Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 4: Í hvaða röð eru aðventukertin?

    Hvað heita kertin á aðventukransinum er spurning sem kemur oft upp á aðventunni. Þegar við rifjum það upp er gott að hafa í huga að kertin koma fyrir í tímaröð. Þannig vísa þau til sögunnar.

    1. Spádómskertið er fyrst, það vísar til spádómanna um fæðingu Jesú (t.d. Jes 9.5).
    2. Betlehemskertið er annað, það  sem vísar til staðarins þar sem Jesús fæddist (sbr. Lúk 2.4).
    3. Hirðakertið er þriðja, það vísar til hirðanna í haganum (sbr. Lúk 2.8).
    4. Englakertið er fjórða,  sem vísar til englanna sem sungu fyrir hirðana (sbr. Lúk 2.9-14).

    Þannig munið þið þetta.

    #ósíuðaðventa

    Myndin hér að ofan sýnir aðventukrans þar sem kveikt hefur verið á Spádómskertinu. Myndina tók Micha L. Rieser.

  • Ósíuð aðventa 3: Alþjóðlegur dagur fatlaðra

    Í dag er Alþjóðlegur dagur fatlaðra sem er haldið upp á þriðja desember. Í tilefni dagsins langar okkur að deila með ykkur pistli Ívu Marínar Adrichem sem skrifar um trú sem byggir upp og trú sem mismunar. Hún leggur út af sögunni um Jesús og blinda manninn:

    Þegar talað er um að blindur maður sjái vegna kraftaverks Jesús, tel ég að verið sé að meina orðið sjón í táknrænni merkingu. Í mínum huga gæti Jesús hafa gefið aðra sjón en veraldlega sjón. Ég myndi frekar halda að hann hafi hjálpað fötluðu fólki að finna tilgang með lífi sínu og opnað augu þess fyrir hinu fagra lífi sem hægt væri að lifa.

    Mér finnst alveg fráleitt og hreinlega lýsa barnaskap að fólk skuli túlka þessar dæmisögur svona bókstaflega og vísa svo í þær í daglegu lífi. Þau trúarrit sem bókstafstrúarfólk lifir eftir og þröngva upp á samferðarfólk sitt, voru barn síns tíma en hugsunarháttur breytist í tímanna rás og skoðanir samfélagsins með því.

    Við tökum að sjálfsögðu undir með Ívu Marínu um að fatlaðir eiga fagurt líf eins og þau einmitt eru og eina alvöru blindan sem þjakar fólk er að sjá ekki gæði margbreytileikans og mikilvægi framlags okkar allra hvernig svo sem við erum. Notum aðventuna til að skerpa sjónina okkar á tilfinningar, skynjun, fegurð, trú og von fyrir alla.

    #ósíuðaðventa

    Myndin hér að ofan sýnir Brotna stólinn sem er viðarskúlptúr sem stendur við Palais de Nations í Genf. Myndina tók Pierre Albouy fyrir UN Geneva

  • Ósíuð aðventa 2: Þæfingur

    Það er þæfingsfærð í höfuðborginni og víða um land. Snjónum hefur kyngt niður og þótt snjómokstri sé vel háttað verða til snjógarðar sem þrengja göturnar. Það er líka hált. Þetta hægir á allri umferðinni og stundum komumst við aðeins löturhægt – hvort sem ferðast er á bíl, strætó, hjóli eða fótgangandi.

    Við getum hvorki stjórnað umferðinni né færðinni, aðeins okkur sjálfum og eigin fararmóta. Við getum líka haft stjórn á því hvernig við mætum aðstæðunum. Hvernig við mætum biðinni þegar við erum því sem næst veðurteppt og komumst ekki úr stað.

    Aðventan og biðin heyra saman.
    Við bíðum á aðventunni.
    Mikið.

    Dygð aðventunnar er að bíða ekki í óþolinmæði heldur eftirvæntingu og von. Leyfa okkur að hvíla í aðstæðunum hverju sinni og upplifa gæðin sem felast í þeim. Það gildir líka um þæfinginn, aðstæðurnar sem eru óvæntar og koma illa við okkur.

    Gangi þér vel að bíða.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 1: Dagatalið

    Aðventan er magnaður tími. Hún lýkur upp mörgum stefjum sem kristin trúarhefð leggur okkur á hjarta í aðdraganda jólanna. Eitt af þessum stefjum aðventunnar er vonin sem í kristinni trúar er ætluð öllum en ekki fáum útvöldum. Boðskapur aðventu og jóla um frið á jörðu og velþóknun Guðs gengur út á þetta og beinist sérstaklega að þeim sem eru jaðarsett. Þau eru sérstakur farvegur vonarinnar sem ætluð er öllu mannkyninu.

    Okkur langar að lyfta aðventunni upp sem innleggi í samtalið um manneskjur, merkingu og mátt í aðdraganda jólanna. Á hverjum degi fram að jólum ætlum við að setja fingurinn á eitthvert stef eða viðburð sem dregur fram skilaboð kristinnar trúar inn í aðstæður og reynslu manneskjunnar hér og nú.

    Aðventubloggið okkar heitir #ósíuð aðventa vegna þess að í textum og boðskap Biblíunnar er svo mikið raunsæi og nánd. Okkur hættir stundum til að missa sjónar af því í kapphlaupi samtímans.

    Takk fyrir að eiga #ósíaða aðventu með okkur.

    Færslurnar

    [display-posts category=”osiud-adventa” posts_per_page=”24″ include_date=”true” date_format=”j. F, Y”]

    #ósíuðaðventa