Einn af uppáhalds veitingastöðunum okkar heitir Vapiano. Við kynntumst honum í Frankfurt í Þýskalandi og höfum líka borðað á samskonar stað í Berlín, Stokkhólmi og Lundúnum. Á einum af þessum stöðum spurðum við einn þjóninn út í hugsunina á bak við nafnið. Hann sagði eitthvað á þessa leið:
Við bjóðum upp á ítalskan mat. Vapiano er ítalska og merkir: Farðu hægt.
Okkur varð hugsað til þessa í gær þegar við hjóluðum frá Reykjavík til Hafnarfjarðar og aftur heim. Þetta var í fyrsta sinn sem við hjóluðum þessa leið. Okkur taldist til að við hefðum farið um það bil þrjátíu kílómetra og verið tæpan klukkutíma hvora leið. Tilefnið var skemmtilegt því Biskupsstofa, þar sem Árni vinnur, var að halda upp á lok átaksins Hjólað í vinnuna. Það var gert með grillveislu í Hafnarfirði.
Á leiðinni úr firðinum hittum við nokkra vini okkar og áttum skemmtilegt spjall. Við kynntumst líka strandlengjunni, sáum fugla og fólk. Þegar heim var komið hugsuðum við um það hvað við upplifðum margt sem við hefðum misst af ef ferðin hefði verið farin í bíl á sextíu kílómetra meðalhraða en ekki hjóli á fjórtán.
Á þrítugasta og níunda gleðidegi viljum við því þakka fyrir hjólastígana sem tengja hverfi, bæjarfélög og fólk, og hvetja alla lesendur bloggsins til að gefa sér tíma til fara hægt í gegnum lífið – í dag og alla aðra daga.
Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.
Leave a Reply