Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 3: Tiltekt

    Hver einasti dagur ber með sér skyldur og verkefni sem þarf að vinna til að uppfylla kröfur sem við sjálf og aðrir gera til okkar. Orkan fer í að viðhalda sér og viðhalda þessum kröfum og tíminn í að borða, drekka, kaupa, borga, tékka á facebook, svara tölvupóstum. Í þessu daglega áreiti er auðvelt að týnast og missa sjónar af því hvað okkur langar að vera og til hvers lífið er.

    Aðventan er tækifæri til að núllstilla og taka til (ekki bara í eldhússkápum og geymslum, til að búa til meira pláss fyrir það sem er keypt fyrir jólin heldur líka) í daglegum venjum og rútínum. Aðventan er tækifæri til að uppgötva NÚIÐ og hvernig það getur verið þessi litla sprunga sem hleyptir ljósinu í gegnum veggina sem við byggjum kringum okkur.

    Aðventan getur hvatt okkur til að taka tíma til að staldra við og íhuga hvað í lífinu okkar og umhverfi styrkir og nærir, og hvað tætir og þreytir. Getur verið að þéttpökkuð dagskrá í vinnu, félagslífi, líkamsrækt og tómstundum, sé það sem stjórni lífi okkar en ekki það sem okkur finnst skipta mestu máli þegar allt kemur til alls? Leynist innra með okkur þrá og ósk um að verða eitthvað annað og meira en það sem dagskráin okkar skilgreinir og forgangsraðar?

    Aðventan er líka tækifæri fyrir okkur sem eigum börn að tala um hvernig við forgangsröðum og notum tímann okkar. Getur verið að í dögunum okkar sem við eigum saman, leynist tækifæri til að leggja til hliðar síma, spjöld og tölvur, og njóta þess að vera bara saman?

    Myndin að ofan sýnir gamalt jólaskraut sem við sáum á jólamarkaði í Berlín.

  • Ósíuð aðventa 2: Plógjárn úr sverðum

    Fyrir framan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York er stór og mikil stytta af nöktum vöðvastæltum karlmanni. Hann mundar sleggju, lætur höggin dynja á sverði úr járni og er greinilega að móta það í eitthvað annað.

    Þetta er styttan Breytum sverðum í plóga eftir sovéska myndhöggvarann Yevgeny Viktorovich Vuchetich (1908-1974). Vísunin er beint í texta úr Biblíunni, í bók Jesaja spámanns (2.4) þar sem segir:

    Og hann mun dæma meðal lýðanna
    og skera úr málum margra þjóða.
    Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum
    og sniðla úr spjótum sínum.
    Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð
    og ekki skulu þær temja sér hernað framar.

    Þessi texti er alltaf lesinn á aðventunni og stendur fyrir hugsjónina um róttækan frið þar sem vopnum og stríðsrekstri er snúið til þess sem gagnast farsælum samfélögum, ræktun landsins og matarframleiðslu. Jesaja textinn undirbýr okkur fyrir jólin, hátíð ljóss og friðar, með því að setja í orð vonina um heim þar sem vopnin eru kvödd, og hugvit og orka þjóðanna fari í að sjá fólkinu sínu farborða í staðinn fyrir að berjast um lönd og auðlindir með hörmulegum afleiðingum.

    Það sem er áhugavert við sovésku styttuna er að þarna notar listamaður sem kemur úr yfirlýstu guðlausu umhverfi minni úr ritningu kristinna og gyðinga, til að tjá sammannlega þrá og ósk eftir því góða og göfuga. Styttan er því sterk minning um áhrif Biblíunnar í menningu og listum. Hér vísar hún kannski beint í aðgerðir sem miða að vopnaeyðingu og útrýmingu ógnarvopna 20. aldarinnar, kjarnorkuvopnanna.http://arniogkristin.is/wp-admin/post.php?post=5738&action=edit#category-add

    Megi stælti, berrassaði maðurinn með sleggjuna blása okkur í brjóst vilja og hugrekki til að vinna að friði og framþróun í heiminum okkar allra á þessari aðventu.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 1: Hvar er skrautið?

    Við þekkjum öll klisjuna um að í fjarlægðinni áttum við okkur betur á því hvernig lífið heima við birtist. Við upplifum það svolítið hérna í Genf þar sem við höfum búið frá því í sumar. Núna, þegar aðventan gengur í garð, erum við nefnilega alveg gáttuð yfir því hvað er lítið um það sem einkennir aðventuna heima á Íslandi – nefnilega ljós í hverjum glugga og skraut á skraut ofan.

    Kannski er þetta sem ætti ekki að koma neinum á óvart sem þekkir til sögu Genfar, hér var náttúrulega höfuðvígi kalvínismans (sem er kenndur við franska siðbótarfrömuðinn Kalvín sem hér starfaði um langa hríð og mótaði mjög stjórn og skipulag borgarinnar) þar sem menn voru nú ekki að missa sig í prjáli og hégóma. Þótt Genf sé með sekúleraðri borgum heims í dag, þá lifir menningar-kalvínisminn og borgin hefur almennt það orð á sér að vera hófstillt í skrauti og gleðskap.

    Þessi munur liggur kannski í því hvernig við finnum þörf á að bregðast við dimmasta tíma ársins á norðurslóðum annars vegar og hins vegar í mið- Evrópu – þar sem naumast er hægt að tala um skammdegi eða vetrarveður á þessum árstíma. Hér eru trén ennþá laufguð og blómin lifa góðu lífi á svölum og í reitum. Þau sem hafa kynnst aðventunni á Norðurlöndum vita að hún er meiriháttar mál og fólk almennt gerir sér far um að marka hana á einhvern hátt í rými hins persónulega og samfélagsins, alveg burtséð frá trúarlegum tengingum og rótum.

    Hvað sem því líður þá ætlum við ekki að láta okkar eftir liggja í litlu blokkaríbúðinni okkar. Við erum búin að hengja upp stóru ljósstjörnuna sem hefur farið upp öll okkar sameiginlegu jól og sendum með ljósi hennar bestu óskir um frið og sátt á þessari aðventu.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 2016

    Í fyrra stungum við hjón niður penna og blogguðum á aðventunni. Við gáfum aðventublogginu heitið Ósíuð aðventa af því að við vildum tala mannamál á aðventunni en forðast himnesku:

    Okkur langar að lyfta aðventunni upp sem innleggi í samtalið um manneskjur, merkingu og mátt í aðdraganda jólanna. Á hverjum degi fram að jólum ætlum við að setja fingurinn á eitthvert stef eða viðburð sem dregur fram skilaboð kristinnar trúar inn í aðstæður og reynslu manneskjunnar hér og nú.

    Við vorum þakklát fyrir viðtökurnar. Margir fylgdust með, höfðu samband og deildu. Aðventan er tími hefðanna og nú ætlum við að halda áfram –  blogga okkur í gegnum aðra ósíaða aðventu. Tíminn er samur og við erum líklega að mestu leyti söm en aðstæðurnar eru reyndar. Nú bloggum við frá Genf í Sviss þar sem við erum búsett. Ósíaða aðventan verður því með alþjóðlegu sniði þetta árið.

    Takk fyrir að fylgjast með.

    Færslurnar

    [display-posts category=”osiud-adventa-2016″ posts_per_page=”30″ include_date=”true” date_format=”j. F, Y”]

    #ósíuðaðventa