Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Daglega sorgin mæðir – tuttugasti og níundi Passíusálmur

    Dramatíkin heldur áfram. Samkvæmt hefð átti á láta lausan fanga í aðdraganda páskahátíðarinnar þegar frelsunarinnar af Egyptalandi var minnst. Pílatus reyndi að fá Jesú lausan út á þessa hefð en á það mátti fjöldinn ekki heyra minnst. Ekki heldur þegar valið stóð á milli Jesú og morðingjans Barabbasar. Það hljóp á snærið hjá Barabbasi þennan dag, þegar hann fékk að ganga laus á meðan Jesús var færður til aftöku.

    Ég hef alltaf séð Barabbas fyrir mér sem algjöran hrotta – svona Vítisenglatýpu. Kannski til að skapa sem mesta andstæðu við Jesú, boðbera friðar, kærleika og hjálpsemi.

    Hallgrímur tekur aðra líkingu og lítur til Adams. Í hans augum er Barabbas táknmynd mannkynsins sjálfs, sem Adam steypti í glötun í aldingarðinum í denn. Og þegar Barabbas gengur sigri hrósandi út úr fangelsinu, sér Hallgrímur Adam og alla afkomendur hans spígspora fagnandi burt.

    Þar sem mannkyn er komið af hinum seka Adam, lýtur það lögmálum syndarinnar, og er ofurselt kvíða, dauða og depurð. Það eru aðstæður sem Hallgrímur á auðvelt með að setja sig inn í. Lífið er alltof oft markað af myrkri og sorg.

    Í myrkvastofu ég bundinn bíð,
    bölvan lögmáls mig hræðir;
    dapurt nálægist dauðans stríð
    og dómsins tíð;
    daglega sorgin mæðir.
    (Ellefta vers í tuttugasta og níunda sálmi)

  • Laun heimsins eru vanþakklæti – áttundi Passíusálmur

    Þegar Hallgrímur bendir á, í áttunda Passíusálmi að veröldin launi velgjörð með vondu, er það nokkuð sem lesandinn á auðvelt með að taka til sín. Þekkja ekki allir hvað manni sárnar þegar velmeinandi framlag, auka fyrirhöfn og alvöru vinna er lítið sem einskis metið?

    Ekki vera hissa á þessu, segir Hallgrímur við sjálfa sig, því velgjörð manneskjunnar þótt vanþökkuð sé, er aðeins brot af kærleiksverki Krists sem þó var handtekinn, smáður og tekinn af lífi.

    Hvers vegna var Jesús tekinn af lífi? Auðvitað er hægt að komast að ólíkum niðurstöðum þegar guðspjöllin eru lesin. Það er auðvelt að tengja atburði föstudagsins langa viðbrögðum valdaaflanna við róttækum samfélagsboðskapi Jesú frá Nasaret. Hann ruggaði bátnum og boðaði nýtt ríki friðar og réttlætis.

    Hallgrímur lætur Jesú benda sjálfan á þetta í áttunda sálminum. Starf hans fór fram meðal fólksins, í samkunduhúsunum þar sem hann boðaði og átti samtal í dagsbirtunni – en þó var sótt að honum í skjóli myrkurs, með vopnum og valdi.

    Þetta er saga svo margra friðarins barna sem boða nýjar leiðir – ríkjandi stéttir taka því ekki vel að heyra gagnrýni og þurfa að láta af forréttindum sínum. Þetta sýnir fjöldi samviskufanga og pólitískra drápa í heiminum vel.

    Furða það, sál mín, engin er,
    ei skalt því dæmi týna,
    þó veröldin launi vondu þér
    velgjörð mjög litla þína.
    (Áttundi sálmur, vers sjö.)

  • Reiðistjórnun 101 – sjöundi Passíusálmur

    Eru ekki viðbrögð Símonar Péturs þegar hann bregður sverði til varnar meistara sínum, eðlileg og afar skiljanleg? Reyndar ræðst hann á garðinn þar sem hann er lægstur með þeim árangri einum að þjónn æðsta prestsins, sem Jóhannesarguðspjall kallar Malkus, missir annað eyrað. Og Jesús kunni ekki að meta þetta ofbeldisverk og segir honum að slíðra sverðið.

    Hallgrími verður þetta að yrkisefni um að það sé aldrei manneskjunnar að kveða upp dóm yfir öðrum, heldur sé það Guðs eins að dæma og beita sverði. Burt séð frá því hvaða réttlætingar við tínum til, þá er hefndin aldrei okkar.

    Jesús gengur lengra en að afneita ofbeldinu, því hann notaði tækifærið og græddi sár Malkusar. Þar er hann hin fullkomna fyrirmynd manngæskunnar sem lætur ekki reiði og hefndarþorsta stjórna gerðum heldur vinnur friðarins verk sama hvað aðstæður eru erfiðar. Þetta undirstrikar Hallgrímur svo vel þegar hann tekur til sín þörfina á því að “læknast” svo orð Guðs nái til hans.

    Heift mína og hefndar næmi
    hefur þú, Jesú, bætt;
    mér gafst manngæsku dæmi,
    þá Malkum fékkstu grætt.
    Eg þarf og einninn við
    eyrað mitt læknað yrði,
    svo orð þitt heyri og virði.
    Þýðlega þess ég bið.
    (Sálmur 7, vers 17.)

  • Frægasti kossinn – sjötti Passíusálmur

    Er kossinn sem Júdas smellti á vanga Jesú nóttina örlagaríku í Getsemanegarðinum frægasti koss sögunnar? Sjötti Passíusálmurinn geymir hugleiðingar um hvað munnurinn, þetta öfluga skynfæri, getur orðið verkfæri svika og niðurrifs.

    Upphaf mannkynssögunnar geymir einmitt slíkt dæmi, þegar fyrstu manneskjurnar leggja sér til munns ávexti af skilningstré góðs og ills, þrátt fyrir bann Drottins þar að lútandi. Hallgrímur sér skýr tengsl þarna á milli og bendir á hliðstæðuna við Evu sem tók eplið í munn sér og braut þar með boð Drottins og svikakoss Júdasar á munn Jesú.

    Freistingar og falska blíðmælgi djöfulsins falla líka undir misnotkun munnsins. Viljir þú varðveita líf og æru, skaltu átta þig á hættunni sem felst í munninum.

    Evu munn eplið eina
    aumlega ginnti um sinn.
    Falskoss því fékk að reyna,
    frelsarinn, munnur þinn.
    Blíðmælum djöfuls bægðu,
    svo blekkist ég ekki á þeim.
    Heims hrekki líka lægðu.
    Líf mitt og æru geym.
    (Sjötti sálmur, sjötta vers.)

  • Elska ég líka þig – fimmti Passíusálmur

    Nóttin í grasgarðinum er viðburðarrík og full af óvæntum atvikum. Atburðirnir verða fyrir Hallgrími tákn um allt það óvænta og erfiða sem mætir okkur á lífsleiðinni, og mikilvægi þess að vera viðbúin því sem að höndum ber. Þegar við leggjumst til hvíldar að kvöldi dags, vitum við ekki hvað nóttin felur í sér fyrir okkur.

    Vörnin er fólgin í því að vera nálægt Jesú og þiggja skjól og vernd sem hann veitir. Vörn Jesú gildir í ólíkum aðstæðum – gegn reiði Guðs, gegn samvisku sem plagar og ásakar, gegn sótt og sorglegri fátækt, og gegn sjálfum dauðanum sem vill kveða upp dóm sinn. Alls staðar gildir að Jesús tekur slaginn fyrir þá sem trúa á hann.

    Á móti vill Hallgrímur játa ást sína og þakklæti til Jesú. Jesús er sá sem elskar mig – og ég er sá sem elskar Jesú. Lokaversið í fimmta Passíusálminum undirstrikar viljann til að eiga náið samfélag og samtal við Jesú, sem hefst hér á jörðinni og nær inn í eilífðina.

    Ég segi á móti: Ég er hann,
    Jesú, sem þér af hjarta ann.
    Orð þitt lát vera eins við mig:
    Elska ég, seg þú, líka þig.
    Eilíft það samtal okkar sé
    uppbyrjað hér á jörðunni.
    Amen, ég bið, svo skyldi ske.

  • Gjálífissvefninn – fjórði Passíusálmur

    Baráttan milli þess að halda vöku sinni og fljóta sofandi að feigðarósi er rauður þráður í 4. Passíusálmi. Baksviðið er samtal Jesú við lærisveinana sem fylgdu honum í grasagarðinn nóttina örlagaríku þegar Jesús var handtekinn. Lærisveinarnir komu til að styðja við meistara sinn og tóku m.a. að sér að vaka með honum og biðja. En svefninn náði yfirhöndinni og svo fór að enginn þeirra stóð vaktina með Jesú.

    Þessi saga verður Hallgrími að yrkisefni sem hann útleggur inn í samhengi baráttunnar sem á sér stað í mannssálinni milli þess sem göfgar og þess sem leiðir til glötunar. Svefninn verður tákn fyrir sinnuleysi gagnvart því mikilvæga í lífinu. Sinnuleysið tekur á sig ólík form eftir því hvar við erum stödd. Fyrst er það ungdómsbernskan sem rænir okkur gjörhyglinni en þegar aldurinn færist yfir er það gjálífissvefninn, gleymsku- og heimskusvefninn sem tælir frá því sem skiptir máli.

    Gegn hinni innbyggðu svefnsýki manneskjunnar teflir Hallgrímur bæninni sem áhrifaríku vopni í baráttunni við andlegan dauða. Þar er Jesús aftur fyrirmynd þeim trúuðu. Bænin er lykill að því sem gefur lífið og veitir styrk í lífsbaráttunni og á dauðastundinni sjálfri. Síðustu þrjú versinn í fjórða Passíusálminum eru þekkt, elskuð og mikið notuð, ekki bara á föstunni heldur árið um kring.

    Bænin má aldrei bresta þig.
    Búin er freisting ýmislig.
    Þá líf og sál er lúð og þjáð,
    lykill er hún að drottins náð.

    Andvana lík til einskis neytt
    er að sjón, heyrn og máli sneytt.
    Svo er án bænar sálin snauð,
    sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.

    Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér;
    vaka láttu mig eins í þér.
    Sálin vaki, þá sofnar líf,
    sé hún ætíð í þinni hlíf.

  • Gjálífissvefninn – fjórði Passíusálmur

    Baráttan milli þess að halda vöku sinni og fljóta sofandi að feigðarósi er rauður þráður í 4. Passíusálmi. Baksviðið er samtal Jesú við lærisveinana sem fylgdu honum í grasagarðinn nóttina örlagaríku þegar Jesús var handtekinn. Lærisveinarnir komu til að styðja við meistara sinn og tóku m.a. að sér að vaka með honum og biðja. En svefninn náði yfirhöndinni og svo fór að enginn þeirra stóð vaktina með Jesú.

    Þessi saga verður Hallgrími að yrkisefni sem hann útleggur inn í samhengi baráttunnar sem á sér stað í mannssálinni milli þess sem göfgar og þess sem leiðir til glötunar. Svefninn verður tákn fyrir sinnuleysi gagnvart því mikilvæga í lífinu. Sinnuleysið tekur á sig ólík form eftir því hvar við erum stödd. Fyrst er það ungdómsbernskan sem rænir okkur gjörhyglinni en þegar aldurinn færist yfir er það gjálífissvefninn, gleymsku- og heimskusvefninn sem tælir frá því sem skiptir máli.

    Gegn hinni innbyggðu svefnsýki manneskjunnar teflir Hallgrímur bæninni sem áhrifaríku vopni í baráttunni við andlegan dauða. Þar er Jesús aftur fyrirmynd þeim trúuðu. Bænin er lykill að því sem gefur lífið og veitir styrk í lífsbaráttunni og á dauðastundinni sjálfri. Síðustu þrjú versinn í fjórða Passíusálminum eru þekkt, elskuð og mikið notuð, ekki bara á föstunni heldur árið um kring.

    Bænin má aldrei bresta þig.
    Búin er freisting ýmislig.
    Þá líf og sál er lúð og þjáð,
    lykill er hún að drottins náð.

    Andvana lík til einskis neytt
    er að sjón, heyrn og máli sneytt.
    Svo er án bænar sálin snauð,
    sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.

    Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér;
    vaka láttu mig eins í þér.
    Sálin vaki, þá sofnar líf,
    sé hún ætíð í þinni hlíf.

  • Jesú blóð – þriðji Passíusálmur

    Það er mikið blóð í Passíusálmunum og það hefur einn tilgang. Blóð Jesú sem er úthellt til að greiða syndaskuld fyrstu manneskjunnar. Hallgrímur gerir sér mikinn og góðan mat úr þessu líkingamáli, og í anda dulhyggjunnar lætur hann blóðrásir sínar og guðdómsins renna saman þegar hann tínir blóðdropa Jesú saman og setur þá í sjóð síns eigin hjarta.

    Jesú blóð hefur mögnuð kosmísk áhrif, því það frelsar ekki bara manneskjuna heldur alla sköpunina, jörðina og allt sem vex á henni. Þetta er falleg hugsun og jarðarmiðlæg – dregur fram sýnina á að allt á jörðinni heyrir saman og að manneskjan er háð gjöfum jarðarinnar sér til framfærslu.

    Í Adams broti var blóðskuld gjörð.
    Bölvun leiddi það yfir jörð.
    Jesú blóð hér til jarðar hné,
    jörðin aftur svo blessuð sé,
    ávöxtur, gróði og aldin klár
    oss verði að notkun sérhvert ár. (3. Passíusálmur vers 10)

  • Huggun er manni mönnum að – annar Passíusálmur

    Hallgrímur vissi hið fornkveðna að það er ekki gott að vera einn þegar erfiðleikar steðja að. Í trúarlegu samhengi eru erfiðleikar í formi freistinga – t.d. að missa sjónar af fordæmi Krists sem gengur möglunarlaust inn í þjáningu og dauða. Þegar slíkar freistingar láta á sér kræla, er selskapur guðhræddra það sem Hallgrímur mælir með.

    Í samtímanum þekkjum við þessa hugsun vel í tólfspora vinnu eins og AA samtökunum. Þegar þú þarft á því að halda, eru félagar alltaf til staðar til að hlusta og veita nærveru. Þegar áföll dynja yfir og erfiðleikar í lífinu er nærvera og stuðningur annarra stórkostlegur verndarþáttur og geta hreinlega bjargað lífi.

    Freisting þung ef þig fellur á,
    forðastu einn að vera þá.
    Guðhræddra selskap girnstu mest,
    gefa þeir jafnan ráðin best.
    Huggun er manni mönnum að.
    Miskunn guðs hefur svo tilskikkað. (2. Passíusálmur vers 10)

  • Dásamleg eru dæmin þín – fyrsti passíusálmur

    Passíusálmarnir innihalda ekki síst íhugun hins trúaða yfir guðlegum leyndardómum. Í dulúðarhefðinni kristnu sjáum við hvernig sálin leitar og þráir einingu við guðdóminn. Þetta er mjög sterkt þema hjá Hallgrími. Hann hefur upp sín innri augu og mænir á Jesú. Þar finnur ekki síst fyrirmynd og kennara sem gengur á undan með fordæmi fyrir hina kristnu sál.

    Fyrirmynd og samstaða Jesú með Hallgrími – og þeim sem gerir bænir Passíusálmanna að sínum – felst ekki síst í þjáningunni sem Jesús gengur í gegnum hinn örlagaríka sólarhring sem hefst í grasagarðinum og endar á Golgata. Þjáningin gegnir risahlutverki í trúarlífi Hallgríms – við getum vel skilið það ef við höfum í huga það sem hann gekk í gegnum sjálfur, barnsmissi og erfiðan sjúkdóm.

    Í heimi Passíusálmanna er Jesús fyrirmynd þeirra sem þjást vegna þess að hann gengur í gegnum atburðarrásina með réttu hugarfari. Hlýðinn og undirgefinn vilja Guðs. Í hugmyndafræði sem útskýrir hið illa og erfiða með því að það sé vilji Guðs, er mikilvægt fordæmi fólgið í framgöngu og hugarfari Jesú sem tekur á móti örlögunum með æðruleysi og hlýðni.

    Horfi ég nú í huga mér,
    herra minn Jesú, eftir þér.
    Dásamleg eru dæmin þín.
    Dreg ég þau gjarnan heim til mín. (1. Passíusálmur vers 17)