Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Tíu hversdagsleg þakkarefni og einn kalkún

    Þakkargjörðarkjúklingurinn Cobbler náðaður
    Þakkargjörðarkjúklingurinn Cobbler var náðaður af Obama Bandaríkjaforseta. Mynd: Pete Souza.

    Í dag er þakkargjörðardagur í Bandaríkjunum. Í tilefni hans viljum við bera fram nokkur þakkarefni:

    1. Að vakna snemma – því við eigum börn og elskum þau.
    2. Húsið sem þarf að þrífa – því við eigum heimili.
    3. Óhreina þvottinn – því við eigum föt til að klæðast.
    4. Óhreinu diskana og glösin – því við höfum nóg af mat.
    5. Matarleifarnar undir eldhúsborðinu – því fjölskyldan okkar borðar saman.
    6. Innkaupin – því við höfum peninga til að kaupa mat.
    7. Klósettin sem þarf að þrífa – því við búum við gott hreinlæti.
    8. Hávaðann á heimilinu – því börnin okkar skemmta sér.
    9. Endalaust margar spurningar – því börnin okkar eru fróðleiksfús.
    10. Háttatíma þegar við erum lúin og þreytt – því við erum ennþá á lífi.

    Fyrir hvað ert þú þakklát í dag?

    Chelsea Lee Smith samdi þessa þakkarbæn og birti á blogginu sínu Moments A Day Við fundum þetta hjá netmunkunum í Unvirtous Abbey sem eru óþrjótandi uppspretta.

  • Þú ert of mikilvægur til að fara ekki í fæðingarorlof

    Í Fréttablaðinu og á Vísi í dag er sagt frá því að færri feður fari í fæðingarorlof en undanfarin ár. Samkvæmt fréttinni hefur hlutfallið lækkað úr 90% í 77% frá 2009 til 2014. Þetta eru slæmar fréttir. Mig langar því að birta hér á blogginu stutt bréf til nýbakaðra feðra sem eru að velta fyrir sér hvort þeir eigi að fara í fæðingarorlof eða ekki.

    Heiðbjört Anna leikur sér meðan.
    Þetta er Heiðbjört Anna sem naut þess að vera með pabba og mömmu í fæðingarorlofi.

    Kæri faðir.

    Ég hef þrisvar sinnum verið í fæðingarorlofi. Þetta hefur alltaf verið góður tími. Ég veit að hann hefur skipt mig miklu máli og er viss um að dæturnar hafa notið hans líka. Ég er líka sannfærður um að þetta hefur haft heilmikil áhrif á samband okkar.

    Staðreynd málsins er sú að tíminn okkar með börnunum okkar skiptir máli. Árin líða hratt og fyrr en varir eru þau orðin hálffullorðin og við höfum misst af mótunarárunum. Ég á því aðeins eitt ráð til þín sem ert að velta fyrir þér hvort þú eigi að taka fæðingarorlof:

    Ekki hugsa þig um tvisvar. Farðu í fæðingarorlof og njóttu þess með börnunum þínum og fjölskyldunni.

    Að eiga þrjá eða fleiri mánuði með barninu sínu eru nefnilega forréttindi. Vinnan getur beðið og verkefnin líka. Barnið getur hinsvegar ekki beðið.

  • Eru stjúpfjölskyldur normal í kirkjunni?

    Við vorum þrír prestar í litlum hópi fagfólks sem sat dagsnámskeið um stjúptengsl í síðustu viku. Námskeiðið var haldið af Valgerði Halldórsdóttur félagsráðgjafa og aðjúnkt við HÍ, sem hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í miðlun og rannsóknum á stjúptengslum og stjúpfjölskyldum.

    Markmiðið með námskeiðinu var að gefa fagfólki sem vinnur með fjölskyldum í starfi sínu færi á að kynnast helstu þáttum sem hafa áhrif á tengsl og líðan í stjúpfjölskyldum, svo það komist hjá því að auka óvart á streitu í fjölskyldum vegna þekkingarleysis heldur dragi einmitt frekar úr henni. Aukin þekking á sérstöðu stjúpfjölskyldna og á algengum uppákomum í stjúpfjölskyldum gefur fagfólki í fjölskylduvinnu meira öryggi í samstarfi við stjúpfjölskyldur og einstaklinga sem tilheyra þeim. (more…)

  • Hvað er til ráða þegar barnið horfir of mikið á sjónvarp?

    Handritshöfundurinn Mark Valenti bloggaði um sjónvarpsáhorf barna fyrr í þessari viku. Í bloggfærslunni sinni kynnti hann aðferð sem má beita til að draga úr sjónvarpsglápi barna. Útgangspunkturinn er sá að foreldri segir barni sínu að það megi horfa eins mikið á sjónvarp og það vill. Sá böggull fylgir þó skammrifi að fyrir hvern þátt eða bíómynd þarf að leysa nokkur verkefni:

    1. Nefna persónurnar sem komu fyrir í sögunni.
    2. Segja frá því um hvað sagan fjallar.
    3. Nefna eftirminnileg lög sem voru í þætti eða mynd og jafnvel syngja hluta af þeim.
    4. Segja frá því hvernig sagan endaði.
    5. Segja frá því hvort það væri eitthvað sem barnið hefði gert öðruvísi ef það væri ein af aðalpersónunum?

    Þessu má svara skriflega er barnið er nógu gamalt, annars í samtali foreldris og barns. Smátt og smátt venjast börnin á að horfa ekki gagnrýnislaust heldur rýna í það sem þau horfa á og íhuga sjónvarpsefnið. Úr þessu getur líka orðið ágætis samvera foreldris og barns.

    Þegar börnin þurfa að gera þetta eftir hvern einasta þátt fá þau um leið ástæðu til að velja áhugaverða þætti sem þau nenna að hugsa um, eins og Valenti skrifar: „Þau munu ekki lengur nenna að horfa á þætti sem grípa þau ekki því þau vilja ekki þurfa að svara spurningum um slíka þætti.“

    Þá er líka stigið skref í átt að því markmiði að kenna krökkunum að sjónvarpið er ekki miðill sem við eigum að meðtaka gagnrýnislaust heldur miðill sem er mest spennandi þegar við nálgumst hann á virkan hátt og og rýnum í það sem við horfum á.

    Þetta er snjöll nálgun sem við hlökkum til að prófa með krökkunum okkar.

  • Skólakvíði og skólagleði

    Guðrún Karls Helgudóttir:

    Biðjum fyrir börnum sem eru að byrja í skólanum. Fyrir því að skólastjórnendur og kennarar, foreldrar og börnin sjálf taki á öllu einelti, og komi í veg fyrir að farið sé illa með börn. Fyrir því að fullorðið fólk þori að taka ábyrgð og vera fullorðin þegar kemur að ofbeldi.

    Upphaf skólastarfsins á haustin er tími gleði og kvíða. Það er full ástæða til að vera meðvituð um hvort tveggja svo að við getum sem best stutt við börnin okkar.

  • Hildur og barnið sem elskar

    Hildur Eir Bolladóttir um ástarjátningu barnsins:

    Þegar lítið barn segir við þig „ég elska þig“ þá upplifirðu sennilega hvernig hamingjan getur staðið samsíða óttanum um stund. Þegar barn segir við þig „ég elska þig“ er eins og þér sé skyndilega lyft frá jörðu og eitt augnablik færðu litið inn um gáttir himnanna þar sem ekkert fær staðist nema sannleikurinn einn.

    Nákvæmlega.

  • Ekki endilega fyrstur í mark

    Tómas Viktor á nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga

    Tómas Viktor, sem er næstyngstur barnanna á heimilinu, tók þátt í Nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga sem var haldið í Laugardalslauginni í dag. Þarna voru saman komnir krakkar og foreldrar sem æfa sund og eru mörg hver meistarar. Sum voru að stíga fyrstu skrefin á sundbrautinni, önnur þrautreyndir sundkappar sem hafa jafnvel keppt um árabil. Við sáum einn ólympíumeistara á mótinu í dag og erum viss um að fleiri leynast í hópi keppenda.

    Á þessu móti er það því ekki endilega sá eða sú sem fyrst kemur í mark sem vinnur besta afrekið, heldur sá eða sú sem nær bestum tíma miðað við sinn flokk.

    Við lásum þessi orð í bæklingnum sem við fengum afhentan á mótsstað. Þetta er áminning um að fötluðu íþróttamennirnir sem kepptu á mótinu voru ekki öll í sama flokki og þar af leiðandi er árangurinn ekki endilega sambærilegur. Sundkappi getur náð framúrskarandi árangri þótt hann sé ekki fyrstur í sínum riðli. En þetta miðlar líka grunngildi alls íþróttastarfsins sem er viljinn til að gera betur, sama hvert formið er.

    Við þurfum ekkert endilega að vera best af öllum, en það er gaman að vera betri en við vorum sjálf í gær eða í fyrra.

    Fleiri myndir frá mótinu.

  • Það sem kirkjan getur lært af leikskólanum

    Árni situr í foreldraráði leikskóla Elísabetar og Tómasar Viktors. Í dag var haldinn fundur í foreldraráðinu til að skipuleggja starfið sem er framundan. Eitt málið á dagskrá fundarins var mat á starfsáætlun leikskólans fyrir veturinn sem er að líða.

    KartöflurLeikskólastjórinn lagði verkefnið upp svona: Þið skoðið starfsáætlunina sem er á vef leikskólans og svo leggið þið mat á þetta, hvað tókst vel og hvað tókst ekki jafn vel, við hvað höfum við staðið og hvað ekki. Svo bætti hún við: „Það er nefnilega svo auðvelt að gefa loforð á blaði áður en vetrarstarfið hefst.“

    Þessi fyrirmyndarvinnubrögð fengu okkur til að hugsa um hliðstæðuna við kirkjustarfið. Hver er staðan í kirkjunni þegar kemur að því að gera áætlanir og meta hvernig að var staðið? Hvar leggjum við fram svona starfsáætlanir? Hvenær er farið yfir þær og hver sér um það?

    Við vildum gjarnan sjá svona vinnubrögð í kirkjunni. Starfsfólk safnaðarins gæti sest niður með prestinum og lagt línurnar í æskulýðsstarfinu, barnastarfinu, fermingarfræðslunni, biblíulestrunum, 12 spora kerfinu, eldri borgara starfinu o.s.fr. fyrir veturinn og fengið svo fólkið í sóknarnefndinni – fulltrúa þeirra sem þiggja þjónustuna – til að fara yfir og meta.

    Hér er óneitanlega tækifæri til að gera starfið í söfnuðunum okkar skilvirkara og lýðræðislegra. Útfærslurnar eru óendanlega margar en mestu máli skiptir að finna leiðir til að þjóna fagnaðarerindinu með þvi að vera ljós og salt í heiminum.

  • Dagur einhverfu er dagur fjölbreytni

    Hvað geta þau sem tala ekki, kennt okkur? Hvað sjá þau sem eru hugfangin af smáatriðunum? Hvernig upplifa þau sem hringsnúast lífið? Hvernig miðla þau sem bergmála, til okkar hinna?

    Á Degi einhverfunnar beinum við sjónum okkar og athygli að því sem hin einhverfu geta kennt okkur um fjölbreytileika lífsins. Álagið sem er fylgifiskur þess að eiga einhverft barn getur valdið því að við horfum framhjá gjöfunum sem sá einhverfi gefur og ljómanum sem hann varpar í kringum sig. Alltof oft vill umhverfið þvinga alla í sama mót og þau sem passa ekki inn í væntingar um það sem þykir „eðlilegt“ eru jafnvel álitin byrði og ógæfa.

    En barninu sem er einhverft fylgir ekki ógæfa heldur gæfa. Það er vissulega öðruvísi, það gengur ekki í takt, það umturnar væntingum um eðlilegan þroska og áreynslulaust uppeldi. Til að geta notið og glaðst yfir slíku barni þurfum við að tengja upp á nýtt og vera opin fyrir hinu óvænta.

    Fjölskyldur einhverfra barna á Íslandi standa ekki einar. Það er okkar reynsla að stuðningsnet leikskóla, félagsþjónustu og heilbrigðiskerfis er ómetanlegur samherji einhverfa barnsins og fjölskyldunnar allrar. Þessa þjónustu ber að þakka og meta.

    Fyrir kennara, stuðningsfulltrúa og ráðgjafa erum við þakklát. Fyrir samfélag sem metur, hvetur og styður, gefur rými og skapar möguleika, erum við þakklát. Við erum líka þakklát fyrir fræðimenn sem sinna rannsóknum á einhverfu og því sem gagnast einhverfum börnum í námi og leik. Við erum þakklát fyrir áhugasamtök og stuðningsfélög sem halda utan um systkini og aðstandendur.

    Þakklátust erum við fyrir drenginn okkar sem minnir okkur á gildi þess sem er öðruvísi og beinir sjónum okkar að leyndardómum lífsins.

    Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 2. apríl 2012.

  • Sæluboð einhverfunnar

    Í dag er sunnudagur einhverfunnar og alþjóðlegur dagur bæna fyrir þeim sem eru einhverfir og með Asperger heilkenni. Í tilefni dagsins viljum við deila með ykkur þýðingu okkar á sæluboðum einhverfunnar.

    Sæl eru þau sem tala ekki,
    því að þau munu kenna okkur það sem er handan orðanna.

    Sæl eru þau sem einbeita sér að því smáa,
    því að þau munu sjá undur sem aðrir sjá ekki.

    Sæl eru þau sem hringsnúast,
    því að þau sjá lífið úr öllum áttum.

    Sæl eru þau sem sem eru sérlunduð,
    því að þau vita nákvæmlega hvað þau vilja.

    Sæl eru þau sem baða út höndunum,
    því að þeim munu vaxa vængir svo þau geti flogið.

    Sæl eru þau sem ganga alltaf sömu leiðina,
    því að þau eru staðföst og sönn.

    Sæl eru þau sem halda fast við siði sína og venjur,
    því að fyrir þeim verður lífið allt að helgiþjónustu.

    Sæl eru þau sem endurtaka sig,
    því að þau kunna að meta hvert hljóð og þagnirnar á milli þeirra.

    Sæl eru þau sem eru þrautseig,
    því að þau munu ljúka því sem aðrir gefast upp á.

    Sæl eru þau sem helga sig einni ástríðu,
    því að þau munu sjá dýptina í því sem öðrum yfirsést.

    Sæl eru þau sem leggja hvert smáatriði á minnið,
    því að þau varðveita það sem annars væri gleymt.

    Sæl eru þau sem berjast fyrir því að vera heyrð og samþykkt eins og þau eru,
    því að þau gæta réttar okkar allra.

    Sæl eru þau sem fylgjast með og bíða,
    því að þau munu uppgötva og þekkja og skilja.

    Sæluboðin minna okkur á að þau sem eru öðruvísi í augum samfélagsins geta kennt okkur margt um leyndardóma lífsins. Sæluboð einhverfunnar kallast á við sæluboðin í Matteusarguðspjalli. Höfundur þeirra heitir Tim og hann bloggar um einhverfu ásamt konu sinni Mary. Þau eiga einhverfan son eins og við.

    Við vitum ekki til þess að haldið hafi verið upp á þennan sunnudag í kirkjum hérlendis, en það er full ástæða til að taka upp þann sið, í kirkjunum og í samfélaginu okkar.