Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblían og Ásatrúarmenn

    Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði:

    Þetta hefur verið mikil eyðimerkurganga.

    Orðin lét Hilmar Örn falla í viðtali við Fréttablaðið. Tilefnið er löng bið þeirra Ásatrúarmanna eftir hofi. Orðatiltækið á rætur að rekja til Biblíunnar og vísar til Ísraelsmanna sem voru 40 ár í eyðimörkinni, sbr. orðin í Jósúa 5.6:

    Í fjörutíu ár gengu Ísraelsmenn um eyðimörkina

    Áhrif Biblíunnar eru víða.

  • Er Biblían of löng?

    Það er líklega sjaldnast sem við lesum alla Biblíuna í einu, alla jafna er henni skipt upp í smærri einingar. Í messunni á sunnudögum lesum við til að mynda þrjá lestra, einn úr Gamla testamentinu, tvo úr því nýja. Svo eru til margs konar lestraskrár sem má fylgja.

    En hvað gerum við ef við viljum draga kjarnann í Biblíunni saman? Það er þekkt að Marteinn Lúther sagði að við ættum að lesa hana með það í huga hvað efldi Krist. Hvernig á að skilja það er reyndar annað mál. Það er líka hægt að fara allt aðrar leið. Ein slík tilraun var birt á reddit í síðustu viku og þar segir meðal annars:

    Guð: Ok, þið tvö, það er eitt sem þið megið ekki gera. Annars er þetta bara spurning um að skemmta sér vel.
    Adam og Eva: Allt í lagi.
    Satan: Má ég stinga upp á einu?
    Adam og Eva: Allt í lagi.
    Guð: Hvað gerðist!?!
    Adam og Eva: Sko, það var þarna eitt sem við gerðum.
    Guð: Krakkar!

    Ég snaraði þessu á íslensku í gær, svo að fleiri fái notið. Hvernig mynduð þið annars draga kjarnann í Biblíunni saman?