Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ekki næs – Dyflinnarkerfið virðir ekki manneskjur

    eftir Kristínu Þórunni Tómasdóttur og Toshiki Toma.

    Hver myndi stíga um borð í bát með galla á botninum? Enginn. Eða léti annað fólk fara á sjóinn í honum? Hver myndi telja slíkt í lagi? Varla nokkur maður. Eða hvað?

    Því miður virðist þetta samt vera iðkað þegar kemur að málefnum hælisleitenda á Íslandi.

    Á föstudaginn sl. fengu tveir íranskir umsækjendur um alþjóðlega vernd, úrskurð um frávísun á grundvelli Dyflinnareglugerðar, en þeir eru búnir að vera hérlendis um eitt ár. Báðir sóttu fyrst um alþjóðlega vernd í Noregi. Annar eyddi þar átta árum, hinn sjö árum áður en þeir komu til Íslands. Í Noregi fengu þeir sömu niðurstöðu og átti að senda þá tilbaka til Írans.

    Norsk völdin senda flóttamenn til baka hvert sem er, og það er undrunarefni hvers vegna engin þjóð í Evrópu mótmælir þessu bersýnilega broti á alþjóðlegum flóttamannasamningum.

    Mennirnir tveir eru báðir kristnir og ef þeir verða sendir til Noregs og þaðan til Írans, er líf þeirra sannarlega í hættu. Annar þeirra greindi frá viðbrögðum norskra yfirvalda við þessum aðstæðum. Ráðið sem hann fékk var: ,,Ef þú talar ekki um trú þína, þá verður þú í fínu lagi“.

    Eins og margir hafa bent á, virðir Dyflinnarkerfið ekki mannslíf og er í raun ónýtt. Ástæðan er það ójafnvægi sem skapast vegna pólitískrar stefnu hvers ríkis sem á aðild að kerfinu og mismunandi fjölda flóttafólks í hverju landi.

    Það skýtur skökku við að einmitt núna þegar íslenskt þjóðfélag ræðir af einlægni um málefni flóttafólks í Evrópu og meirihluti þjóðarinnar ásamt löggjafanum tjáir vilja sinn að taka á móti auknum fjölda flóttafólks, skuli íslensk yfirvöld hafna umsækjendum um alþjóðlega vernd án þess að hirða um að skoða aðstæður þeirra.

    Hér er ekkert samræmi. Hér veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir. Við getum ekki kastað fólki burt um leið og við segjum vilja taka á móti fleirum. Allir fæðast með rétt til virðingar og sérhvert mannslíf er óendanlega dýrmætt.

    Við biðjum í einlægni yfirvöld í málefnum útlendinga að horfa á málin út frá þessum raunveruleika. Dyflinnarkerfið er gallaður bátur sem ekki er hægt að senda fólk með á haf út. Slíkt felur ekki í sér virðingu fyrir mannslífum og slíkt er alls ekki næs.

    Sem prestar og kristið fólk skorum við því á íslensk stjórnvöld á að hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni, og efla þannig mannvirðingu og sanngirni í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd.

    Birtist fyrst á Vísi.is 19. september.

  • Að skilja ríki og kirkju

    Það er liðin tíð á Íslandi að stjórnmál, vísindi og listir lúti kenningarvaldi eða sjónarmiðum kirkjunnar. Aðgreining hins opinbera frá trúarsetningum er óumdeilanlegt fyrirkomulag um vestrænan heim og einkenni nútímans. Það þýðir hins vegar ekki að ríkisvaldið sé ósnortið af veruleika trúar og trúfélaga eða tengsl kirkju og ríkis séu ekki til staðar í einhverri mynd á hverjum tíma.
    Krafan um „algjöran aðskilnað” ríkis og kirkju missir að okkar mati marks því hún horfir fram hjá veigamiklum atriðum sem er nauðsynlegt að hafa í huga til að skilja ríki og kirkju.

    Í fyrsta lagi snúast tengsl ríkis og kirkju um stöðu trúarbragða í menningunni og hvernig hið opinbera tengist þeim í samfélaginu. Undir þetta fellur hvernig trú, trúfélög og trúarbrögð móta einstaklinginn í nútímanum, viðhorf hans, lífstúlkun og mannskilning. Trú er persónulegs eðlis en samt ekki einkamál hvers og eins. Samspil einstaklings og samfélags er gagnvirkt að þessu leyti og á sér stað í hinu opinbera rými.

    Í öðru lagi lúta tengsl ríkis og kirkju að því hvernig hið opinbera hefur bein afskipti af starfsemi trúfélaga í gegnum lagasetningar og reglugerðir. Hér ber að horfa til þjónustu sem ríkið innir af hendi í þágu allra trúfélaga, vegna þess að framlag þeirra til samfélags og velferðar eru metin. Ríkið þjónustar trúfélög m.a. með innheimtu sóknargjalda, sem eru einmitt ekki bein framlög hins opinbera.

    Í þriðja lagi þarf að huga að sérstakri stöðu þjóðkirkjunnar sem stærsta trúfélags í landinu með auknar skyldur og ábyrgð þess vegna. Um það hefur Hæstiréttur fjallað og komist að því að núverandi tengsl ríkis og trúfélagsins þjóðkirkjunnar brjóti ekki gegn jafnræðisreglu ríkisins eða séu óeðlileg út frá mannréttindasjónarmiðum.

    Annars skiljum við ekki ríki og kirkju.

    Birtist í Fréttablaðinu, 16. júní 2010.