Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • 101 jólaskraut: Spútnik

    Klassískir jólakjólar og meððí í Spútnik á Laugavegi.
    Klassískir jólakjólar og meððí í Spútnik á Laugavegi.
  • Ljósberi í myrkri ofbeldis

    Sankta Lucia

    Í dag, 13. desember, er messudagur heilagrar Lúsíu sem lifði á Sikiley undir lok þriðju aldar og lét að öllum líkindum lífið í ofsóknum Díokletíanusar árið 304. Í okkar heimshluta birtast Lúsíuminnin helst í sænskum þjóðháttum sem hafa að einhverju leyti skolast hingað á land en í kirkjuhefðinni er Lúsía verndardýrlingur blindra, veikra barna, bænda, vændiskvenna sem hafa snúið við blaðinu, glergerðarmanna, bílstjóra, hjúkrunarkvenna, klæðskera, vefara, ritara og fleiri.

    Eins og aðrir dýrlingar er Lúsía fyrirmynd trúaðra í lífi sínu og trú, með því að standa gegn ríkjandi viðmiðum umhverfisins og veraldlegum kröfum. Lúsía er í myndlistinni gjarnan táknuð með augun sín á diski sem hún heldur á, því helgisagnir greina frá því þegar hún svipti sig sjóninni og fegurð augna sinna með því að rífa þau úr sér, til að sýna einhverjum vonbiðlinum að henni væri full alvara með því að varðveita trúarlega innblásinn meydóm sinn.

    Samkvæmt gregóríönsku tímatali var 13. desember stysti dagur ársins og minni Lúsíu því samofið því magnaða náttúrulega mómenti þegar nóttin ríkir á norðurhveli jarðarinnar. Tenging hennar við ljósið er sterk og hefur talað til ljósþyrstra norðurlandabúa því annað tákn Lúsíu er olíulampinn sem hún heldur á, eins og hinar klóku meyjar sem biðu brúðgumans í dæmisögunni. Enda getum við litið á Lúsíu sem táknmynd sálarinnar – eða kirkjunnar – sem á aðventunni bíður komu Krists.

    Lúsía er líka táknmynd fyrir örlög margra kvenna sem eru undir ákvarðanir og vald annarra settar. Hún er þolandi heimilisofbeldis og mansals eins og kynsystur hennar um allan heim enn þann dag í dag. Ofbeldi gegn konum er stór og svartur blettur á menningu okkar og því er við hæfi að staldra við einmitt á svartasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.

    Koma ljóssins í heiminn sem aðventan vísar til hefur þeim mun meiri áhrif eftir því sem myrkrið er meira. Hjúpuð myrkri blindu og valdbeitingar heldur Lúsía uppi ljósi vonarinnar sem nær til hinna kúguðu og gleymdu – einnig þessa jólaföstu.

    Pistillinn birtist fyrst á Trú.is. Myndina með pistlinum tók Bengt Nyman í Vaxholms Kyrka í desember á síðasta ári.

  • 101Jólaskraut

    101 Christmas

    Það þarf ekki að fara á glamúrjólatónleika til að upplifa jólastemningu. Það er til dæmis hægt að rölta niður Laugaveginn og upp Skólavörðustíginn og dást að útsjónarsömum jólaskreytingum í gluggum.

    Það er svo margt fallegt, ef að er gáð, þegar rölt er um miðbæinn þessa dagana.

  • Aðventumorgunn

    Advent morning

    Á aðventunni erum við borgarbörnin oft vakandi þegar sólin rís. Þá getum við séð með eigin augum þegar hún málar himininn gylltan með penslunum sínum fallegu. Á búsáhaldaaðventu er gott að taka frá tíma til að njóta einmitt þessa.

  • Aðventa og breytingastjórnun

    Jólastjarna

    Það er gott að enduruppgötva aðventuna og boðskap hennar með því að einfalda og hægja á. Orð Jesú í samkunduhúsinu (sem var eins konar kirkjuhús Gyðinganna) slá tóninn fyrir aðventuna og gefa henni merkingu hér og nú.

    Andi Drottins er yfir mér
    af því að hann hefur smurt mig.
    Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
    boða bandingjum lausn
    og blindum sýn,
    láta þjáða lausa
    og kunngjöra náðarár Drottins.
    Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ (Lk 4)

    Jesús beinir sjónum þangað sem skórinn kreppir. Til hinna fátæku meðal okkar. Þangað sem skortur ríkir. Við skulum horfa þangað með honum. Af nógu er að taka. T.d. var mikið af dagskrá Rúv helguð fátækt í heiminum heilan dag í nýliðinni viku og þar kom margt áhugavert fram. Fátækt getur í okkar samhengi þýtt t.d. skort á menntun og heilbrigðisþjónstu og leitt til félagslegrar einangrunar.  Fátækt getur líka fylgt skömm sem eykur á umfang vandans. Sérfræðingar hafa bent á að það sé mjög erfitt að fá fólk til að tjá sig um eigin fátækt og deila reynslu sinni, því það sé svo mikil skömm að vera stimpluð fátæk. Þarna þarf samfélagið að taka höndum saman – og við getum látið aðventuna verða afl til breytinga.

    Við viljum nota orðið búsáhaldaaðventa yfir þetta.  Að okkar mati tengist forskeytið búsáhalda- friðsamlegum mótmælum sem leiða til breytinga.  Búsáhaldaaðventan beinir sjónum okkar inn á við, til barnanna í kringum okkur, inn á heimilið, inn í eldhús, til þess sem vex og dafnar í nærumhverfinu okkar, til hins veika og smáa sem verður undir í kapphlaupinu um það sem er nýjast, dýrast, stærst og best.

    Búsáhaldaaðventan er algáð og heldur vöku sinni gagnvart þeim sem standa höllum fæti en hún gleðst líka yfir góðra vina fundi og samveru sem skapar og byggir upp. En hún setur spurningamerki við eyðslu og dýrar skemmtanir, gervigleði og utanaðkomandi kröfur um efnisleg gæði.

    Látum aðventuna verða afl til breytinga í okkar eigin lífi og í samfélaginu okkar. Tökum Jesús til fyrirmyndar.

  • Litabók aðventunnar

    Aðventan er tími litanna. Við getum tengt marga liti við þennan tíma biðar og eftirvæntingar. Á vefsíðu kirkjunnar segir um aðventuna:

    Litur hennar er fjólublár sem er litur iðrunarinnar. Fjólublátt er blandaður litur, samsettur af bláu, sem er táknlitur himinsins, og trúmennsku og sannleika, svörtu sem er litur sorgar og rauðu sem er litur kærleikans.

    Við þetta má bæta einum lit sem er hvíti litur fyrsta sunnudags í aðventu. Fyrsti sunnudagurinn sker sig úr hinum sem hátíðisdagur með gleðiþema í kirkjunni. Liturinn sem tilheyrir honum er því hvíti litur fagnaðarins.

    Hvaða litur einkennir aðventuna þína? Er það fjólublái iðrunarliturinn, svarti sorgarliturinn, blái himinliturinn – og Maríu meyjar -, hvíti litur fagnaðarins eða rauði litur kærleikans?

    Við þurfum að taka allan litakassann fram á aðventunni því hún spannar breitt litróf. Alveg eins og lífið.

    Ps. Smellið á myndina hér að ofan til að opna eintak sem má prenta og lita!

  • Búsáhaldaaðventan er hér

    Aðventan er elskulegur og dýrmætur tími. Hún er í eðli sínu undirbúningur og bið eftir jólahátíðinni þegar við fögnum fæðingu Jesúbarnsins blíða.

    A curious place for cutlery IIVið höfum öll upplifað þennan undirbúning fara úr böndunum og eigum það stundum til að yfirkeyra okkur á hlutum eins og verslun, neyslu á mat og drykk, framkvæmdum og skemmtanahaldi. Reikningurinn sem kemur á eftir getur gengið nærri efnahag og tilfinningum. Aðallega rænir asinn og erillinn því fegurðinni í því smáa og hljóða sem aðventan gefur fyrirheit um.

    Þess vegna viljum við enduruppgötva aðventuna og boðskap hennar með því að einfalda og hægja á. Við köllum það búsáhaldaaðventu. Við tengjum forskeytið búsáhalda- við friðsamleg mótmæli – krúttpönk – sem leiða til breytinga.

    Búsáhaldaaðventan beinir sjónum okkar inn á við, til barnanna í kringum okkur, inn á heimilið, inn í eldhús, til þess sem vex og dafnar í nærumhverfinu okkar, til hins veika og smáa sem verður undir í kapphlaupinu um það sem er nýjast, dýrast, stærst og best.

    Búsáhaldaaðventan er alsgáð og heldur vöku sinni gagnvart þeim sem standa höllum fæti en hún gleðst líka yfir góðra vina fundi og samveru sem skapar og byggir upp.

    Þetta blogg verður vettvangur Búsáhaldaaðventunnar og miðlar áherslum hennar og hugðarefnum fram að jólum. Við ætlum líka að skrifa í búsáhaldatístið á hverjum degi.

    Lumar þú kannski á einhverju sem á erindi á Búsáhaldaaðventu? Sendu okkur línu.

  • Aðventukrans minninganna

    Ljósin á aðventukransinum lýsa okkur í biðinni eftir jólunum og minna á tímann sem líður og reynsluna sem mótar okkur. Stundum tökum við á móti jólunum í gleði og eftirvæntingu. Stundum væntum við þeirra í sorg og sársauka. Hvert kerti á kransinum getur skírskotað til minninganna sem við berum með okkur en vísar um leið til vonarinnar sem jólin eru fyrirheit um.

    Fyrsta kerti

    Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

    Annað kerti

    Annað aðventukertið lýsir upp sársaukann yfir erfiðum breytingum sem hafa orðið í lífinu okkar. Það geta verið sambandsslit, atvinnumissir, fjárhagslegt áfall, heilsubrestur, frelsissvipting vegna streitu og álags, og hvers kyns breytingar sem skilja okkur eftir í einsemd. Við nefnum það sem veldur sársaukanum, leggjum okkur í Guðs hendur og biðjum um frið í hjartað.

    Þriðja kerti

    Þriðja aðventukertið er tendrað fyrir þau sem hafa misst áttir í lífinu og finnst þau vera týnd. Við þurfum öll að hafa stefnu í lífinu, að vita hver við erum og á hvaða leið við erum. Þess vegna er gott að þiggja leiðsögn ljóssins sem kemur í heiminn og vill upplýsa hvert og eitt okkar. Við tendrum ljós og biðjum fyrir þeim sem hafa misst sjónar á ljósinu og biðjum Guð að leiða þau í öruggt skjól.

    Fjórða kerti

    Fjórða aðventukertinu fylgir vonin um allt það sem jólin færa okkur. Barnið í jötunni er fyrirheit um frið og gleði handa öllum Guðs börnum. Við biðjum að ljós jólanna upplýsi huga og hjarta og að ljós okkar fái lýst bræðrum okkar og systrum.