Í Fréttablaðinu og á Vísi í dag er sagt frá því að færri feður fari í fæðingarorlof en undanfarin ár. Samkvæmt fréttinni hefur hlutfallið lækkað úr 90% í 77% frá 2009 til 2014. Þetta eru slæmar fréttir. Mig langar því að birta hér á blogginu stutt bréf til nýbakaðra feðra sem eru að velta fyrir sér hvort þeir eigi að fara í fæðingarorlof eða ekki.
Kæri faðir.
Ég hef þrisvar sinnum verið í fæðingarorlofi. Þetta hefur alltaf verið góður tími. Ég veit að hann hefur skipt mig miklu máli og er viss um að dæturnar hafa notið hans líka. Ég er líka sannfærður um að þetta hefur haft heilmikil áhrif á samband okkar.
Staðreynd málsins er sú að tíminn okkar með börnunum okkar skiptir máli. Árin líða hratt og fyrr en varir eru þau orðin hálffullorðin og við höfum misst af mótunarárunum. Ég á því aðeins eitt ráð til þín sem ert að velta fyrir þér hvort þú eigi að taka fæðingarorlof:
Ekki hugsa þig um tvisvar. Farðu í fæðingarorlof og njóttu þess með börnunum þínum og fjölskyldunni.
Að eiga þrjá eða fleiri mánuði með barninu sínu eru nefnilega forréttindi. Vinnan getur beðið og verkefnin líka. Barnið getur hinsvegar ekki beðið.
Leave a Reply