Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 10: Hægeldað að frönskum hætti

    Fátt dregur fram gæði augnabliksins betur fram en matreiðsla úr góðu hráefni þegar enginn asi ríkir.  Þetta á sannarlega við um eðalréttinn Boeuf Bourgignon sem Meryl Streep í hluverki Julia Child vakti svo rækilega athygli á fyrir nokkrum árum. Þennan rétt eldaði Kristín á mánudaginn og bar fram fyrir heimilisfólk auk ömmu og afa sem voru í heimsókn.

    Uppskriftin sem hún fylgdi kemur úr dönsku matreiðslubókinni Middelhavets køkken. Hún er svona:

    • 600 g nautakjöt
    • 100 g beikon
    • 25 g smjör
    • 1 1/2 msk hveiti
    • 2 msk tómatpúrré
    • 1 flaska rauðvín
    • 1/2 l kjötkraftur
    • 6-8 kvistir timían
    • 6 lárviðarlauf
    • 6 perlulaukar
    • 6 hvítlauksrif
    • 600 g gulrætur
    • 400 g sveppir
    • salt og nýmalaur svartur pipar

    Beikonið er steikt í stórum potti og svo lagt til hliðar. Kjötið skorið í litla teninga og steikt í smjöri, saltað og piprað. Hveiti drusað yfir, tómatpúrré bætt út í og hrært vel í. Bætið víni, kjötkrafti, kryddi og lauk út í og látið malla í 1 1/2 tíma. Svo er gulrótum og sveppum og beikoninu bætt út í og látið malla í hálftíma í viðbót. Ferskt timían notað til að skreyta þegar rétturinn er borinn fram, gjarnan með salati, hvítu brauði eða kartöflumús.

    Bon appetit!

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Hvað er til ráða þegar barnið horfir of mikið á sjónvarp?

    Handritshöfundurinn Mark Valenti bloggaði um sjónvarpsáhorf barna fyrr í þessari viku. Í bloggfærslunni sinni kynnti hann aðferð sem má beita til að draga úr sjónvarpsglápi barna. Útgangspunkturinn er sá að foreldri segir barni sínu að það megi horfa eins mikið á sjónvarp og það vill. Sá böggull fylgir þó skammrifi að fyrir hvern þátt eða bíómynd þarf að leysa nokkur verkefni:

    1. Nefna persónurnar sem komu fyrir í sögunni.
    2. Segja frá því um hvað sagan fjallar.
    3. Nefna eftirminnileg lög sem voru í þætti eða mynd og jafnvel syngja hluta af þeim.
    4. Segja frá því hvernig sagan endaði.
    5. Segja frá því hvort það væri eitthvað sem barnið hefði gert öðruvísi ef það væri ein af aðalpersónunum?

    Þessu má svara skriflega er barnið er nógu gamalt, annars í samtali foreldris og barns. Smátt og smátt venjast börnin á að horfa ekki gagnrýnislaust heldur rýna í það sem þau horfa á og íhuga sjónvarpsefnið. Úr þessu getur líka orðið ágætis samvera foreldris og barns.

    Þegar börnin þurfa að gera þetta eftir hvern einasta þátt fá þau um leið ástæðu til að velja áhugaverða þætti sem þau nenna að hugsa um, eins og Valenti skrifar: „Þau munu ekki lengur nenna að horfa á þætti sem grípa þau ekki því þau vilja ekki þurfa að svara spurningum um slíka þætti.“

    Þá er líka stigið skref í átt að því markmiði að kenna krökkunum að sjónvarpið er ekki miðill sem við eigum að meðtaka gagnrýnislaust heldur miðill sem er mest spennandi þegar við nálgumst hann á virkan hátt og og rýnum í það sem við horfum á.

    Þetta er snjöll nálgun sem við hlökkum til að prófa með krökkunum okkar.

  • Dauði og upprisa á diskóbar

    Lykillinn að því að skilja menningu og hópa er að setja fingur á það sem vekur með fólki mestan ótta og mesta von. Þetta sagði guðfræðingurinn Paul Tillich, sem var einn þekktasti túlkandi menningar og guðfræði á 20. öld. Í dægurtónlistinni birtist þetta sem þrá eftir því að vera elskuð og ótti við að vera skilin eftir.

    Það er sama hvar okkur ber niður, dægurtónlistarfólk um allan heim, frá Elvis og Bítlunum, hefur sett sína villtustu vonir og sárustu angist í búning dægurlaganna og sungið sig inn í hjörtu milljóna. Íslensk dægurlög eru þar engin undantekning, þörfin fyrir ást og óttinn við höfnun eru yrkisefni í mjúku skallapoppi, diskó- og danstónlist og harðasta rappi.

    Í tilefni dymbilviku og páska viljum við velta þessari tjáningu ástar og ótta í dægurlögunum fyrir okkur í ljósi yfirstandandi daga. Hér verða skoðuð tvö dægurlög sem fjalla um þrána eftir ást og óttann við höfnun og hafa skírskotun í þemu dymbilviku og páska – dauða og upprisu.

    „Ég var að leita að ást“

    Lagið Þú komst við hjartað í mér gaf Páll Óskar út á plötunni Allt fyrir ástina árið 2007. Hjaltalín gerði það síðar vinsælt í eftirminnilegri útgáfu. Yrkisefnið er ástin sem kviknar á skemmtistað þegar tveir einstaklingar mætast og það veldur straumhvörfum í lífinu sem verður heilt og gott upp frá þessu:

    „Á diskóbar ég dansaði frá cirka tólf til sjö.
    Við hittumst þar með hjörtun okkar brotin bæði tvö.“

    Diskóbarinn er umhverfið þar sem hið óvænta gerist, brotin hjörtu sem hafa laskast í átökum lífsins mætast og verða heil. Páll Óskar syngur um ástarleitina sem ber árangur. Afleiðingunni má lýsa sem kraftaverki og upprisu, úr vonbrigðum og einmanaleika rís hugrekki og líf. „Ég þori að mæta hverju sem er, þú komst við hjartað í mér“ syngur hann. Páll Óskar segir þannig ástarsöguna sem upprisusögu páskanna.

    „Vil ekki vakna því þá ferðu mér frá“

    Á öðrum diskóbar er önnur saga sögð um fólk í leit að ást, en nú frá sjónarhóli föstudagsins langa.

    „Á diskóstað ég dansaði frá cirka tólf til sjö
    við mættumst þar með klofin okkar opin bæði tvö“

    Þessi hending er í laginu Föstudagurinn langi sem kom út á samnefndri plötu rappsveitarinnar Úlfur Úlfur árið 2011. Þremenningarnir í Úlfur Úlfur sækja sér yrkisefni og innblástur úr ólíkum áttum að eigin sögn:

    „Innblásturinn er allstaðar að; hvort sem um er að ræða kvenfólk og næturbrölt eða æskuna og tilfinningalíf. Áhrifavaldarnir eru sömuleiðis úr öllum áttum og er þá hvorki spurt um stíl né stefnu. Niðurstaðan er frumleg nálgun á popptónlist sem spannar allan skalann.“

    Í Föstudeginum langa er nokkuð ljóst að Páll Óskar er áhrifavaldurinn. Bæði lögin fjalla um mót tveggja einstaklinga á skemmtistað. En formerkin eru öfug. Á meðan ástin er upprisa hjá Páli Óskari er hún uppspretta angistar hjá úlfadrengjunum. Föstudagurinn langi er ekki ástarsöngur heldur lostasöngur sem fjallar um endurtekin skyndikynni sem veita tímabundna lausn. Viðlagið tjáir þetta vel:

    „Þetta er föstudagurinn langi
    aðeins 52 á ári
    Sólin sest en stendur svo upp
    þú vaknar og gengur svo burt
    Vil ekki sofna, ég vil vera þér hjá
    vil ekki vakna því þá ferðu mér frá
    morguninn eftir þegar allt verður grátt
    þú ferð þína leið og ég í öfuga átt“

    Helgarnar eru allar eins og þær einkennast af „ást“ sem kviknar og slokkar, en skilur ekkert eftir sig. Leitin að ástinni og óttinn við einveru leiðir til hringrásar þar sem föstudagurinn langi er endurtekinn vikulega. Upprisan á sér aldrei stað og páskarnir koma aldrei, því um leið og sögumaður vaknar hverfur vonin um ástina – „þú ferð þína leið og ég í öfuga átt“.

    „Þú komst inn í líf mitt“

    Það sem við látum okkur varða mestu skilgreinir hver við erum. Svona má endurorða hugsun Paul Tillichs um það sem vekur okkur mesta von og mestan ugg. Sögurnar sem dægurlögin segja snúast um það hvernig leitin að ástinni knýr okkur áfram og leiðir annað hvort til lífs eða dauða, til páska eða föstudagsins langa.

    Föstudagurinn langi stendur hér fyrir tálsýnina um ástina, fyrir hina óuppfylltu von sem rætist ekki og skilur þess vegna eftir sig vonleysi og angist. Páskarnir standa fyrir hina uppfylltu ást, vonina sem rættist og leiðir til hugrekkis og öryggis.

    Að skilningi kristinnar kirkju heyra föstudagurinn langi og páskadagur saman. Annar fylgir á eftir hinum og getur ekki án hans verið. Fyrstur er föstudagurinn langi, svo páskadagur. Dægurlögin tvö sem hér hefur verið fjallað um draga fram megineinkenni á hvorum degi fyrir sig, annars vegar er endurtekning og vonleysi, hins vegar nýtt upphaf og von.

    Hinn kristni páskaboðskapur er sá að við vonin móti lífið, þrátt fyrir allt sem dregur úr okkur kjarkinn og bendir til hins gagnstæða. Á páskadegi verður angist og ótti að ást, dauði verður að lífi, vonleysi að von.

    Föstudagurinn langi verður að Þú komst við hjartað í mér.

    Fyrst birt í Sunnudagsmogganum 8. apríl 2012.