Hjalti Rúnar Ómarsson, ritstjóri vefritsins Vantrú:
Við í Vantrú vitum vel að prestar kirkjunnar trúa ekki játningunum sjálfir. Það verður samt að teljast undarlegt að prestur fari á hverjum einasta sunnudegi með postullegu trúarjátninguna þar sem talað er um almáttugan skapara, meyfæðinguna, endurkomu Jesú og upprisu mannkyns við hana, ef þeir trúa þessu svo ekki.
Fullyrðingar um trú einstaklinga eða hópa geta fallið undir það svið vísindanna sem kallað er trúarlífsfélagsfræði. Hún er kennd og iðkuð í guðfræði- og trúarbragðafræðideildum og félagsvísindadeildum í háskólum. Aðferðafræðin er sótt í smiðju félagsvísinda.
Ég myndi gjarnan vilja sjá empíríska rannsókn sem fullyrðing Hjalta Rúnars, fyrir hönd Vantrúar, um trú prestastéttarinnar byggir á. Hann birtir hana kannski á netinu ásamt þeim gögnum sem þar er unnið með. Þá er hægt að fara yfir og sannreyna ályktun þeirra félaga.
Út á það ganga vísindaleg vinnubrögð.