Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Látið óma gleðisöng

    Jóladagatal Lútherska heimssambandsins eru tuttugu og fjórir aðventu- og jólasálmar. Sá fyrsti er áminning um kirkjur sem tengjast þvert yfir landsvæði. Hann kemur nefnilega frá St Pétursborg en er sunginn á finnsku.

    Textinn er á þessa leið:

    Látið óma gleðisöng,
    þakkarsöng,
    því dyr heimilisins himneska eru standa opnar.

    Emmanúel er hér,
    það sagði Gabríel,
    því spáði Daníel.

    Látið óma þakkargjörð
    til frelsarans sem kom á jörð.
    sem okkur verndar, gleðjumst yfir því


  • Ósíuð aðventa 24: Það eru komin jól

    Í dag langar okkur að deila með ykkur þessari gömlu góðu jólakveðju.

    Þrátt fyrir allt umstang, kaup, neyslu og stress, þá eru jólin trúarhátíð því þau snúast um þrá manneskjunnar eftir hinu heilaga, því sem er óvænt, öðruvísi og umbreytir stað og stund. Þráin eftir hinu heilaga býr djúpt í sál og huga og úr því djúpi spretta myndir jólasögunnar og jólaguðspjallsins, sem skapa hina heilögu stund.

    Guð gefi ykkur öllum gleðileg, farsæl og friðsæl jól. Takk fyrir samfylgdina á aðventunni.

    Ps. Horfið til enda.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 23: Skatan

    Dagur skötunnar og fyrsti í fjölskylduboðum er runninn upp. Við höfum það fyrir sið að bjóða fjölskyldunni í skötu á Þorláksmessu og eigum saman dásamlega stund sem færir okkur nær jólahátíðinni.

    Hér á bæ er boðið upp á vel kæsta skötu, tindabykkju, soðnar kartöflur, hamsa og tólg, hnausþykkt rúgbrauð, rófur og dásamlegt rauðkálssalat. Svo er sungið um Þorlák biskup, skrafað og skipst á góðum sögum.

    Í biskupasögum Jóns Helgasonar segir um Þorlák að

    „Hann var svo var í sínum orðum að hann lastaði aldrei veður, sem margir gera. Hann kveið engu mjög nema Alþingi og imbrudögum, af því Alþingi að honum þótti margur maður þar verða villur vegar, en imbrudögum, að honum þótti það ábyrgðarráð mikið að vígja menn er til þess sóttu langan veg, og hann sá þá mjög vanfæra til. Hann söng hvern dag messu, bæði sér til hjálpar og öðrum og minntist í sífellu píningar guðssonar. Hann fastaði þá er hann var heima, vakti löngum um nætur og baðst fyrir. Hann var drykksæll svo ekki þraut drykki þá er hann blessaði í veislum. Hann lét kalla saman fátæka menn fyrir hinar hæstu hátíðir 12 eða 9 eða 7 og kom til leynilega að þvo fætur þeirra og þerrði síðan með hári sínu og gaf hverjum þeirra nokkra góða ölmusu áður á brott færi.“

    Hér er á ferðinni sannur dýrlingur – enda þarf heilagan mann til að lasta aldrei veður á Íslandi!

    Við vitum fátt betra en svona fjölskylduboð þótt ýmsar skoðanir séu á skötulyktinni. Við sjóðum hangikjöt á eftir.

    Aðventan er tími fjölskyldu og vina og í dag óskum við þess að þú megir eiga góðar stundir með þeim sem skipta þig mestu máli.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 21: Himneskt og jarðneskt

    Saga jólanna teflir saman því himneska og jarðneska. Í fegurð sinni og sannleika afhjúpar hún hvað heimurinn okkar getur verið á skjön við það fagra og sanna.

    Saga jólanna afhjúpar líka hvað oft er farið illa með fólk og hvað hin fátæku og valdalausu eru í sífellu kúguð og þeim haldið niðri. Hún afhjúpar hvað hervaldið er yfirþyrmandi í samhengi mannsævinnar.

    Ætli það sé ekki líka satt það ekki satt enn í dag?

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 20: Sagt til syndanna

    Jólasagan er aldrei sögð án þess að minna okkur á að barnið sem fæðist í Betlehem er sá sem gekk inn í aðstæður hinna fátæku og sjúku, þeirra sem samtíminn lítur á sem smælingja. Þau sem hafa orðið undir í gildismati umhverfisins. Þar er Jesús. Þess vegna syngur María móðir í lofsöngnum sem kenndur er við hana

    „…drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja.“

    Þetta er örugglega ástæðan fyrir því að á fjórða sunnudegi í aðventu íhugum við söguna um Jóhannes skírara – spámanninn og frænda Jesú sem stóð við ána Jórdan og þrumaði yfir lýðnum, sagði þeim bókstaflega til syndanna og brýndi fyrir þeim tengsl trúar og breytni.

    Ef þú átt tvo kyrtla gefðu þá annan þeim sem engan á! Ekki rukka of mikið ef þér er trúað fyrir því að innheimta gjöld, ekki trampa á náunga þínum og halda því fram að þú sért góð manneskja af því þú trúir á Guð!

    Eftir fjóra daga göngum við inn í jólin, helgi þeirra, frið og birtu. Við gerum það eftir að hafa hlustað á Jóhannes segja okkur til syndanna og íhugað að barnið í jötunni sem við fögnum með öllum ljósunum og öllum gjöfunum og allri gleðinni, mætir okkur fyrst og fremst í náunga okkar, þegar hann þarf á okkur að halda.

  • Ósíuð aðventa 19: Jólasaga fólks á flótta

    „Í Biblíunni lesum við hvernig við eigum að biðja, í dagblöðunum lesum við um að sem við ættum að biðja fyrir,“ sagði guðfræðingurinn Karl Barth á sínum tíma. Marcel Kuß og Ralf Peter Reimann tóku hann á orðinu þegar þeir settu upp vefinn Christmasstory.world. Þar er jólasögunni úr Biblíunni og stuttum myndbrotum sem sýna fólk á flótta teflt saman í stuttum myndböndum. Þannig verður sagan af Maríu, Jósef og Jesú áþreifanleg sem samtímasaga. Í dag langar okkur að deila með ykkur enska myndbandinu.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 18: Helgileikurinn

    Í gær fengu foreldrar barna í grunnskólanum okkar að njóta uppsetningar þeirra á árlegum helgileik. Þar gat að líta syngjandi englakór, vitringa, hirða, Jósef, Maríu og Jesúbarnið ásamt nokkrum englum og sögukonu. Þetta var tilkomumikið, fallegt og hátíðlegt.

    Helgileikurinn hefur verið settur upp í skólanum í áratugi. Handritið breytist ekki, sagan er sú sama og lögin sem eru sungin, en nýtt listafólk bætist í hópinn á hverju ári. Skólinn er vettvangur þeirra til að rækta hæfileika sína og leyfa öðrum að njóta þeirra.

    Hefðir skipta máli. Helgileikurinn í skólanum gott dæmi um hefð sem hefur lifað gegnum árin, skapað samkennd og tilfinningu fyrir því að við séum hluti af einhverju stærra.

    Það er líka boðskapur aðventunnar.

    #ósíuðaðventa

     

  • Ósíuð aðventa 17: Jólaskraut í glugga

    Það er gaman að ganga um miðbæinn í Reykjavík á aðventunni, einkum árla dags eða þegar skyggja tekur. Þá er hægt að njóta skapandi skreytinga fólksins sem starfar í verslunum í bænum. Fallegar skreytingar veita innblástur og geta glatt hugann, rétt eins og uppáhalds jólalög og sálmar gera. Við þurfum bara að opna augun og njóta.

    Það er sérstaklega gaman að sjá jólaskraut sem er unnið úr gömlu og notuðu efni, eða efni sem hægt er að nýta aftur í öðrum tilgangi. Meira að segja gamlar hjólagjörðir og alls kyns hró fá á sig jólablæ með grænum greinum og ljósaseríum.

    Það er áskorun á þessari aðventu að styðja frekar við sjálfbærni og endurnýtingu heldur en aukinn innflutning á fjöldaframleiddu dóti sem er flogið yfir hálfan hnöttinn og endar strax í ruslinu. Hvað finnst þér?

    #ósíuðaðventa

     

  • Ósíuð aðventa 16: Bernskusögurnar snúa aftur

    Laust eftir miðnætti verður nýja Stjörnustríðskvikmyndin frumsýnd hér á landi. Forsala hefur gengið vel og fjöldi fólks á öllum aldri mun sjá myndina á morgun. Sagan af Loga geimgengli og fjölskyldu hans er stórsaga, goðsögn sem hreyfir við mörgum.

    Þetta er saga af baráttu góðs og ills sem er þó ekki svarthvít heldur full af litbrigðum. Áhorfandinn getur samsamað sig við persónur og íhugað hvernig væri að vera í sporum hetjanna, standa frammi fyrir freistingum og erfiðum ákvörðunum.

    Þannig má segja að Stjörnustríðssögurnar séu líkar sögunum af Jesú. Þær eru líka stórsögur sem fjalla um stóru spurningarnar í lífinu. Við óskum öllum sem ganga í barndóm í nótt góðrar skemmtunar og viljum líka deila með ykkur útfærslu munkanna í Unvirtuous Abbey á Stjörnustríðs-aðventukertunum fjórum.

  • Ósíuð aðventa 15: Þeir skilja sem vilja

    Í morgun hlustuðum við á veðurfræðinginn Martin Hensch í útvarpinu. Hann er frá Þýskalandi, hefur búið hér á landi frá 2009 og starfað á Veðurstofunni frá 2012. Stundum les Martin veðurfregnir í útvarpinu, hann gerir það á góðri íslensku en talar með hreim.

    Sumir hafa gagnrýnt hann fyrir það. Við erum ósammála og erum þvert á móti þakklát fyrir að heyra röddina hans Martin á morgnana. Það minnir okkur á að við erum hluti af stærra samfélagi og að á Íslandi er alls konar fólk. Það gerir okkur líka þakklát því á öld fjölmenningarinnar er ekki sjálfgefið að allir sem setjast hér að læri íslensku.

    Við hugsum líka til hirðanna og vitringanna sem sem sóttu fjölskylduna í Betlehem heim og töluðu líklega með hreim eða allt annað tungumál en Jósef og María. En þeir voru velkomnir og við vonum að veðurfræðingurinn Martin finni sig líka velkominn .

    Svo tökum við undir með honum. Þeir skilja sem vilja.

    #ósíuðaðventa