Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblíublogg 28: Biblían í tölum

    Bækurnar í Biblíunni eru 66 talsins, þar af eru 39 í gamla testamentinu og 27 í því nýja. Við það bætast apokrýfu bækurnar. Stysta bókin í Biblíunni er 2. Jóhannesarbréf, sú lengsta er Saltarinn.

    Kaflarnir í Biblíunni eru 1189, versin eru 31173, þar af eru 929 kaflar og 23214 vers í gamla testamentinu og 260 kaflar og 7959 vers í því nýja. Orðin eru næstum 800 þúsund, þar af eru þrír fjórðu í gamla testamentinu og fjórðungur í því nýja (nákvæmur orðafjöldi fer að sjálfsögðu eftir þýðingum).

    Stysta versið Biblíunnar er að finna í Jóh. 11.35:

    Þá grét Jesús.

    Það lengsta er í Ester 8.9:

    Á tuttugasta og þriðja degi þriðja mánaðar, mánaðarins sívan, voru ritarar konungs kallaðir saman. Rituðu þeir hvað eina, sem Mordekaí mælti fyrir, til Gyðinga, til skattlandsstjóranna, landshöfðingjanna og höfðingja héraðanna hundrað tuttugu og sjö, allt frá Indlandi til Eþíópíu, til hvers héraðs með letri þess héraðs, til hverrar þjóðar á tungu hennar og jafnframt til Gyðinga með þeirra letri og á þeirra tungu.

    Í Biblíunni miðri er Sálmur 117:

    Lofið Drottin, allar þjóðir,
    vegsamið hann, allir lýðir,
    því að miskunn hans er voldug yfir oss
    og trúfesti Drottins varir að eilífu.
    Hallelúja.

    Hann er líka stysti kafli Biblíunnar. Sá lengsti er Sálmur 119 sem stendur þar hjá.

    Þessar tölur höfum við af síðunni GotQuestions og við viljum deila þeim með ykkur ykkur í tuttugasta og áttunda Biblíublogginu. Hér með lýkur þessari tilraun til að fjalla um Biblíuna í 28 bloggfærslum. Guð geymi ykkur í dag og alla daga.

  • Biblíublogg 27: Við getum ekki annað

    Í dag verður haldið málþing í tilefni af sjötugsafmæli Gunnars Kristjánssonar prófasts á Reynivöllum í Kjós um framlag Gunnars í ræðu og riti á ólíkum sviðum kirkjulífs, menningar og samfélagsumræðu.

    Eitt af því sem skoðað verður er prédikunarguðfræði Gunnars en hann er ekki bara mikilhæfur prédikari sjálfur heldur hefur hann skrifað og þýtt prédikunarfræði.

    Í samtíma prédikunarfræðum er mikið horft á prédikarann sjálfan og hvernig hann eða hún miðlar trúarreynslunni. Í bókinni Á mælikvarða mannsins sem Gunnar þýddi, kemur fram að eldri áherslur litu á prédikunarþjónustuna sem þjónustu boðberans eða kallarans. Hlutverk boðberans er jú að flytja það sem honum er trúað fyrir, hvorki meira né minna, og láta sig síðan hverfa. Innihaldið skiptir hann engu máli, engu skiptir hvað hann sjálfur hugsar og honum má standa á sama um þýðingu þess sem honum er falið að flytja.

    Samkvæmt prédikunarguðfræði sem byggir á mikilvægi einstaklingsins í miðlun fagnaðarerindisins, er því ekki þannig farið. Hliðstæðan við prédikarann eða prestinn er miklu fremur vitnið heldur en boðberinn, sbr. Post. 4.20 um fólkið sem tjáir sig um það sem það hefur sjálft séð og heyrt og getur ekki þagað yfir. “Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt.“

    Næstsíðasta biblíubloggið okkar rifjar því upp fordæmið sem við finnum í hinum fyrstu kristnu sem fóru með boðskapinn út í heiminn af því þau gátu ekki annað en talað það sem þau höfðu séð og heyrt.

  • Biblíublogg 26: Biblían er á toppi vinsældarlistans

    Í toppsæti vinsældarlista Rásar 2 þessa vikuna trónir lagið Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá með Jónasi Sigurðssyni og ritvélum framtíðarinnar. Lagið var frumflutt í mótmælum á Austurvelli í nóvember og gefið út á þessu ári. Í textanum er vísað í tollheimtumenn (sbr. Matt 9.10), sannleikann (sbr. Jóh 18.38), aldingarðinn Eden (sbr. 1Mós 2-3), gullkálfinn (sbr. 2Mós 32) og svo auðvitað orðatiltækið „af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ sem er sótt í 7. kafla Matteusarguðspjalls:

    Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá. (Matt 7.15-20)

    Þannig getum við sagt að Biblían tróni á toppi vinsældarlista Rásar 2.

  • Biblíublogg 25: Maríukjúklingur

    Biblíumatur er bragðgóður og hollur. Í uppskriftirnar er notað hráefni sem var til á tíma Biblíunnar. Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, er einn þeirra sem hefur eldað Biblíumat og sagt frá honum í ræðu og riti. Þessi uppskrift er sótt á vefinn hans.

    Maríukjúklingur fyrir fjóra

    Maríukjúklingur
    Maríukjúklingur.
    4 kjúklingabringur
    4-6 hvítlauksgeirar
    1 tsk kúmmín
    1,5 tsk túrmerik
    1 tsk kanill malaður
    Salvía, helst fersk annars þurrkuð
    1 stór rauðlaukur
    3 skalottulaukar (sbr. Askelon en líka oft kallaður vorlaukur á íslensku)
    Sítrónubörkur rifin með rifjárni
    Safi úr einni sítrónu (helst lífrænni) ca 70 ml. má líka vera appelsínubland
    150 gr. spínat
    300 ml. grænmetiskraftur
    10 döðlur – langskornar. Mega líka vera fíkjur/sveskjur í staðinn.
    Maldonsalt
    Heslihnetur – til skreytingar

    Maldonsalt og olía á heita pönnu. Kjúklingurinn á pönnuna og meira maldon yfir sem og salvían. Laukurinn skorinn fínt og steiktur, settur við hlið kjúklingabitanna. Kryddað yfir allt og sítrónubörkur yfir. Ekki síðra að leyfa síðan standa í sólarhring í kæli. Sítrónuvökvi, spínat og hnetur yfir og síðan fært í ofn eða pott og látið malla í fjörutíu mínútur. Gæta að vökvinn fari ekki allur, bæta við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með soðnu bulgur (eða byggi eða kúskús).

    Verði þér að góðu.

  • Biblíublogg 24: Hugleikur og heimsendir

    Opinberun eftir Hugleik Dagsson
    Tveir rammar úr myndasögunni Opinberun eftir Hugleik Dagsson.

    Myndasagan Opinberun eftir Hugleik Dagsson fjallar um það þegar nokkrar geimverur setja upp sjónvarpsleikrit – eins konar raunveruleikasjónvarp – sem er byggt á Opinberun Jóhannesar. Það er síðasta bókin í Biblíunni, hún fjallar um heimsslit og geymir margar afar myndrænar lýsingar.

    Það er bæði forvitnilegt og gagnlegt að lesa bókina, ekki síst fyrir það hvernig hún bregður ljósi á bókastafstúlkun á Biblíutextunum. Í meðförum Hugleiks er það beinlínis spurning um líf og dauða.

  • Biblíublogg 23: Næturgalinn

    Tuttugasti og þriðji Davíðssálmur er einn þekktasti sálmur Saltarans. Gunnlaugur A. Jónsson kallar hann næturgalann meðal sálmanna í nýrri bók sinni um Áhrifasögu Saltarans. Í tuttugasta og þriðja Biblíublogginu langar okkur að deila honum með ykkur.

    Drottinn er minn hirðir,
    mig mun ekkert bresta.
    Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
    leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
    Hann hressir sál mína,
    leiðir mig um rétta vegu
    fyrir sakir nafns síns.
    Þótt ég fari um dimman dal
    óttast ég ekkert illt
    því að þú ert hjá mér,
    sproti þinn og stafur hugga mig.
    Þú býrð mér borð
    frammi fyrir fjendum mínum,
    þú smyrð höfuð mitt með olíu,
    bikar minn er barmafullur.
    Gæfa og náð fylgja mér
    alla ævidaga mína
    og í húsi Drottins
    bý ég langa ævi.

  • Biblíublogg 22: Mannakorn

    Á mörgum heimilum eru til box með svokölluðum mannakornum. Í þeim eru pappaspjöld með stuttum ritningarversum sem hægt er að draga. Stundum leynast þar skilaboð sem hafa merkingu fyrir okkur hér og nú. Það er hægt að draga sér mannakorn á vef Hins íslenska Biblíufélags. Þar drógum við þetta mannakorn í dag:

    Biðjið, leitið Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. (Matt. 7.7-8)

    Orðið mannakorn vísar til 2. Mósebókar þar sem segir:

    Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. 15Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. […] Ísraelsmenn nefndu þetta manna. Það var hvítt eins og kóríanderfræ og eins og hunangskaka á bragðið. (2Mós. 16)

    Þannig eru mannakornin líka hugsuð, sem andleg næring í dagsins önn.

  • Biblíublogg 21: Elskhugi minn

    Samband kristinnar trúar og kynlífssviðsins er margrætt og flókið. Bent hefur verið á að á sínum tíma hafi áhrifamiklir kristnir guðfræðingar hreinlega farið í stríð við kynhvötina og séð hana sem óvin og keppinaut trúarinnar.

    Það breytir ekki mannlegri reynslu og vitnisburðinum um hana, sem við finnum í Biblíunni. Ein áhugaverðasta bók ritningarinnar er Ljóðaljóðin sem innihalda ástarjátningar tveggja elskenda og mjög litríkar og fallegar lýsingar á unaði ástarinnar.

    Þessi vers úr fjórða kaflanum eru gott dæmi um það:

    Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur,
    og augu þín dúfur
    undir andlitsblæjunni.
    Hár þitt er sem geitahjörð
    sem rennur niður Gíleaðfjall,
    tennur þínar ær í hóp,
    nýrúnar og baðaðar,
    allar tvílembdar
    og engin lamblaus.
    Varir þínar eru sem skarlatsborði
    og munnur þinn yndislegur,
    gagnaugun eins og sneitt granatepli
    undir andlitsblæjunni.
    Háls þinn er eins og turn Davíðs
    sem vopnum er raðað á,
    þar hanga þúsund skildir,
    öll hertygi garpanna.
    Brjóst þín eru eins og tveir hindarkálfar,
    dádýrstvíburar
    að leik meðal lilja.
    Þegar kular í dögun
    og skuggarnir flýja
    mun ég halda til myrruhólsins
    og reykelsishæðarinnar.
    Öll ertu fögur, ástin mín,
    lýtalaus með öllu.

    Hér eru engir 50 gráir skuggar á ferð, heldur eintóm litadýrð, ást og unaður.

  • Biblíublogg 20: Fastan og ferðaþjónustan

    Er sú fasta sem mér líkar
    sá dagur er menn þjaka sig,
    láta höfuðið hanga eins og sef
    og leggjast í sekk og ösku?
    Kallar þú slíkt föstu
    og dag sem Drottni geðjast?
    Nei, sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn
    og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
    og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
    Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
    og sár þín gróa skjótt,
    réttlæti þitt fer fyrir þér
    en dýrð Drottins fylgir eftir. (Jes 58.5-8)

    Margir hafa þá mynd af föstunni að hún sé tíminn þegar við neitum okkur um eitthvað, til dæmis kjöt, að við fórnum einhverjum af lífsgæðunum til að geta betur einbeitt okkur að Guði. Í 58. kafla spádómsbókar Jesaja birtist önnur mynd. Hér er fastan ekki fórnartími heldur þjónustutími þegar hagsmunir þeirra sem hafa það ekki eins gott og við eru settir í forgrunn. Út frá því mætti segja að fastan í ár væri til dæmis góður tími til að klára lagfæringar á ferðaþjónustu fatlaðra.

  • Biblíublogg 19: Teiknimyndin

    Það er hægt að miðla Biblíusögunum með margvíslegum hætti. Til dæmis í teiknaðri skýringarmynd eins og þessari sem fjallar um 12. kafla fyrra bréfs Páls til Korintumanna. Þar segir meðal annars:

    Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og öll fengum við einn anda að drekka.

    Vísun frá Mary Hess.