Þessa dagana er heilmikið rætt um sóknargjöld. Í því samhengi má halda til haga yfirliti Sigríðar Guðmarsdóttur yfir sögu sóknargjaldanna frá 1096 til 1987. Þetta er gott yfirlit sem varpar ljósi á þennan tekjustofn trú- og lífsskoðanafélaga á Íslandi.
Blogg
Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.
-
Þess vegna er ég lúthersk
Hér talar Nadia Bolz-Weber, prestur í Lúthersku kirkjunni í Bandaríkjunum (ELCA). Hún er eiginlega ekkert annað en súperstjarna í sínu samhengi (og langt út fyrir það) og dregur fjölda fólks á viðburði þar sem hún talar um trúna sína og lífið.
Nadia er prestur við lútherska kirkju í Denver, Colorado, sem heitir House for All Sinners and Saints. Eins og nafnið gefur til kynna skilgreinir söfnuðurinn sig vítt og breitt og leggur mikið upp úr því að skapa rými og pláss fyrir alla, og fyrir alla reynslu allra sömuleiðis. Nadia gaf út minningabók sína Pastrix í fyrra og hefur farið víða til að kynna bókina og gert það á mjög lifandi hátt.
Á þessu stutta myndskeiði dregur Nadia saman í stuttu máli kjarnann í því sem við getum kallað lútherska kenningu. Hún gerir það á sinn hátt en er mjög kjarnyrt og klassísk.
Inntakið er þetta:
- Náð Guðs er gjöf sem við þiggjum án þess að bera neinn kostnað af. Náðin er ekki eitthvað sem við vinnum okkur fyrir heldur erum við hreinir þiggjendur.
- Það er ekki um að ræða andlegan stiga sem við klifrum til að verða betri og betri útgáfa af okkur sjálfum.
- Það er Guð sem kemur til okkar og endurnýjar okkur, aftur og aftur – það er það sem er kallað dauði og upprisa.
- Samband manneskjunnar við Guð er þannig háttað að það er alltaf Guð sem kemur til hennar, ekki öfugt.
- Manneskjan sem á sama tíma og samhliða syndug og réttlætt, alltaf og algjörlega. Það þýðir að ég hef gríðarlega getu til að rífa niður sjálfa mig og aðra en líka gríðarlega getu til að sýna ástúð.
- Þessi atriði gera það að verkum að ég er lúthersk – hér fann ég orðin yfir það sem ég hef reynslu af úr mínu eigin lífi og veit að eru sannir.
Það er hressandi að hlýða á hvað Nadia Bolz-Weber hefur að segja – njótið!
-
Það vantaði sex atkvæði
Í síðustu viku fór fram atkvæðagreiðsla á kirkjuþingi ensku kirkjunnar hvort prestsvígðar konur mættu taka biskupsvígslu eða ekki. Sex atkvæði vantaði upp á að málið væri samþykkt. Núverandi erkibiskup af Kantaraborg og sá sem tekur við honum eftir áramót hvöttu báðir til þess að þingið segði já við þessari spurningu og meirihlutinn gerði það.
Nánar tiltekið sögðu 94% biskupa, 77% presta og 64% leikmanna já við biskupsvígðum konum. En það var kosið eftir deildum og í hverri deild þurftu 2/3 hlutar að segja já. Það vantaði 2% upp á leikmennina, alls sex atkvæði.
Það er því ekki rétt sem Egill Helgason skrifaði í bloggfærslu á dögunum að „meirihluti þingmeðlima reyndist hafa íhaldssamari skoðanir [en erkibiskupinn af Kantaraborg].“ Það er meirihluti fyrir málinu á kirkjuþinginu og í kirkjunni líka. Hann dugði bara ekki til miðað við leikreglurnar. Nick Baines, biskup í Bradford, orðar þetta svona:
The point is basically this: the Church of England has not rejected women bishops – the House of Laity of the General Synod has. The Church of England has massively and overwhelmingly approved not only the principle, but the process. The only question now is how to find the right wording to make law that makes this a reality.
Það verður spennandi að fylgjast með framvindu málsins og vonandi styttist í að fyrsta konan verði vígð til biskupsþjónustu í ensku kirkjunni.
-
Það sem kirkjan getur lært af leikskólanum
Árni situr í foreldraráði leikskóla Elísabetar og Tómasar Viktors. Í dag var haldinn fundur í foreldraráðinu til að skipuleggja starfið sem er framundan. Eitt málið á dagskrá fundarins var mat á starfsáætlun leikskólans fyrir veturinn sem er að líða.
Leikskólastjórinn lagði verkefnið upp svona: Þið skoðið starfsáætlunina sem er á vef leikskólans og svo leggið þið mat á þetta, hvað tókst vel og hvað tókst ekki jafn vel, við hvað höfum við staðið og hvað ekki. Svo bætti hún við: „Það er nefnilega svo auðvelt að gefa loforð á blaði áður en vetrarstarfið hefst.“
Þessi fyrirmyndarvinnubrögð fengu okkur til að hugsa um hliðstæðuna við kirkjustarfið. Hver er staðan í kirkjunni þegar kemur að því að gera áætlanir og meta hvernig að var staðið? Hvar leggjum við fram svona starfsáætlanir? Hvenær er farið yfir þær og hver sér um það?
Við vildum gjarnan sjá svona vinnubrögð í kirkjunni. Starfsfólk safnaðarins gæti sest niður með prestinum og lagt línurnar í æskulýðsstarfinu, barnastarfinu, fermingarfræðslunni, biblíulestrunum, 12 spora kerfinu, eldri borgara starfinu o.s.fr. fyrir veturinn og fengið svo fólkið í sóknarnefndinni – fulltrúa þeirra sem þiggja þjónustuna – til að fara yfir og meta.
Hér er óneitanlega tækifæri til að gera starfið í söfnuðunum okkar skilvirkara og lýðræðislegra. Útfærslurnar eru óendanlega margar en mestu máli skiptir að finna leiðir til að þjóna fagnaðarerindinu með þvi að vera ljós og salt í heiminum.
-
Gleðidagur 35: Barbara og vatnið
Barbara Rossing er prófessor við Lutheran School of Theology í Chicago. Við þekkjum hana af vettvangi Lútherska heimssambandsins. Í dag leiddi hún Biblíulestur á vefráðstefnu Lh um umhverfismál og réttlæti. Hún ræddi um vatnið í Biblíunni.
Á þrítugasta og fimmta gleðidegi viljum við þakka fyrir vatnið og fyrir lífið.
-
Samviskufrelsið krufið
Davíð Þór bloggar um samviskufrelsið. Ég velti fyrir mér hvort við þurfum ekki að greina á milli samviskufrelsis almennt og samviskufrelsis sem er getið um í greinargerðum, starfsreglum eða hefur verið rætt sérstaklega á prestastefnu og/eða kirkjuþingi. Er einhver munur á þessu tvennu?
-
Solveig Lára býður sig fram sem Hólabiskup
Nýr vígslubiskup á Hólum er þriðji biskupinn sem við veljum í þjóðkirkjunni á rúmlega tólf mánaða tímabili. Kjörskrá var lögð fram 1. apríl og fyrsti frambjóðandinn hefur stigið fram. Það er sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur á Möðruvöllum. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með og fjalla um þetta biskupskjör eins og hin tvö.
-
Mbl ræðir við Agnesi og Sigurð Árna
Morgunblaðið hefur tekið viðtöl við Agnesi og Sigurð Árna sem voru efst í fyrri umferð biskupskjörs. Agnes leggur áherslu á fólk fái jákvæða afstöðu gagnvart kirkjunni og að kirkjunnar fólk séu góðar fyrirmyndir:
„Mér finnst skipta miklu máli að fólk fái jákvæða afstöðu gagnvart kirkjunni og finni það að við þjónar hennar viljum af öllu hjarta vera góðir þjónar og koma boðskapnum áfram til fólksins. Kirkjunnar fólk á að vera góðar fyrirmyndir, og við megum ekki gleyma því þegar við tölum um kirkjuna að hún er til vegna trúarinnar.“
Sigurður Árni leggur áherslu á barna- og unglingastarf kirkjunnar, ábyrga nýtingu fjármuna og stuðning við starfsfólk kirkjunnar:
„Ég mun fjölskyldutengja starfið og beita mér fyrir að takmörkuðum fjármunum kirkjunnar verði varið til þess málaflokks. Tekjur kirkjunnar eru almennt mjög skertar í landinu og það þarf að nýta féð gríðarlega vel … Ég mun beita mér sérstaklega í þágu presta, djákna og ábyrgðarfólks í kirkjunni þannig að það fái þann stuðning sem það þarf í sínum störfum.“
Hvaða skilaboð felast í niðurstöðunni í gær að mati frambjóðendanna tveggja? Agnes segir: „Mér finnst þetta vera greinileg vísbending um það að fólk vill fá konu í þetta embætti.“ Sigurður Árni segir niðurstöðuna vera til marks um nútímahugsun í afstöðu kjörmanna: „Þetta er skýrt kall eftir breytingum og kirkjan á að svara því. Kirkjan verður að sækja inn í framtíðina.“
-
Samskiptabyltingin og kirkjan
Eftir hádegi í dag hitti ég nemendur við guðfræðideild HÍ til að ræða um miðlun og guðfræði. Nánar tiltekið ætla ég að ræða um notkun nýju miðlana í kirkjustarfi. Ég mun meðal annars koma inn á það sem ég ræddi í erindinu Á nöfinni síðasta haust. Það er tilvalið að horfa á það til upprifjunar og undirbúnings.
-
Kynningarfundur í Glerárkirkju – bloggað í beinni
Nú er að hefjast kynningarfundur biskupsefna í Glerárkirkju. Þetta er síðasti fundurinn sem er haldinn. Ég ætla að reyna að blogga fundinn í beinni.