Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ha, bloggandi kirkja?

    Bloggið er komið aftur. Kannski fór það aldrei heldur fékk bara minni athygli með tilkomu samfélagsmiðlanna. Við hjónin höfum bloggað um árabil og hér á þessum vef í rúm fjögur ár. Við höfum reyndar slegið svolítið í klárinn á þessum vef. Það er svo gaman að blogga.

    Við ætlum líka að prófa svolitla nýsköpun í bloggi. Í vikunni opnuðum við nýjan vef fyrir Laugarneskirkju. Hann er frábrugðinn þeim fyrri, þjónustan í kirkjunni er sett í fókus, myndir eru notaðar til að miðla kirkjustarfinu og svo þarna blogg. Hugmyndin er semsagt sú að Laugarneskirkja verði bloggandi kirkja.

    Nýi vefurinn er á laugarneskirkja.is. Það væri gaman að fá þig í heimsókn, á vefinn og í kirkjuna.

  • Samskiptabyltingin og kirkjan

    Eftir hádegi í dag hitti ég nemendur við guðfræðideild HÍ til að ræða um miðlun og guðfræði. Nánar tiltekið ætla ég að ræða um notkun nýju miðlana í kirkjustarfi. Ég mun meðal annars koma inn á það sem ég ræddi í erindinu Á nöfinni síðasta haust. Það er tilvalið að horfa á það til upprifjunar og undirbúnings.

  • Spjaldtölvan og barnamessan

    Using the iPad in the Sunday School

    Fyrir síðustu jól kom út dvd diskurinn Daginn í dag. Hann naut mikilla vinsælda og færði sunnudagaskólann inn í stofurnar um allt land. Í sumar tók Daginn í dag-gengið sig til og bjó til stutta þætti sem verða sýndir í barnamessum í vetur. Við ákváðum að gera svolitla tilraun í Brautarholtskirkju og nota iPad spjaldtölvu til að sýna þættina.

    Brautarholtskirkja er lítil sveitakirkja sem heldur vel um söfnuðinn. Krakkarnir komu sér fyrir fremst í kirkjunni og horfðu andaktug á Hafdísi og Klemma sprella og boða. Það er gaman að geta boðið upp á þetta efni og við hlökkum líka til að prófa okkur áfram með tæknina.

    Einn af lyklunum við vel heppnað helgihald er að lánast að nýta rýmið sem er til staðar hverju sinni. Það sem passar vel í stórum nútímakirkjum hentar kannski ekki eins vel þar sem kirkjuhúsið og búnaður er allur annar.

    Það er okkar mat að spjaldtölvan henti vel í litlu sveitakirkjunni þar sem ekki eru græjur eins og sýningartjald og skjávarpi. Hún styður við sterku hliðarnar á helgihaldi í sveitakirkjunni – sem er nándin, látleysið og einfaldleikinn.

  • Kirkjan og samskiptabyltingin

    Ég flutti erindi á málfundi Framtíðarhóps kirkjuþings um daginn. Upptaka með myndum er komin á vefinn.

    Í erindinu varpaði ég meðal annars fram þremur tesum sem væri gaman að ræða frekar:

    1. Söfnuðurinn er grunneining kirkjunnar á netinu.
    2. Heimilis- og nýkirkjuguðrækni einkennir trúarlíf á netinu.
    3. Leikir og lærðir tala við sama borð á netinu.

    Hvað segið þið?

  • Enska kirkjan tístir

    The Twurch of England er nýr vefur um hina tístandi kirkju í Bretlandi. Þarna er líka bloggað um kirkju og samskipti.