta eru fimm algengustu eiginnöfnin sem voru gefin drengjum og stúlkum á aldrinum 0-4 1. janúar 2008. Á Hrunárinu. Þau standa fyrir börnin okkar allra. Þau sem bera byrðarnar.

    Hannes Hólmsteinn vill að við gleymum aldrei nöfnum fimm Alþingismanna.

    Við viljum að við gleymum ekki nöfnum barnanna sem munu bera byrðarnar.

    Við viljum að við gleymum ekki andlitum barnanna.

    Við viljum að við gleymum ekki hagsmunum þeirra.

    Aldrei.

  • Verðlaunastikla

    Eitt af verkefnum okkar (nánar tiltekið Árna) á RIFF er að starfa með dómnefndinni sem úthlutar kvikmyndaverðlaunum kirkjunnar. Starfið felst í að horfa á myndirnar tólf í keppnisflokknum og taka þátt í vali á verðlaunamyndinni. Þetta er skemmtilegt starf sem opnar augu og huga fyrir því nýjasta sem er að gerast í kvikmyndagerð í heiminum.

    Verðlaunin eru nú veitt í fimmta sinn. Áður hafa kvikmyndirnar Fjórar mínútur, Listin að gráta í kór, Snjór og Saman fengið þess verðlaun. Allt magnaðar myndir sem eru vel þess virði að kynna sér. Dómnefndin er nú að störfum, niðurstaðan liggur fyrir á laugardaginn kemur.

    Ps. Stiklan hér að ofan er Árnaföndur sem gefur innsýn í fyrstu fjórar verðlaunamyndirnar.

  • Hættan við hugrekkið

    Hættulegasti maður í Ameríku. Hugrakkasti maður í Ameríku.

    Heimildarmyndin The Most Dangerous Man in America sem er sýnd á RIFF segir sögu Daniel Ellsberg. Hann var háttsettur í bandaríska stjórnkerfinu, starfaði sem ráðgjafi í Pentagon og hjá RAND stofnuninni. Starf hans laut meðal annars að því að safna og greina upplýsingar varðandi stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Víetnam. Hann hóf feril sinn sem stuðningsmaður stjórnvalda, en skipti svo um skoðun. Þetta leiddi meðal annars til þess að hann lak svonefndum Pentagon-skjölum um stríðsreksturinn í þessum hluta heimsins til þingmanna og fjölmiðla.

    Tveir meginþræðir eru fléttaðir saman í myndinni: Hugrekki og meðvirkni. Oftar en einu sinni kemur fram í myndinni að margir höfðu vitneskju um að ekki var allt í lagi í þessum efnum en þorðu ekki að stíga fram og segja frá. Þegar Ellsberg fann að hann var tilbúinn að lenda í fangelsi fyrir afstöðu sína og aðgerðir var hann líka tilbúinn að stíga fram.

    Þetta er mynd um tíðaranda og tjáningarfrelsi. Þetta er mynd um hugrekki og Hrun. Þetta er mynd um framkvæmdavald og löggjafarvald. Þetta er mynd um ótta og útilokun.

    Þetta er mynd sem við mælum með, sem sögulegri heimild og sem samtíma áskorun.

  • Bræður munu bregðast

    Nick í Submarino

    Submarino segir sögu Nick Torp og litla bróður hans. Sá yngri er aldrei nefndur á nafn í myndinni, við þekkjum hans aðeins sem föður Martins. Bræðurnir alast upp á brotnu heimili og sú reynsla markar líf beggja. Við kynnumst þeim sem börnum í upphafi myndarinnar, fáum innsýn í erfiðar aðstæður á heimilinu, sjáum þá reyna sig í hlutverkum sem tilheyra fremur fullorðnum en börnum, sjáum hvernig þeir ráða ekki við þetta líf.

    Svo víkur sögunni að bræðrunum sem fullorðnum mönnum. Í fyrri hluta myndarinnar segir frá Nick, í síðari hluta myndarinnar bróður hans. Nick notar áfengi til að deyfa sársaukann sem hann býr við, bróðir hans er fíkill. Fortíðin fjötrar báða. Nick býr einn í félagslegri íbúð. Hann hittir Sofie nágrannakonu sína stöku sinnum, þau hafa félagsskap af hvort öðru og af víninu, en ekki mikið meira. Bróðirinn býr einn með syni sínum Martin. Hann segist lifa fyrir soninn, en fíknin er sterkari.

    Þetta er mögnuð mynd um uppgjör og endurlausn.

    Í umræðum að lokinni sýningu Submarino á RIFF sagði Jakob Cedergren (sem leikur Nick í myndinni) að þetta væri saga af ástinni milli bræðranna tveggja. Um leið væri þetta eins konar frumsaga í anda sögunnar af Kain og Abel. Submarino fjallar að vísu ekki um bræðravíg eins og sú saga, en hún fjallar um brostin sambönd, brostnar vonir og brostna bræður. Í myndinni sjáum við Nick og bróður hans sökkva niður á botn. Annar verður eftir. Hinn fær tækifæri til að stíga upp.

    Við mælum hiklaust með Submarino. Hún er sýnd á RIFF í kvöld.

    Ps. Heiti myndarinnar er sótt í nafn á pyntingaraðferð. Myndin fjallar ekki um pyntingar, en kannski er hliðstæðan fólgin í því að myndin fjallar langtímaáhrif þess að ganga nærri börnum og virða ekki mörk.

  • Palli löggubíll og snobbhænsnin

    Árni Svanur ræðir Palla (Lása) löggubíl í stuttu videobloggi. Eins og við höfum þegar rakið hér á blogginu er Palli löggubíll stórskemmtileg barnamynd með brýnan boðskap. Í þessu videobloggi er meðal annars komið inn á bílategundir, vatnssnobb og sitthvað fleira.

  • Palli löggubíll og fyrsta bíóferðin

    Laugardagur var fjölskyldudagur á RIFF. Kristín videobloggar um Palla (Lása) löggubíl sem er sýndur á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Þetta er flott barnamynd um umhverfismál. Þetta var líka fyrsta bíóferð yngsta barnsins á heimilinu.

  • Umhverfisvænn norskur löggubíll

    Palli löggubíll og oturinn

    Palli löggubíll er frábær mynd fyrir alla fjölskylduna sem var sýnd í dag og verður sýnd þrisvar í viðbót á RIFF í ár. Þetta er  falleg og hrífandi mynd með beittan boðskap og leiftrandi húmor. Að blanda húmor og boðskap heppnast ekki alltaf en í þessari tölvuteiknuðu mynd eru Norðmennirnir á heimavelli.

    Rafbíll eða Hömmer?

    Þemað er umhverfið okkar. Senan er sett í litlu þorpi í norður Noregi, sem er samfélag- og samtímaspegill áhorfandans. Aðalhetjan er Pelle Politibil (ætti auðvitað að heita Lási löggubíll á íslensku, hrynjandinnar vegna) sem eftir langa og dygga samfélagsþjónustu, umbreytist í rafmagnsbíl eftir hildarleik í óveðri. Við það er hann settur til hliðar og þarf sér til mikillar angistar að sjá nýjan, chic og kraftmikinn Hömmer koma í sinn stað í lögguteyminu.

    Við tært fjallavatn, sem m.a. sér þorpinu fyrir drykkjarvatni, kynnist hann yndislega steiktum otri sem verður vinkona hans.  Saman verða þau vitni af umhverfisspjöllum, þegar tveir viðskiptajöfrar (innrásarvíkingar) ryðjast inn á sviðið og hreinlega stela vatninu til að geta tappað því á flottar glerflöskur og sent langt út í heim, fyrir drjúgan skilding. Alvara málsins lýkst upp fyrir otrinum þegar hún leggur saman tvo og tvo: ef ekkert vatn, þá engir fiskar, þá engir otrar.

    „Ef þetta væru alvöru glæpir …“

    Vopnaður þekkingu á þvi sem er að eiga sér stað og spámannlegri rödd sem varar bæjarbúa við yfirvofandi hættu, lendir löggubíllinn í því sama og margir boðberar slæmra frétta. Honum er ekki trúað og hann er jaðarsettur enn frekar. Löggustjórinn er frekar pirraður:

    „Ef þetta væru alvöru glæpir á borð við reiðhjólastuld og að keyra yfir á rauðu ljósi, væri þess virði að eyða mannskap í málið – en að stela vatni, nei.“

    Alvöru umhverfisníðs sem og andvaraleysi samfélagsins eru gerð núanseruð og greinargóð skil í þessari barnamynd. Myndin er líka beinskeytt í gagnrýni sinni á yfirborðsmennsku græðgi og sýndarmennsku gagnvart því að standa með því sem maður sjálfur er. Og hún er hvorki tilgerðarleg né leiðinleg þegar hún ber þennan boðskap á borð.

    Myndin um Palla löggubíl fær bestu meðmæli okkar – sem og þriggja barna sem voru með í för. Fyrir eitt þeirra markaði sýningin í Bíó Paradís mikil tímamót – þetta var nefnilega fyrsta bíóreynslan :-)

  • Markaleysi og Meðvirkni

    Meðvirknipörin tvö í Cyrus

    Við ætlum að blogga um myndirnar sem við sjáum á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Hátíðin hófst í fyrradag. Opnunarmyndin er hin tragí-kómíska Cyrus eftir þá Jay og Mark Duplass. Hún var sýnd í Þjóðleikhúsinu og eftir því sem við komumst næst mun þetta vera í fyrsta sinn sem kvikmynd er sýnd í húsinu (í það minnsta á opinni sýningu).

    Það var góð stemning í salnum. Ari Eldjárn kynnti dagskrána og reytti af sér brandara, Hrönn Marinósdóttir sagði frá hátíðinni sem er metnaðarfyllri en nokkru sinni fyrr, Þórir Snær Sigurjónsson jós skömmum yfir Rúv fyrir að taka ekki virkan þátt í framleiðslu íslenskra kvikmynda og Jón Gnarr setti hátíðina og sagði nokkur orðum bíóborgina Reykjavík.

    Cyrus fjallar um John og Molly. John er einhleypur, skildi við Jamie fyrir sjö árum. Hann sækir samt enn stuðning til hennar. En Jamie er að gifta sig og hún  vill fyrir alla muni koma sínum fyrrverandi maka út aftur. Molly er einstæð móðir sem býr með syni sínum Cyrus. Hann er tuttugu og eins árs gamall mömmustrákur.

    Cyrus er tragí-kómísk ástarsaga um samband John og Molly. Þau hittast í partýi, falla fyrir hvort öðru og allt gengur vel. Svo hittir John Cyrus. Hann er fullorðinn, en samt barn, og tekur heilmikið rými í lífi Mollyar. Svo mikið að það er spurning hvort pláss er fyrir annan karlmann. Að formi til er þetta dæmigerð rómantísk gamanmynd: Strákur hittir stelpu. Með þeim takast ástir. Upp kemur vandamál. Þau fara í sundur. Vandamálið er leyst af því að þau eru svooo hrifin af hvort öðru. Þau ná aftur saman. Happy ending.

    Þetta er yfirborðið. Undir niðri er Cyrus beitt ádeila á markaleysi og meðvirkni í samskiptum fullorðinna og barna. Þetta gildir jafnt um samband John við Jamie og samband Molly við Cyrus.

    Emmin tvö – markaleysið og meðvirknin – hafa nefnilega einkennt tengsl persónanna í myndinni um langan tíma. Fyrrverandi makarnir John og Jamie eru ennþá tilfinningalega háð hvort öðru og það hindrar þau bæði í að lifa lífinu.  Þótt Jamie vilji af góðum hug styðja John, skapar markaleysið í samskiptunum þeirra álag á nýja sambandið hennar Jamie.

    Molly og Cyrus hafa lifað ein og óáreitt alveg síðan Cyrus fæddist. Nú er hann uppvaxinn en kann svo vel við litla konungsríkið sitt þar sem mamma Molly er drottningin að hann er ekki að fara breyta neinu þar. Fyrr en John kemur til sögunnar.

    Kvikmyndin er rólegheita saga – en þó eru stór skref stigin í henni. Markaleysis- og meðvirknishringirnir sem persónurnar eru fastar í, eru rofnir og það er forsendan fyrir því að allir geta haldið áfram og byggt nýja hluti. Breytingar geta verið sársaukafullar en óhjákvæmilegar.

    Myndin er svona happy ending saga því framtíðin virðist blasa björt við John og Molly þegar myndinni lýkur.

    Það var góð skemmtun að horfa á Cyrus í Þjóðleikhúsinu. Margt í henni vekur til umhugsunar og varpar ljósi á persónuleg tengsl og mynstur í þeim.  Öll þurfum við að kljást við M&M í mismunandi magni í eigin lífi.  Listir og menning – líka bíó – hjálpa okkur að skilja og skynja það upp á nýtt.